Jón Viðar Jónsson "Í ævisögunni er ég fyrst og fremst að leita að skýringum á því hvað rekur Jóhann áfram í skáldskapnum. Hann spyr sig hvaða öfl í sálinni halda aftur af honum, torvelda honum að takast á við lífið og sjálfan sig, nánast eins og hann
Jón Viðar Jónsson "Í ævisögunni er ég fyrst og fremst að leita að skýringum á því hvað rekur Jóhann áfram í skáldskapnum. Hann spyr sig hvaða öfl í sálinni halda aftur af honum, torvelda honum að takast á við lífið og sjálfan sig, nánast eins og hann — Morgunblaðið/Golli
Jóhann Sigurjónsson ólst upp í sálfræðilegu "tráma" sem hann tekst á við í skáldskap sínum síðar á ævinni, segir Jón Viðar Jónsson sem hefur skrifað ævisögu skáldsins sem sigraði danskan bókmenntaheim í byrjun síðustu aldar en féll svo í gleymsku. Bókin nefnist Kaktusblómið og nóttin og er ýtarlegasta umfjöllun um ævi og verk Jóhanns sem birst hefur.
Jóhann Sigurjónsson er einn af mestu tímamótamönnum í sögu íslenskrar menningar, segir Jón Viðar Jónsson í upphafi nýrrar ævisögu sinnar um skáldið sem nefnist Kaktusblómið og nóttin. Hann varð fyrstur íslenskra listamanna til að geta sér alþjóðafrægð eftir daga fornskáldanna og ruddi þannig brautina fyrir þá sem á eftir komu, rithöfunda, myndlistar- eða tónlistarmenn.

Stormasöm ævi skáldsins og verk þess vöktu löngun Jóns Viðars til að skrifa ævisöguna.

"Mér finnst Jóhann mjög áhugavert ljóðskáld þótt ég hafi ekki beinlínis fallið fyrir honum sem slíkum við fyrstu kynni. Sjálfsagt hafa mörg önnur skáld hrifið mig meir. En hann leynir á sér.

Hann getur orkað einfaldur á mann, sum bestu ljóðin jafnvel litið út eins og bein og einföld tilfinningatjáning en svo þegar maður fer að rýna í þau kemur annað á daginn. Halldór Laxness afgreiddi til dæmis Bikarinn sem fyllerísöskur, en síðan sýndi Matthías Viðar Sæmundsson með frábærri greiningu að þetta er úthugsað verk, fágað og djúpt ljóð. Það á líka við um leikritin, þau eru ekki heldur öll þar sem þau eru séð."

Sterkar foreldramyndir

Meginkenning Jóns Viðars í ævisögunni er sú að hreyfiaflið í skáldskap Jóhanns sé þörf hans til að gera upp við umhverfi sitt, ekki síst hinar sterku foreldramyndir sem hann tekur með sér út í heim.

"Jóhann er sýnilega alinn upp undir mjög sterku foreldravaldi. Foreldrar hans, Sigurjón á Laxamýri og Snjólaug kona hans, voru sterkir persónuleikar. Jóhann tengist móður sinni náið og hefur vísast fundið hjá henni athvarf gagnvart föðurnum sem var miklu fjarlægari, ef ekki skelfilegri í huga drengsins. Það varð honum því greinilegt áfall þegar hann þurfti að fara frá henni, fimmtán ára gamall. Fleiri atburðir höfðu djúp áhrif á hann, til dæmis sjálfsvíg bróður hans Þorvaldar um sama leyti. Allt skilur þetta eftir sálfræðilegt "tráma" sem veldur því að hann getur í rauninni aldrei orðið almennilega fullorðinn, tekið sjálfur ábyrgð á lífi sínu, og það er ekki síst það sem hann er að glíma við í skáldskapnum. Sterkar foreldramyndir eru þannig mjög áberandi í verkum hans og ekki óalgengt að þær trufli samskipti aðalpersóna við hitt kynið."

Gáfaður og fjölhæfur

Geturðu lýst skapgerð Jóhanns?

"Það er ekki auðvelt, en hann var auðvitað mjög skapandi maður, fluggreindur og fjölhæfur. Hann orti ekki bara ljóð heldur var hann fær stærðfræðingur og svo má ekki gleyma uppfinningunum. Gáfurnar voru því mjög víðfeðmar. Þeir sem kynntust honum sem ungum manni voru vissir um að hann yrði skáld skáldanna. Hann gat verið mjög sveiflukenndur eins og ýmsir aðrir í fjölskyldunni, stundum langt niðri og stundum hátt uppi. Hann átti auðvelt með að tengjast fólki, var opinn og örlátur og tryggur vinum sínum, en stundum fljóthuga og ekki alltaf gætinn í samskiptum, átti til að særa fólk og móðga án þess að hafa ætlað sér það; Gunnar Gunnarsson, Kamban og Árni Pálsson fengu að kenna á því. En það er víst ekki ný saga að snillingar séu stundum erfiðir í umgengni."

