Sterk blá blikkljós frá tveimur lögreglubílum og sjúkrabifreið voru næstum því jólaleg í hvítri auðninni. Bílarnir stóðu á fáförnum vegi, fjarri byggð, en þó mátti sjá bjarmann af borgarljósunum í vestri. Það var stillt veður, heiðskírt en talsvert...

Sterk blá blikkljós frá tveimur lögreglubílum og sjúkrabifreið voru næstum því jólaleg í hvítri auðninni.

Bílarnir stóðu á fáförnum vegi, fjarri byggð, en þó mátti sjá bjarmann af borgarljósunum í vestri. Það var stillt veður, heiðskírt en talsvert frost. Snjór, tungl og norðurljós sáu til þess að sæmileg yfirsýn var yfir slysstaðinn.

Úlpuklæddur lögreglumaður gekk eftir vegkantinum og mat aðstæður. Stórri jeppabifreið hafði verið ekið aftan á lítinn pallbíl í krappri beygju á veginum. Pallbíllinn hafði lent langt út fyrir veg, oltið einn hring og lent á stórum steini. Augljós atburðarás en það gat tekið nokkurn tíma að ganga frá skýrslunni. Ekki óskaverkefni þegar vaktinni var að ljúka á aðfangadegi.

Sjúkraflutningamennirnir voru að huga að ökumanninum við hlið pallbílsins. Þeir höfðu lagt hann á börur og voru að undirbúa flutning. Ökumaðurinn myndi halda sín jól á sjúkrahúsi ef hann lifði þetta þá af.

Lögreglumaðurinn fetaði sig varlega niður hálan og brattan vegfláann. Hann var á sextugsaldri og frekar stirður til gangs á ósléttu landi. Snjórinn var djúpur fyrir neðan veginn og það var kuldalegt að vaða í gegnum hann á lágum skóm. Loks komst hann að sjúkrabörunum og gat litið á hinn slasaða.

Þetta var ungur maður, stór og sver, klæddur í slitnar gallabuxur, leðurstígvél og svartan leðurjakka með ýmsum táknum. Svartur og rauðlitaður hárkambur var ofan á höfðinu en vangarnir voru rakaðir. Litskrúðugt húðflúr var fyrir ofan annað eyrað en hinn vanginn sást ekki fyrir blóði sem hafði runnið úr stórum skurði á enninu. Nefið var blóðug klessa. Lögreglumaðurinn hafði á tilfinningunni að hann hefði séð þennan mann einhvern tímann áður.

"Hvernig er ástandið?" spurði hann.

"Meðvitundarlaus en stöðugur púls. Líklega handleggs- og viðbeinsbrotinn en virðist hafa sloppið við innvortis blæðingar. Höfuðáverkar. Við þurfum að drífa okkur með hann á bráðamóttökuna," svaraði annar sjúkraflutningamaðurinn.

Þeir lyftu börunum og tveir lögreglumenn til viðbótar hjálpuðu þeim við burðinn. Það þurfti að ganga nokkurn spöl til að komast á sæmilega leið upp vegfláann. Sjúklingurinn var þungur og færðin var slæm. Loks komust þeir upp á veg og börurnar hurfu inn í sjúkrabílinn. Innan skamms var hann lagður af stað til borgarinnar.

Lögreglumaðurinn gekk til baka að jeppanum og skoðaði framhlutann sem var talsvert beyglaður eftir áreksturinn. Ökumaðurinn stóð fyrir utan og studdi við tveggja metra hátt grenitré sem virtist hafa lent í hremmingum. Toppurinn var brotinn og greinar höfðu slitnað af.

"Ég heiti Hermann," sagði lögreglumaðurinn. "Ég sé víst um rannsókn á þessu slysi."

"Ég heiti Ólafur," svaraði ökumaðurinn. Hann var lágvaxinn, í gráum mokkafrakka, með kuldahúfu og gleraugu.

Hermann virti fyrir sér litla manninn og spurði sjálfan sig hvort svipurinn gæti verið...sigri hrósandi?

"Hvernig bar þetta til?" spurði hann. "Var hinn bíllinn kyrrstæður hérna þegar þú lentir á honum?"

