— Morgunblaðið/Jim Smart
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vélar tímans nefnist nýjasta skáldsaga Péturs Gunnarssonar sem er jafnframt þriðja bindið í sagnaflokki hans Skáldsaga Íslands. Í þessari grein er varpað ljósi á samhengið í höfundarverki Péturs en þar kemur sagnaflokkurinn í rökréttu framhaldi af eldri verkum. Í honum hefur Pétur sett sér það verkefni að gera okkur Íslendingum kleift að skilja betur hver við erum.
Fyrir örfáum misserum hlotnaðist mér sú ánægja að lesa allt höfundarverk Péturs Gunnarssonar frá upphafi. Tilefnið var að bandarísk ritröð um rithöfunda heimsins ákvað að helga eitt af bindum sínum íslenskum bókmenntum. Var mér falið að fjalla um bækur Péturs og skrifa nokkuð langa ritgerð um höfundarferil hans. Það er ekki oft sem tækifæri gefst til að skoða allt verk höfundar sem þegar hefur afkastað miklu. Greip ég það fegins hendi því mér lék forvitni á að sannreyna grun minn um að Pétur væri einn af athyglisverðustu iðkendum skáldsöguformsins sem skrifa á íslensku um þessar mundir.Pétur kvaddi sér hljóðs árið 1976 sem skáldsagnahöfundur með bókinni Púnktur, púnktur, komma, strik. Síðan eru skáldsögurnar orðnar tíu talsins, að ónefndum þýðingum, ritgerðasöfnum og ljóðabókum. Í öll þessi ár hefur hann verið óþreytandi við að prófa nýjar leiðir í ritun og samningu verka sinna. Nýlega kom út eftir hann Vélar tímans, þriðja bókin í flokknum Skáldsögu Íslands, sem er ekki síður frumlegur en fyrri sögur Péturs. *4

Áður en fjallað verður um þennan merka sagnaflokk finnst mér ekki úr vegi að líta yfir feril hans sem skáldsagnahöfundar og draga fram helstu einkenni hans.

Andri og Guðmundur Andri

Það er auðvelt að skipta höfundarverki Péturs niður í nokkur skeið og nær fyrsta skeiðið augljóslega yfir fyrstu fjórar bækur hans, áðurnefnda Púnktur, púnktur, komma, strik frá 1976, en svo Ég um mig frá mér til mín (1978), Persónur og leikendur (1982) og Sagan öll (1985). Í öllum þessum bókum er sagt frá aðalpersónunni Andra Haraldssyni. Fylgst er með honum frá fæðingu þar til hann kemur heim frá námi og er í þann veginn að hefja líf fullorðins manns í íslensku samfélagi. Segja má að fyrstu bækurnar í þessum flokki hafi valdið straumhvörfum í íslenskum bókmenntum þótt höfundur þeirra væri enn ungur að árum. Ástæðurnar voru einkum þær að með þeim heyrðist rödd nýrrar kynslóðar sem fædd var eftir stofnun lýðveldisins, hafði Reykjavík sem miðpunkt reynslu sinnar og útlönd sem viðmið, ekki síst hina nýju fjöldamenningu æskulýðsins sem varð svo fyrirferðarmikil á sjöunda og áttunda áratugnum. En fleira var nýtt í bókum Péturs og er þar helst að nefna einstaklega lipran og léttan stíl, fullan af glettni og frjóum hugmyndum. Það leikur á því enginn vafi að með þessum bókum hafi Pétur rutt brautina fyrir yngri rithöfunda eins og t.d. Einar Má Guðmundsson, en fyrstu bækur Einars einkennast einnig af fjörugum og myndríkum stíl og fjalla um æsku Reykvíkinga á sjötta og sjöunda áratugnum.