Ævi hans eins og klassískur harmleikur

Jón Viðar segir að myndirnar sem samtímamenn Jóhanns draga af honum séu býsna ólíkar, svo sem Sigurðar Nordals og Árna Pálssonar. Í ævisögunni rifjar Jón Viðar upp viðtal Sveins Skorra Höskuldssonar prófessors við Halldór Laxness þar sem skáldið setur fram þá kenningu að Þýskalandsför Jóhanns síðla árs 1912, þar sem hann var viðstaddur frumsýningu á Fjalla-Eyvindi, hafi markað upphafið að ógæfu Jóhanns. Sýningin gekk ekki sem skyldi en hún átti að marka upphafið að sigurför Jóhanns um Þýskaland.

Laxness taldi að þarna væri efni í harmleik, stórkostlegan harmleik sem biði eftir skáldi.

"Já, það er auðséð að Halldór áttaði sig á því að líf Jóhanns er að mörgu leyti eins og klassískur harmleikur," segir Jón Viðar. "Hann hefur svo margt til brunns að bera, síðan fer þetta allt á verri veg. Ef við viljum setja ævi Jóhanns upp í skema hins klassíska harmleiks þá verður auðvitað einhver vendipunktur að vera og það gæti alveg verið þessi för til Þýskalands.

Fjalla-Eyvindur hafði unnið glæsta sigra í Kaupmannahöfn og Gautaborg þegar þarna var komið sögu og nú átti að leggja heiminn að fótum sér. Jóhann er óþolinmóður, flýgur hátt og eftir því verður fallið auðvitað stærra."

Honum mættu bæði sigrar og ósigrar en það er auðvitað mikið ævintýri að íslenskt skáld skuli ná þeim árangri sem hann gerði á annarri tungu en móðurmálinu.

"Hann nær alveg ótrúlegum tökum á dönskunni, það er enginn venjulegur maður sem getur ort frambærileg ljóð á öðru tungumáli en sínu eigin. Gunnar Gunnarsson gerði það til dæmis ekki þótt hann hafi skrifað sögur sínar á góðri dönsku. Þarna ber Jóhann líka af öðrum. En við megum ekki heldur gleyma því að þeir áttu báðir danskar eiginkonur sem fylgdust náið með verkum þeirra."

Naut mikillar virðingar í dönskum bókmenntaheimi

Það á við um Jóhann eins og aðra íslenska höfunda sem skrifuðu á dönsku að hann er gleymdur meðal Dana, hans er ekki getið í danskri bókmenntasögu.

Hvers vegna?

"Það eru sjálfsagt ýmsar skýringar á því. Hvað Jóhann varðar þá náði hann ekki að fylgja eftir sigri Fjalla-Eyvindar; bæði Galdra-Loftur og Mörður Valgarðsson fengu blendnari viðtökur og tókust almennt séð ekki eins vel á sviðinu. Þegar hann deyr nýtur hann þó auðsjáanlega mikillar virðingar í dönskum bókmenntaheimi. En tíðarandinn breyttist mjög á næstu árum og verkin voru ekki endurútgefin.

Það var reynt að leika Galdra-Loft og Fjalla-Eyvind í upphafi fjórða áratugarins, á Konunglega leikhúsinu 1932 og á Dagmarleikhúsinu 1933, en þessar sýningar tókust ekki vel. Skömmu síðar voru bæði leikritin raunar einnig leikin í Ósló. Það var því gerð alvarleg tilraun til að halda verkum hans á lífi, en það tókst bara ekki sem skyldi. Það lítur síðan út fyrir að danska bókmenntastofnunin, ef við nefnum hana því nafni, hafi á einhverjum tímapunkti ákveðið að þessi íslensku skáld sem skrifuðu á dönsku tilheyrðu frekar íslenskri bókmenntasögu en danskri.

En Íslendingar voru svo sem heldur ekki allir sáttir við að þessir menn væru að skrifa á dönsku, sumum fannst þeir vera hálfgerðir föðurlandssvikarar, það fengu bæði Gunnar og Jóhann að heyra - og þá verðum við að muna að þetta var fyrir daga Þórbergs og Laxness. Hugsanlega hefur það átt sinn þátt í því hvað verkum Jóhanns hafa verið gerð fátækleg skil í íslenskri bókmenntasögu.