"Nei, hann var á lítilli ferð."

"Gastu ekki stöðvað þegar þú sást hann?"

"Jú, en ég ók viljandi á hann. Ég var að koma í veg fyrir þjófnað."

"Þjófnað?"

"Já, hann reyndi að stela jólatrénu mínu. Ég var samt ekki að reyna að meiða hann. Það var óvart. Sjálfsvörn meina ég."

Lögreglumaðurinn horfði vantrúaður til skiptis á litla manninn og grenitréð.

"Þetta líst mér ekki á. Heyrðu við skulum setjast inn í bíl. Ég þarf að heyra alla söguna."

Þeir settust inn í annan lögreglubílinn sem var í gangi og því sæmilega hlýtt þar inni.

Hermann tók upp skrifblokk og penna. "Jæja," sagði hann. "Þetta lítur ekki vel út. Hvað var það nákvæmlega sem gerðist?"

Ólafur tók ofan húfuna svo sköllótt höfuðið kom í ljós.

"Ég fór að heiman eftir hádegi til að kaupa jólatré fyrir fjölskylduna. Við vorum orðin dálítið sein fyrir. Ég þurfti að fara á nokkra staði til að finna sæmilegt tré en það tókst loksins í gróðrarstöð fyrir utan bæinn. Ég var búinn að borga en var aðeins að kíkja á jólakúlur sem voru boðnar með afslætti, 15 til 25 prósent eftir stærð. Þegar ég leit svo upp var tréð horfið. Ég svipaðist um og sá þá hvar þessi maður hljóp með tréð út á bílastæði. Afgreiðslumaðurinn hafði brugðið sér frá svo ég gat ekki beðið hann um aðstoð. Ég flýtti mér því bara á eftir manninum og kallaði að þetta væri mitt tré sem hann væri með. Hann henti hins vegar trénu upp á pallbílinn og bara sýndi mér dónaskap."

"Hvernig þá?" spurði lögreglumaðurinn.

"Hann sýndi mér bara fingurinn," svaraði Ólafur og rétti upp löngutöng hægri handar. "Svona."

"Sagði hann ekkert?"

"Jú, hann kallaði líka eitthvað ljótt en hann var svo rámur að ég skildi hann ekki."

"Jæja, hvað gerðist svo?" spurði lögreglumaðurinn.

"Nú, hann keyrði af stað en ég elti hann á mínum bíl. Það kom ekki til mála að láta hann fara með mitt tré loksins þegar ég var búinn að finna það rétta."

"Af hverju hringdirðu ekki á lögregluna?"

"Það var slökkt á farsímanum mínum og ég mundi ekki öryggisnúmerið. Það gerist stundum þegar ég kemst í uppnám."

"Þú getur hringt í neyðarlínuna úr farsíma þótt öryggisnúmerið sé ekki slegið inn."

"Ég vissi það ekki. Ég kann lítið á þessa síma."

"Jæja. Haltu áfram."

"Maðurinn stoppaði svo á rauðu ljósi á gatnamótum og þá stökk ég út úr bílnum og náði trénu af bílpallinum áður en hann ók af stað aftur. Ég stakk trénu aftur í jeppann minn en sá svo að hann var að snúa við. Þá hefur hann verið búinn að taka eftir að tréð var horfið. Hann braut allar umferðarreglur þegar hann sneri við en ég flýtti mér upp í jeppann og keyrði í burt. Hann elti mig svo ég þorði ekki að fara inn í bæinn þar sem ég þyrfti að stöðva við umferðarljós. Í staðinn tók ég stefnuna út úr bænum og ætlaði að reyna að stinga hann af á þjóðveginum. Ég vissi að bíllinn minn væri kraftmeiri en hans."

Það var bankað á hliðarrúðuna á lögreglubílnum. Það var lögregluþjónn úr hinum bílnum. Hermann renndi rúðunni niður.

"Við erum búnir að finna út hvaða maður þetta er," sagði hinn lögregluþjónninn. "Hann var nýlega látinn laus úr fangelsi til reynslu og býr á áfangaheimili. Þeir sendu hann út með peninga til að kaupa jólatré."