Fjórða og síðasta bókin í Andraflokknum, Sagan öll, er ólík hinum að því leyti að í henni tvöfaldast söguþráðurinn. Það er ekki bara sagt frá Andra og heimkomu hans til Íslands eftir nám erlendis, heldur skiptist sagan í tvö frásagnarsvið sem aðgreind eru með ólíku letri. Hin frásögnin er helguð fjölskyldumanninum Guðmundi Andra. Að einhverju leyti eru Andri og Guðmundur Andri sami maðurinn, þótt annar sé eldri. Þó er á þeim nokkur munur og felst hann einkum í því að líf Guðmundar er mun flóknara en Andra. Hann á fleiri systkini, betur er kafað ofan í samskipti hans við foreldra sína; stórfjölskyldan kemur til sögunnar en hún var víðs fjarri í fyrstu bókunum þremur. Sagan öll brýtur blað í höfundarverki Péturs á margvíslegan hátt. Með nýrri aðalpersónu sem þó er þetta lík Andra, en talar nú í fyrstu persónu, býr hann til speglunaráhrif sem minna lesandann á að hann er að lesa skáldverk og að hann þurfi að túlka þann flókna veruleika sem nú er verið að bera á borð fyrir hann.

Það er þessi flókni veruleiki sem verður viðfangsefni Péturs í næstu skáldsögum sínum, Hversdagshöllinni (1990) og Efstu dögum (1994), sem draga upp hvor á sinn hátt raunsæja mynd af veruleika íslenskrar millistéttar á síðustu áratugum tuttugustu aldar. Hversdagshöllin er eins konar ættarsaga, hún snýst um stórfjölskyldu sem býr í húsi sem byggt var af Ívari afa. Saga ýmissa fjölskyldumeðlima er rakin, en sögumaður er eitt af barnabörnum Ívars, upprennandi rithöfundur sem segir söguna. Þótt hann hafi orðið er hann samt sem áður ekki aðalpersóna í venjulegum skilningi, heldur sá sem segir ættarsöguna, ekki ósvipað og Sturla Þórðarson segir sögu ættmenna sinnna, Sturlunga, í Íslendinga sögu sinni. Efstu daga svipar til Hversdagshallarinnar að þessu leyti, því þar er einnig fjallað um sömu fjölskyldu í gegnum þrjár kynslóðir og sögumaðurinn er af þriðju kynslóð. Í Hversdagshöllinni er húsið sem fjölskyldan býr í aðalpersónan en ekki sögumaðurinn. Í Efstu dögum er sögumaðurinn heldur ekki aðalpersónan, heldur frændi hans. Það er einkar athyglisvert hvernig sögumaðurinn í Efstu dögum virkar í sambandi sínu við aðalpersónuna. Þeir eru náfrændur, synir tvíburasystra, og alast að miklu leyti upp saman. Í sögulok kemur m.a.s. fram að þeir eru líklega synir sama föður og því hálfbræður að auki. Aðalpersónan heitir Símon Flóki og gerist lúterskur prestur eftir að hafa orðið fyrir trúaruppljómun, sennilega í tengslum við notkun á LSD. Lífi hans sem prests í íslensku nútímasamfélagi er lýst og er einkum dregið fram hversu erfitt er að gefa þessu lífi merkingu. Símon deyr fyrir aldur fram úr krabbameini og sögumaðurinn er einn til frásagnar um líf hans.

Á lágstemmdan en eigi að síður ákveðinn hátt er sögumaður þessi mjög tvíbentur í afstöðu sinni til aðalpersónunnar. Sem barn dáist hann að honum en það er ekki heldur laust við að hann öfundi hann. Þótt þeir séu synir tvíburasystra eru feður þeirra (þ.e. þeir sem þeir halda að séu feður þeirra) afar ólíkir. Faðir sögumannsins er ístöðulaus, ómenntaður og af lágum stéttum. Fjölskyldan býr við kröpp kjör en nýtur þess að eiga stuðning stórfjölskyldunnar vísan. Aftur á móti er "faðir" Símonar Flóka úr efri lögum samfélagsins og eru hann og systir hans alin upp við traustan fjárhag og eiga auk þess góðar stundir með skemmtilegum foreldrum. Þótt sögumaðurinn njóti þessa stundum á hann eigi að síður ekki hlutdeild í dýrðinni nema fyrir náð og miskunn frænku sinnar og fjölskyldu hennar og spyr lesandinn sig því hvort afstaða hans til æskuvinar síns og frænda einkennist ekki af bældri öfund, hvort hann sé tvíbentur sögumaður sem ekki dragi upp sanngjarna mynd af nákomnum ættingja sínum, jafnvel þótt honum þyki vænt um hann líka. Enn er nærtækur samanburðurinn við Sturlu Þórðarson, sem er reyndar nefndur í Efstu dögum, en spurningar hafa vaknað um það hvort meðferð hans á náfrændum sínum Sturlu Sighvatssyni og Snorra Sturlusyni mótist ekki af einhvers konar öfund.

