Halldór Hansen og Hjálmar H. Ragnarsson, með Árna Tómasi Ragnarssyni lækni og Birni Bjarnasyni, þáverandi menntamálaráðherra, sem vottuðu gjafarsamkomulag Halldórs og Listaháskólans fyrir þremur árum.
Halldór Hansen og Hjálmar H. Ragnarsson, með Árna Tómasi Ragnarssyni lækni og Birni Bjarnasyni, þáverandi menntamálaráðherra, sem vottuðu gjafarsamkomulag Halldórs og Listaháskólans fyrir þremur árum. — Morgunblaðið/Ásdís
HALLDÓR Hansen barnalæknir ánafnaði Listaháskóla Íslands veglegu tónlistarsafni sínu fyrir þremur árum, auk þess sem hann erfði skólann að öllum eigum sínum. Halldór lést sumarið 2003 og hefur síðan verið unnið að því að koma gjöf hans í réttan farveg.
HALLDÓR Hansen barnalæknir ánafnaði Listaháskóla Íslands veglegu tónlistarsafni sínu fyrir þremur árum, auk þess sem hann erfði skólann að öllum eigum sínum. Halldór lést sumarið 2003 og hefur síðan verið unnið að því að koma gjöf hans í réttan farveg.

Mikill fengur

Halldór óskaði eftir því í skipulagsskrá sem gerð var í lok árs 2002, að eigum hans yrði ráðstafað í sérstakan styrktarsjóð í hans nafni eftir sinn dag. Í henni kemur fram að meginmarkmið sjóðsins séu að "styrkja uppbyggingu og styðja við tónlistarsafn Listaháskóla Íslands" og "veita árlega styrk í nafni Halldórs Hansen til eins af tónlistarnemum Listaháskóla Íslands sem náð hefur framúrskarandi árangri að mati sjóðsstjórnar".

Að sögn Hjálmars H. Ragnarssonar, rektors Listaháskóla Íslands og stjórnarformanns sjóðsins, er mikill fengur að sjóðnum. "Bæði getur hann stutt við uppbyggingu tónlistarmenntunar hér á landi og haldið nafni Halldórs á lofti," segir hann. Styrktarsjóðurinn er sjálfstæður, þó að hann heyri undir Listaháskóla Íslands. "Hann hefur sjálfstætt bókhald og sín eigin markmið. Það sem gert er í hans nafni, ber nafn Halldórs."

Tveir nemendur fá styrk

Sjóðurinn til styrktar tónlistarnemum í nafni Halldórs verður formlega stofnaður 7. janúar næstkomandi og þá verður jafnframt úthlutað úr honum í fyrsta sinn, til tveggja einstaklinga. Stjórn sjóðsins skipa Hjálmar H. Ragnarsson rektor skólans, Árni Tómas Ragnarsson læknir og Mist Þorkelsdóttir deildarforseti tónlistardeildar skólans, og verður veitt árlega úr honum. "Það er miðað við að fólk sem enn er í námi og við í stjórninni höfum ákveðið að horfa víðar en eingöngu til tónlistarnemenda í Listaháskóla Íslands," segir Hjálmar og bætir við að styrkirnir miðist fyrst og fremst við hljóðfæraleikara og söngvara, enda í samræmi við áhugasvið Halldórs.

Stjórn sjóðsins hefur ennfremur ákveðið að standa að masterklössum í nafni Halldórs, og munu sópransöngkonan Elly Ameling, sem var góður vinur Halldórs, og píanóleikarinn Gerrit Schuil, halda þann fyrsta af þeim toga í Listaháskólanum næsta vor.

Þýðingarmikið fyrir uppbyggingu

Þá er unnið að því að skrásetja tónlistarsafn Halldórs um þessar mundir og gera það að hluta bókasafns Listaháskólans, sem er stærsta listbókasafn á Íslandi. Í safni Halldórs, sem Hjálmar segir afar þýðingarmikið fyrir uppbyggingu bókasafns skólans, er meðal annars að finna myndbandsupptökur með tónlistarefni, bækur um tónlistarleg málefni og yfir 10.000 plötur, sem að stærstum hluta eru vínýlplötur sem spanna öll svið klassískrar tónlistar, þó flestar hafi að geyma óperutónlist eða ljóðasöng. Skráning hlutanna úr safni Halldórs og uppbygging tónlistarsafnsins er að hluta til kostuð með fé úr styrktarsjóði Halldórs. "Það er sú viðbót sem til þarf til að hægt sé að koma þessu safni á laggirnar á tiltölulega skömmum tíma. Við gætum aldrei gert þetta án þessa stuðnings," segir Hjálmar að lokum.