"Hann hefur ætlað að spara aurinn og ná sér í ókeypis tré," sagði Hermann og renndi upp rúðunni. "Hvað gerðist svo?" spurði hann Ólaf.

"Ég ók eins hratt og ég þorði en maðurinn gafst bara ekki upp. Ég sá hann lengi í speglinum. Loks hvarf hann þó. Ég stöðvaði þá og beið í nokkra stund en það kom enginn. Þá sneri ég við og ók til baka. Ég var orðinn ansi seinn svo ég fór dálítið hratt. Allt í einu keyrði pallbíllinn fyrir mig af hliðarvegi og ég þurfti að snarbremsa til að lenda ekki á honum. Jeppinn drap á sér og fór ekki í gang þegar ég reyndi að ræsa hann. Maðurinn kom út og ætlaði að opna hurðina hjá mér en ég var búinn að læsa. Hann sparkaði þá í hurðina þannig að það kom stór dæld. Sjáðu bara." Ólafur benti á jeppann.

Hermann leit út og sá beyglu á hurðinni sem var eins og fótspor í laginu. "Hann hefur ekki dregið af sér við þetta."

"Nei og ég var auðvitað dauðhræddur því afturhlerinn á jeppanum var opinn. En hann kippti bara trénu út úr jeppanum og setti það á bílpallinn hjá sér. Svo keyrði hann burt."

"Datt þér þá ekki í hug að láta hann fara og setja þig í samband við lögregluna?" spurði Hermann.

"Jú, ég ætlaði að gera það en svo kom ég jeppanum í gang og þá var hann ekki kominn langt. Það var eins og hann væri að ögra mér með því að keyra hægt. Ég náði honum fljótlega og hann rétti hendina út um gluggann og sýndi mér fingurinn aftur. Mér var þá alveg nóg boðið. Ég gat ekki hugsað mér að láta svona óbótamann ræna mig á sjálfri jólahátíðinni. Það var kröpp beygja framundan og þegar við komum að henni ók ég aftan á pallbílinn svo hann flaug svona út af veginum og valt. Maðurinn bærði fyrst ekki á sér inni í bílnum en þegar ég sótti tréð kom hann öskrandi út. Það blæddi úr enninu á honum og hann ætlaði að ráðast á mig. Þá rak ég tréð í nefið á honum og hann rotaðist. Það kom fljótlega bíll og ökumaðurinn hringdi eftir hjálp fyrir mig. Þú veist framhaldið."

Hermann hafði punktað hjá sér minnisatriði en lagði nú skrifblokkina frá sér. "Ég veit ekki hvernig verður farið með þetta mál," sagði hann. "En það munu örugglega verða eftirmál af þessu fyrir þig. Við skulum vona að maðurinn sé ekki mikið slasaður."

"En er þetta ekki glæpamaður?"

"Jú, en framganga þín var engu að síður full harkaleg að mínu mati."

"Má ég hringja í konuna mína?" spurði Ólafur. "Hún er sennilega farin að undrast um mig."

"Já, gjörðu svo vel," sagði Hermann og benti á bílsímann.

Ólafur valdi númerið og það heyrðist hár hringingartónn því síminn var stilltur á hátalara í lögreglubílnum.

"Halló," Það var hvell kvenmannsrödd sem svaraði.

"Sigríður mín, þetta er ég, Ólafur."

"Ólafur minn. Hvar hefurðu eiginlega verið?"

"Ég tafðist aðeins en ég fer að koma heim með jólatréð."

"Jólatréð? Það var hringt af jólamarkaðnum og sagt að þú hefðir farið og skilið tréð eftir."

"Nei nei, Sigríður mín. Ég er með tréð."

"Það getur ekki verið. Þeir tóku víst tréð til að saga af endanum á því en þú varst farinn þegar þeir komu með það aftur. Þeir voru svo að loka og vildu koma trénu til skila fyrir jólin. Þeir fundu nafnið þitt á kreditkortamiðanum og hringdu. Villi bróðir skaust og sótti það. Tréð er komið upp og við erum að skreyta það."

Það var þögn litla stund.

"...Halló...halló...Ertu þarna?"

Höfundur er rithöfundur.