Ísland í dag

Í Efstu dögum skýrast ýmis þemu sem Pétur hefur verið að vinna með allt frá því í Sögunni allri, í fyrsta lagi hrun föðurmyndar, þar sem myndarskapur og dugnaður afa dregur fram ístöðuleysi föður. Í öðru lagi er ýtt undir þennan óhagstæða samanburð með því að hafa inni í sögunni aðra meðlimi stórfjölskyldunnar sem vegnar vel. Í þriðja lagi eimir eftir af þessari óhamingju í þriðju kynslóðinni sem fótar sig misvel í tilverunni. Útkoman er einkar áhugaverð mynd af íslensku samfélagi á áratugunum sem liðið hafa síðan almenn velmegun hófst hér á landi í kjölfar seinni heimsstyrjaldar. Samanburðurinn milli meðlima stórfjölskyldu er sérlega athyglisverður því hér tæpir Pétur á nokkru sem fáir hafa gert mér vitanlega. Það er sú staðreynd að félagslegur hreyfanleiki síðustu áratuga, sem er afleiðing þeirrar auðsöfnunar sem hér hefur átt sér stað, hefur orðið til þess að vísir að stéttamun hefur orðið til hér á landi. Á þessu stigi í þróuninni, a.m.k. áður en stéttamunurinn festist betur í sessi, skapar hann óþægindi innan stórfjölskyldna, sem klofnar eru af því hversu misjafnlega meðlimum þeirra hefur vegnað í kapphlaupinu um virðingu og lífsgæði.

Þótt texti Péturs sé einatt afar skemmtilegur, bæði ljóðrænn og glettinn, er ekki laust við að grunntónn þessara tveggja sagna einkennist af einhvers konar depurð eða a.m.k. nostalgíu: þrá eftir liðnum tíma. Það er vafalaust engin tilviljun að fljótlega eftir að hann hefur lokið við að skrifa Efstu daga ræðst hann í að þýða Í leit að glötuðum tíma eftir Marcel Proust. Undir þessari viðvarandi depurð býr einhver grunur um merkingarleysi tilverunnar, sem kemur einna skýrast fram í persónu lúterska prestsins Símonar Flóka. Heimurinn sem áður var, sá sem við öll erum sprottin úr, heimur sveitanna, trúarinnar, hins stöðuga bændasamfélags, sá heimur er horfinn, en spurningar vakna um fánýti og merkingarleysi íslensks veruleika í dag, a.m.k. um það hvort þjóðin sé ekki búin að tapa áttum í hringiðu nútímans.

Þessar spurningar raungerast í hinni snjöllu Heimkomu sem út kom 1997. Við erum enn í sama veruleika og í fyrri verkum Péturs, en hér er heimur fortíðarinnar endanlega horfinn. Aðalpersónan er fimmtugur íslenskur ljósmyndari sem alið hefur allan aldur sinn frá því um tvítugt erlendis. Hann kemur heim eftir hjónaskilnað með ösku látinna foreldra sinna í farangri sínum, en þau hafa óskað þess að hvíla í íslenskri jörð. Það Ísland sem þau og sögumaðurinn eitt sinn þekktu lifir þó aðeins meðal örfárra einstaklinga sem enn tóra hérna megin grafar. Aftur á móti einkennist það Ísland sem hann kynnist nú af sundurleysi, óvissu í samskiptum og undirliggjandi ofbeldi og örvæntingu. Eyðileggingaröflin eru alls staðar að verki, hvort sem það er gagnvart náttúrunni, minjum liðins tíma eða fólkinu sjálfu. Þau búa ekki einvörðungu í manninum, heldur er allt sem áður tilheyrði heimi sögumannsins - og um leið heimi fyrri sagna Péturs - horfið eða um það bil að hverfa.