Útgáfurnar hafa verið börn síns tíma og standast ekki í öllu þær kröfur sem okkur þykja eðlilegar. Fyrsta heildarútgáfa verka skáldsins, Rit I-II, sem kom út hjá Máli og menningu á árunum 1940-41 í umsjá Sigurðar Nordals og Kristins E. Andréssonar, var þó merkilegt og lofsvert framtak á sinni tíð. Þar eru þó ekki öll ljóð Jóhanns því þeir Sigurður og Kristinn völdu úr óprentuðum handritum það sem þeim þótti bitastæðast og bættu við það helsta sem komið hafði áður á prenti. Útgáfa Atla Rafns Kristinssonar frá 1980 byggir fullmikið á þessari útgáfu en er þó alltæmandi hvað ljóðin varðar. Sjálfur hef ég gefið út æskuverk Jóhanns og Fjalla-Eyvind í lokagerð höfundar en fræðileg útgáfa heildarverka Jóhanns er ekki enn til. En góðar útgáfur eru auðvitað forsenda allrar annarrar umfjöllunar."

Á mörkum rómantíkur og módernisma

Hver voru sérkenni Jóhanns sem leikritaskálds og hvernig myndirðu staðsetja hann í skandinavískri leikritun?

"Í ævisögunni er ég fyrst og fremst að leita að skýringum á því hvað rekur Jóhann áfram í skáldskapnum. Hann spyr sig hvaða öfl í sálinni halda aftur af honum, torvelda honum að takast á við lífið og sjálfan sig, nánast eins og hann sé að taka sjálfan sig í sálgreiningu. Að þessu leyti er hann frábrugðinn mörgum öðrum höfundum, til dæmis Halldóri Laxness, sem leitar fremur fanga í umhverfi sínu, tekur afstöðu til samfélagsmálanna. Jóhann leitar hins vegar inn á við að dramatíkinni.

Hann glímir líka við tómhyggjuna sem einkenndi hugmyndalíf manna um aldamótin 1900 eins og Matthías Viðar sýndi fyrstur manna fram á.

Kristindómurinn var þá af mörgum talinn endanlega "passé", úr sögunni, það þyrfti að finna ný trúarbrögð sem margir þóttust finna í kenningum Nietzsches sem Jóhann grautaði í eins og aðrir. Í þessu sambandi finnst mér skipta meginmáli að í verkum sínum er hann alltaf að sýna fólk sem gerir sjálft sig að guði í einhverjum skilningi. Lítum á Óskar Flint, sem er aðalpersónan í æskuverkinu Skugganum. Hann drepur mann og flýr frá afleiðingum þess en kemur svo aftur og telur sig geta þurrkað út gjörðir sínar með vísan til þess að hann sé orðinn nýr maður. Hann tekur sér þannig vald að dæma um það hvort hann sé sekur eða saklaus og verður fyrir bragðið nánast "absúrd" fígúra. Svipað má, að breyttu breytanda, sjá í fleiri verkum Jóhanns, hjá Dr. Rung, Sveinunga, bónda á Hrauni, Höllu, Galdra-Lofti, Merði og Njáli, þau taka sér öll einhvers konar vald í hendur sem þau hafa engan rétt til að gera og leiðir ófarnað yfir þau. Frummyndin að þessari bókmenntatýpu, hinum móralska sjálftökumanni, er kannski Rasskolnikof í Glæp og refsingu eftir Dostojefskí sem Jóhann þekkti, það er vitað, trúlega er hún ekki síst algeng í verkum á mörkum rómantíkur og módernisma. Jóhann er einmitt á þessum mörkum; ég orða það víst svo í bókinni að hann geti talist síðasti stóri rómantíkerinn í bókmenntum okkar og fyrsti módernistinn. Jóhann var til dæmis mjög upptekinn af Jónasi Hallgrímssyni, skynjaði sýnilega djúpan samslátt á milli þeirra tveggja. Og þeir eru vissulega að heyja svipaða glímu; Jónas var trúaður á nítjándu aldar vísu, trúði á veruleika hins góða og sanna og guð í hefðbundnum kristnum skilningi. Í sumum af síðustu ljóðum hans er þó augljóst að hann er farinn að efast og upplifir jafnvel tilvistarlega angist sem manni finnst vísa fram í módernismann, skáld á borð við Kafka, Eliot og fleiri. Jóhann er tvímælalaust meðal fyrstu skálda norrænna til að yrkja fullkomlega módernískt ljóð og það er í rauninni eftirtektarvert að hann skyldi frekar gera það á íslensku en dönsku. Hann þekkti eflaust norska skáldið Sigbjörn Obstfelder sem þarna var búinn að ryðja brautina að einhverju leyti, sá af næmleika sínum að hinar gömlu aðferðir dugðu ekki lengur. En í þeim efnum komst hann lengra í ljóðunum en leikritunum þótt stórbrotin séu."