Samúel Jón Samúelsson
Samúel Jón Samúelsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
fimmtudagskvöldið 25. nóv.

TÓMAS R. Einarsson hefur farið einsog karabískur hvirfilbylur um landið þetta árið, en ekki skilið eftir sig eyðileggingu heldur kúbanska gleði af bestu sort. Á fimmtudagskvöldið hélt hann uppá það á Múlanum á Borginni að Djassbiblía Tómasar R, nótnabók með áttatíu ópusum bassaleikarans var að koma út og þar var nú heldur betur líf í tuskunum. Ungliðasveit hans, Óskar Guðjónsson tenóristi, Kjartan Hákonarson trompetþeytari, Samúel J. Samúelsson básúnublásari og Davíð Þór Jónsson píanisti með meiru voru í feikistuði og Tómas og Mattías M.D. Hemstock héldu sveiflunni, bæði karabískri og djassklassískri, gangandi ásamt Þórdísi Classen bongóleikara. Lögin voru blanda af karabíuefnisskrá Tomma og gömlu góðu lögunum og allt má það finna í Djassbiblíu Tómasar R. Þegar Tommi samdi Ólag, sem er á plötunni Nýr tónn, voru ungliðarnir í hljómsveit hans rétt að byrja í grunnskóla og annað lag af sömu plötu sem hljómaði á Borginni var Húlabopp. Þó að strákarnir hefðu aldrei séð það áður hljómaði það sannfærandi í ungæðislegri boppsveiflu. Mikill fengur var að heyra hinn undurfagra vals Hóf, sem enginn þarna hafði leikið áður utan Tómas einu sinni í sjónvarpsmynd sinni um Guðberg Bergsson. Óskar var fremstur meðal jafningja í sólóum sínum og Samúel verður æ betri básúnuleikari með jarðbundinn New Orleans-tóninn og ekki laust við að Kjartan sækti einnig á þau mið þegar hann urraði einsog Red gamli Allen. Mikið var gaman að heyra Matta að nýju og þeir Tommi svínguðu glæsilega í Tréblúsnum og þótt ungliðarnir hefðu aldrei séð það lag fyrr stóðu þeir sig með prýði enda hafði Tómas sagt áðuren blúsinn var leikinn að flinkir krakkar næðu ekki að klúðra þessu alvarlega. Þetta var skemmtilegt kvöld þarsem skiptust á þaulæfð verk og önnur leikin í fyrsta skipti - djassinn í öllum sínum margbreytileika.

Djassbiblía Tómasar R.

Tilefni þessara tónleika var útkoma Djassbiblíu Tómasar R. Fyrstu djassnótnabókar íslensks djasstónskálds. Þetta er glæsileg bók sem inniheldur áttatíu laga Tómasar, þaraf ellefu í píanóútsetningum Gunnars Gunnarssonar. Hljómar fylgja öllum laglínuskrifum og er tölvusetning nótnanna frábærlega unnin af Aðalheiði Þorsteinsdóttur og útkoman sérlega læsileg. Ljósmyndir frá ferli Tómasar eru í bókinni til upplyftingar. Bókin er prentuð á fínan pappír og gormuð og mun óefað þola mikla notkun, en til þess er leikurinn gerður; að íslenskir tónlistarmenn leiki lögin sem mest því flest þeirra standast samanburð við það sem erlendar djassbiblíur hafa uppá að bjóða. Ég hef oft orðið spældur að heyra unga djassleikara lepja upp sömu amerísku ópusana tónleika eftir tónleika í stað þess að leika þær fjölmörgu djassperlur sem íslensk djassskáld hafa samið. Enn spældari yrði ég ef útgáfa þessarar bókar breytti því í engu. Flest þessara laga hafa ratað á geislaplötur en þarna eru líka óútgefin lög einsog valsarnir Gil og Skrið (auk Hófs) og lag við ljóð Sveinbjarnar Baldvinssonar sem lék með Tómasi á gítar í Nýja kompaníinu forðum: Vor.

Dansaðu, fíflið þitt, dansaðu

Tómas er eina íslenska djasstónskáldið sem aðrir listamenn hafa leikið verk eftir á heilum tónleikum þegar undan er skilinn Gunnar Reynir Sveinsson, sem er heldur akademískari í tónskáldskap sínum en Tómas. Skemmst er að minnast tónleika Stórsveitar Jagúars er Samúel Jón Samúelsson básúnuleikari og tónskáld setti saman á listahátíð í vor og lék verk Tómasar á tvennum tónleikum við frábærar undirtektir áheyrenda. Uppistaða þeirrar hljómsveitar var funksveitin Jagúar, sem nú hefur sent frá sér þriðju geislaplötu sína Hello Somebody! þarsem fönkið þeirra er farið að nálgast alþýðusmekk. Í hóp þeirra Jagúarmanna bættust valinkunnir hljóðfæraleikar á listahátíð, þará meðal sænski trompetleikarinn Lasse Lindgren, sem með ævintýralegum blæstri sínum setti sandovalískan svip á bandið. Ég segi ekki að sveiflan hafi verið eins heit og hjá Chucho Valdés, en lögin voru ekki síðri en þau sem jafnan eru á efnisskrá Irakare-sveitar hans.

Oft er það svo að fautatónleikar sem maður hefur verið á reynast daufir í eyrum er maður heyrir þá á plötu löngu seinna. Það á sem betur fer ekki við í þessu tilfelli. Hér er það besta frá tónleikunum tvennum blandað saman og snyrt eilítið. Útkoman er ein skemmtilegasta tónleikaplata íslensk og þegar græjurnar eru stilltar í botn sýður á keipum. Flest eru lögin af trylltara taginu nema ballaðan Ástin sem Lasse Lindgren blæs sérdeilis fagurlega í flýgilhorn. Upptakan er sennilega frá seinni tónleikunum því Lasse blæs enn betur en mig minnti hann gera á föstudagskvöld. Hann er líka í miklu stuði í sólóum sínum í Dansaðu, fíflið þitt, dansaðu og Kúbanska, en Ívar Guðmundsson sannar enn einu sinni hversu efnilegur trompetleikari hann er í stuðlaginu alþekkta af Íslandför: Taugaveiklaður og trylltur, tættur og ber að ofan. Kjartan Hákonarson blæs tvo trompetsólóa, í Dakarí og Spríngfíling, og er glettilega góður í síðboppstíl sínum. Sigurður Flosason á altó og Óskar Guðjónsson á barrýton leysa sín sólóverk vel af hendi einsog venjulega og slagverkið er ágætlega þétt auk þess sem Gísli Galdur setur oft skemmtilegar svip á tónlistina með skífuskanki sínu. Bogomil Font raular Þú ert með sjarma.

Þessi plata er stórsigur fyrir hinn unga útsetjara Samúel Jón Samúelsson, en frá því hann hélt útskriftartónleika sína frá djassdeild Tónlistarskóla FÍH með stórsveitartónlist hefur verið ljóst að þar liggja hæfileikar hans fyrst og fremst, þótt hann sé fínn básúnuleikari. Ég held það væri heillaráð að hann fengi listamannalaun í svosem eitt ár tilað skrifa fyrir stórsveitina okkar; Stórsveit Reykjavíkur.

Vernharður Linnet