Eftir stendur eyðimörk merkingarleysis, samhengisleysis, vonleysis án framtíðar, en undir sögunni býr þó frumkraftur. Á bak við fortíðarþrána er dauðaþrá, sem þó er algerlega samofin ástarþrá. Þessi flókna þrá kristallast í persónu Aðalheiðar, gamallar konu, sem sögumaðurinn leigir hjá og sem hafði legið á sæng með móður hans og meira að segja haft hann á brjósti meðan mjólkin var að koma upp hjá móður hans. Sonur konunnar er dáinn og það er líka bróðir sögumannsins, sem hvarf ofan í hafið og var vafalaust étinn af hákarli. Þau eru ein eftir, gamla konan og sögumaðurinn, og brátt deyr hún líka. Þá leysast eyðileggingaröflin úr læðingi og meira að segja ljósmyndirnar sem sögumaðurinn hafði tekið af landinu verða þeim að bráð. Þessar myndir áttu að birtast á bók í tveimur hlutum. Í öðrum skyldu vera myndir af yfirgefnum eyðibýlum á landsbyggðinni og í hinum myndir teknar úr lofti af ósnortnum víðernum landsins áður en virkjanafíkn nútímans breytti þeim með óafturkræfum hætti. Fyrri hlutinn skyldi heita "Land míns föður" en sá síðari "Land míns Guðs". Hvorttveggja er horfið og hvorttveggja verður senn gleymskunni að bráð.

Fjársjóður fortíðar

Á sama hátt og Sagan öll tólf árum fyrr markar Heimkoma þáttaskil í höfundarverki Péturs Gunnarssonar. Heimurinn sem hann hefur verið að lýsa, heimur Íslendinga á síðari helmingi tuttugustu aldar, er á bak og burt og að einhverju leyti eru þeir orðnir heimilislausir í nútímanum, vita ekki hvar þeir eiga heima, skilja ekki samband sitt við landið, umheiminn, sjálfa sig og hver annan. Þetta vekur kvíða, en e.t.v. hefur þessi kvíði ávallt verið til staðar. Greinilegt var að höfundur var kominn að vissum vendipunkti á ferli sínum. Hann var búinn að gera ákveðnu viðfangsefni skil, sem vafalaust átti djúpar rætur í persónulegu lífi hans ekki síður en í skynjun hans á umhverfi sínu. Ómögulegt var að segja fyrir um hvað hann myndi taka fyrir næst.

Á aldamótaárinu 2000 var fyrsta bindi sagnabálksins Skáldsögu Íslands gefið út. Líklega höfum við enn ekki séð fyrir endann á þessum bálki þótt þriðja bindið hafi komið út fyrir skömmu. Mér vitanlega hefur Pétur ekki tjáð sig um það, en þó tel ég allar líkur á því að þessu verki sé langt í frá lokið og að það eigi a.m.k. jafnmörg bindi eftir að birtast og þegar eru komin út. Þótt verkið sé ekki búið að taka á sig sína lokamynd er eigi að síður óhætt að segja að það sé bæði metnaðarfullt og frumlegt. Það er metnaðarfullt vegna þess að í stað þess að vera með manneskju sem miðju frásagnarinnar er aðalpersónan landið okkar, bæði "land míns föður" og "land míns guðs" sem aðalpersónan í Heimkomu var að ljósmynda, þ.e. í senn hið áþreifanlega Ísland, sem reis upp úr sæ fremur seint í jarðsögunni, en líka það mannlíf sem hér hefur þrifist undanfarnar ellefu aldir eða svo. "Land míns guðs" þýðir líka að þjóðin sem það byggir er ekki - og hefur aldrei verið - einangruð. Þvert á móti er hún hluti af mannkyninu, nánar tiltekið hinum evrópska anga þess sem um langt skeið mótaðist af kristni. Uppruna okkar, hugsunarhátt og sögu verður að skilja í því ljósi. Á sama hátt og venjulegri persónu í skáldsögu verða ekki gerð skil nema með því að lýsa umhverfi hennar, sögu og hvernig hún tengist öðrum er ekki heldur unnt að skrifa "skáldsögu Íslands" nema í ákveðnu samhengi.

Í þessu liggur, meðal annars, hversu frumlegt verk Péturs er, hvílík áskorun það er við skáldsöguformið. Í því sambandi er skemmtilegt að rifja upp hvað Milan Kundera segir í List skáldsögunnar (bls. 22 og 23 í þýðingu Friðriks Rafnssonar) um möguleika þessa bókmenntaforms til að endurnýja sig sjálft. Meðal þess sem hann nefnir er að skáldsöguhöfundar ættu að vera ófeimnir við að fjalla um hugmyndir í verkum sínum: "Ekki í þeim tilgangi að breyta skáldsögunni í heimspeki, heldur til að beita í sögunni öllum aðferðum, rökréttum og órökréttum, frásögnum og hugleiðingum, sem gætu orðið til að varpa ljósi á tilveru mannsins." Einnig telur Kundera að skáldsöguhöfundar geti fetað nýjar leiðir með því að vinna með tímavíddina, þ.e. "sprengja þann ramma sem fram til þessa hafði afmarkað líf einstaklingsins, sett skáldsögunni takmörk og láta [skáldsöguna] gerast á mörgum sögulegum tímabilum". Þetta gerir Pétur hvorttveggja svo úr verður mjög nýstárlegt verk.

Skáldsaga Íslands er látin gerast á mörgum tímaskeiðum. Raunar er öll mannkynssagan undir, einkum og sérílagi saga vestrænnar menningar. Með þessu móti verður saga íslensku þjóðarinnar miklum mun skýrari. Til að skilja hugarheim Íslendinga, örlög þeirra og samfélag verður að skoða þá í ljósi hinnar stærri sögu sem þeir eru hluti af. Þetta gerir Pétur með því að rekja þessa stærri sögu, lýsa hana upp með frásögnum og hugmyndum, t.d. af Ágústínusi og Páli postula og draga fram hve hugmyndir þeirra hafa mótað vestræna menningu.

En Skáldsaga Íslands er miklu meira en vel skrifuð og aðlaðandi leiðsögn í gegnum sögu Íslands og umheimsins. Sem skáldsöguhöfundur er höfuðviðfangsefni Péturs mannlegt hlutskipti og því gerir hann skil með margvíslegum hætti. Í fyrsta lagi býr hann til sögumann sem er samtímamaður okkar, talar í fyrstu persónu og gæti þess vegna verið Pétur sjálfur. Í öðru lagi ávarpar hann aðra sögupersónu í annarri persónu eintölu, sem er mjög sjaldgæft í skáldsögum en virkar mjög vel hjá Pétri því með þessari einföldu aðferð tekst honum að skapa mikla nálægð við persónu sína án þess að það orki nokkurn tímann óeðlilega á lesandann. Sögupersónan heitir Máni og er einnig samtímamaður okkar. Hann er kynntur til sögunnar í fyrsta bindinu, Myndinni af heiminum, þar sem lagðar eru grunnlínurnar í lífi hans. Hann er skilnaðarbarn. Móðir hans hefur haldið framhjá og flutt til elskhuga síns. Því er fjölskyldan splundruð, og bræður hans og hann eru aðskildir. Hann lendir fjarri báðum foreldrum, hjá ömmunni. Þar upplifir hann fyrst það hlutskipti að vera sekur, þegar hann getur ekki stillt sig um að taka peninga af gömlu konunni til að kaupa sér tindáta. Síðar kynnist hann kynlífinu með systur hins nýja eiginmanns móður sinnar, áður en hann heldur út í heim, liðlega tvítugur með þann draum að verða menntamaður. Þetta er undir lok sjöunda áratugarins.

Með hugann í Róm

Meginhluti frásagnarinnar, ekki síst í næstu tveimur bindum, Leiðinni til Rómar og hinni glænýju Vélum tímans, er þó helgaður persónum frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Í hinu fyrra eru fornsögurnar meginuppspretta persóna og atvika og er sambandið við Róm, höfuðborg kristninnar á þessum tíma, meginviðfangsefnið. Íslensku biskuparnir, en einnig almennir pílagrímar, svo og höfðingjar á borð við Hvamm-Sturlu, eru sóttir í hinar svokölluðu samtíðarsögur, þ.e. biskupasögur og Sturlunga sögu.

Hér bryddar Pétur upp á aðferð sem mér hugnast vel þegar skáldsöguhöfundar notfæra sér persónur sem voru í raun og veru til. Hann grípur ekki til hefðbundinnar tækni sögulegrar skáldsögu þar sem raunverulegu, en dauðu, fólki er í raun breytt í skáldaða persónu og hugsunum þess og tilfinningum lýst eða þær sviðsettar með aðferðum skáldsögunnar. Það felst ákveðin hætta í þessari aðferð, einkum og sérílagi þegar um persónur úr svo fjarlægri fortíð er að ræða eins og Íslendinga á 12. og 13. öld. Hún er sú að troða hugsunum nútímafólks uppá persónur sem voru uppi fyrir svo löngu síðan að útilokað er, eða a.m.k. afar ósennilegt, að hugarheimur þeirra og hugsanaferli hafi verið nokkuð lík því sem nú gerist. Aðferð Péturs felst í því að endursegja að miklu leyti það sem hann velur úr fyrrgreindum heimildum, en mjög sjaldan í því að yrkja í eyðurnar með því að skyggnast inn í huga persónanna. Það er helst að hann reyni að gefa aðstæðum og atvikum meira líf en þau hafa í heimildunum, með því að búa þeim til samhengi. Með þessu móti bægir hann þeirri hættu frá að falla í gryfju tímaskekkjunnar sem er afar algengt í sögulegum skáldsögum, þegar höfundar þeirra kynna sér ekki nógu vel tímabilið sem þeir eru að skrifa um, einkum það sem þeir sagnfræðingar sem rannsakað hafa hugarfar og lífshætti hafa að segja.

Þetta hefur Pétur gert á aðdáunarverðan hátt og er sú mynd sem smám saman er að verða til af sögu Íslands og Íslendinga eftir því sem Skáldsögu Íslands vindur fram afar athyglisverð fyrir bragðið. Þótt ekki sé um sagnfræðirit að ræða má segja að Pétur sé að búa til nýja söguskoðun með því að brjótast út úr viðjum þjóðarsögu sem hefur um of litið framhjá þeirri staðreynd að Íslendingar eiga og hafa alltaf átt hlutdeild í evrópskri menningu. Til að skilja þá og hugsun þeirra verður að skilja vel sögu Evrópubúa og hugarheim þeirra. Skáldsöguformið nýtist mjög vel í þessu skyni því það gerir honum kleift að sviðsetja fólk við raunverulegar sögulegar aðstæður og sýna hvernig það er mótað af þessari menningu og hugarheimi, en á þeim öldum sem fyrstu þrjú bindin fjalla um er miðpunktur þessa heims Róm. Persónurnar eru því "með hugann í Róm", eins og segir í Vélum tímans, en hún lýsir síðmiðöldunum, þegar Svarti dauði hefur geisað á Íslandi og ungur íslenskur munkur sem heitir Natan Fróðason er skyndilega einn eftir lifandi í klaustrinu í Þykkvabæ. Hann fer á flakk, kynnist ástinni en heldur síðan til Rómar og landsins helga í fylgd með Birni Jórsalafara.

Saga sektarkenndarinnar?

Ef til vill reynir það nokkuð á þolrif lesandans að sá þráður sögunnar sem lagður var í fyrsta bindi Skáldsögu Íslands og snýst um persónuna Mána er lítið sem ekkert spunninn áfram í næstu bindunum tveimur. Máni kemur lítillega við sögu í Leiðinni til Rómar en varla nokkuð í Vélum tímans. Þar sem tvö ár hafa liðið milli útkomu hvers bindis er ekki laust við að það þurfi lesa allt verkið upp á nýtt í hvert skipti sem bætist við það, ekki vegna þess að hvert bindi geti ekki staðið eitt og sér sem sjálfstæð lesning, heldur til að nema sem flestar tengingar og taka betur inn þá heildarmynd sem smám saman er að verða til. Þetta verður því að teljast kostur fremur en löstur á verkinu. Við hvern nýjan lestur uppgötvar maður eitthvað nýtt og maður kemst nær því að skilja um hvað það snýst.

Hvað skyldi það vera? Með tilvísan til bernskusögu Mána, sem tæpt var á fyrr í þessari grein, ætla ég að geta mér til að eitt af mikilvægustu þemum sögunnar sé óhamingja okkar Vesturlandabúa, hvers vegna við erum svo ósátt og eirðarlaus í núinu, og svo klofin og kvíðin í afstöðu okkar til okkar sjálfra. Þessi klofningur virðist eiga rætur í aldalangri afstöðu kristninnar til lífsnautnanna, ekki síst kynlífsins. Hérið og núið eru fullkomlega ómerkileg, ævi manns einvörðungu tálsýn og táradalur, eina sem máli skiptir himnavist eða hætta á eilífri glötun. Á móti má segja að trúin hafi ekki verið ríkjandi undanfarna mannsaldra. (En hver veit hvað er að gerast nú þegar ofstækismenn í trúmálum virðast hafa undirtökin í voldugasta ríki heims og búa sér til óvini úr röðum ofstækismanna í öðrum heimshlutum?) Jafnvel þótt guð sé horfinn úr sálum okkar standa hugsanaferlin enn eftir, en þau ganga út á að banna okkur að gangast við okkur sjálfum eins og við erum.

Ef til vill er þetta verkefnið sem Pétur hefur sett sér í Skáldsögu Íslands, þ.e. að gera okkur Íslendingum kleift að skilja betur hver við erum: að sálir okkar eru afurð langrar og flókinnar sögu sem aðeins að hluta til hefur undið fram hér á landi, sögu sem "vélar tímans" hafa ofið úr hugmyndum, atburðum og því eðli mannsins að vera sífellt að gera sér "mynd af heiminum". Bókmenntaformið sem Pétur velur - já finnur upp - til að segja þessa sögu hefur þá kosti skáldsögunnar að geta komið flóknum veruleika til skila um leið og hann verður mennskur, þ.e. snertir okkur sem manneskjur en ekki bara vitsmunaverur. Enn kemur upp í hugann samanburður við Í leit að glötuðum tíma eftir Proust, sem Pétur þekkir manna best hér á landi. Með því að endurskapa hinn liðna tíma í skáldverki sínu er Pétur um leið að endurheimta núið, að reyna að fylla upp í það tóm og vinna gegn þeirri eyðileggingu og gleymsku sem eru viðfangsefni hans í Heimkomu. Hvort sem þetta er rétt skilið hjá mér eður ei er víst að með hinum mikla sagnabálki sínum, sem vert er að fylgjast grannt með á næstu árum, ljær Pétur Gunnarsson tilveru Íslendinga aukna merkingu. Í þeim skilningi er hann sagnaskáld Íslands.

Höfundur er prófessor í frönsku og miðaldafræðum við Háskóla Íslands.