Jón Viðar Jónsson
Jón Viðar Jónsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þorsteinn Ö. Stephensen var hinn eini af frumherjunum í íslensku leikhúsi sem ég náði að kynnast að ráði.

Þorsteinn Ö. Stephensen var hinn eini af frumherjunum í íslensku leikhúsi sem ég náði að kynnast að ráði. Þegar ég settist í hans gamla sæti og varð leiklistarstjóri Útvarps árið 1982, voru þeir Valur Gíslason ásamt Valdemar Helgasyni að heita mátti þeir einu sem þá stóðu eftir af kynslóðinni sem lyfti íslenskri leiklist endanlega af stigi metnaðarfullrar áhugamennsku Leikfélags Reykjavíkur yfir í atvinnuleikhúsið. Þorsteinn var einn af lykilmönnunum í þeirri sögu þó að hann færi þar talsvert aðra leið en helstu starfsbræður hans: Haraldur Björnsson, Indriði Waage eða Lárus Pálsson, nánasti vinur hans í stéttinni, svo einungis séu nefndir þeir sem voru ótvírætt í forystuhlutverkum. Annars var allt þetta fólk þá horfið á braut, nema Valur sem var að vísu orðinn eilítið ellimóður en naut þess þó enn að taka eitt og eitt hlutverk í Útvarpinu þegar vel stóð á.

Þorsteinn hafði þá einnig um skeið háð harða baráttu við Elli kerlingu, en seiglan lét ekki að sér hæða í þeirri snerru fremur en ýmsum öðrum sem hann hafði átt í um ævina; hann varð ekki lagður auðveldlega að velli. Það sem háði honum einna verst var raddhæsi, sem hafði lengi þjáð hann, en tók að ágerast mjög um það bil sem hann lét af starfi leiklistarstjóra Útvarps árið 1974. Hann hafði vitaskuld ávallt gert til sín ströngustu kröfur og fannst hann nú ekki lengur hafa það vald yfir röddinni að hann gæti verið viss um að standast þær. Fæstir leikstjórar Útvarpsins voru þó sama sinnis og leituðu ítrekað til hans, og stundum, þegar þeir sóttu betur að honum en endranær, gat það gerst að hann slægi til. Þó að ekki tjáði lengur að halda að honum stærstu hlutverkum, sló hann t.d. ekki hendinni á móti Njáli á Bergþórshvoli í eftirminnilegri uppfærslu Útvarpsins á Merði Valgarðssyni Jóhanns Sigurjónssonar undir stjórn Bríetar Héðinsdóttur jólin 1983. Ég hygg að það hafi verið fyrsta hlutverkið sem hann vann eftir að ég kom að leiklistardeildinni og þau urðu sem betur fer nokkur í viðbót. Ég hafði ekkert kynnst honum áður, en nýtti tækifærið, heimsótti hann og konu hans Dórótheu Breiðfjörð Stephensen, Theu, stöku sinnum og spjallaði við hann þegar hann átti erindi á Útvarpið. Síðasta hlutverk hans var öldungur í uppfærslu Útvarps á Macbeth árið 1989, þá átti hann tæp tvö ár ólifuð, en hann lést 13. nóvember 1991 eftir nokkurra mánaða legu á Vífilsstaðaspítala.

Þorsteinn Ö. Stephensen var maður andstæðna; það fengu allir að reyna sem kynntust honum. Hann var alla jafna dagfarsprúður og jafnlyndur, hýr og ljúfur í framgöngu, en undir niðri bjuggu miklir skapsmunir sem gátu brotist fram með óvæntum þunga. Sá næmleiki listamannsins, sem hann var gæddur ríkulega, hafði að fylgifiski viðkvæmni sem gat kallað fram hörð viðbrögð, ef honum fannst að sér vegið eða á sig hallað; þannig kom það mér a.m.k. fyrir sjónir. Þessi hlið hans gat komið flatt upp á mann af því að hann hafði svo augljóslega lagt kapp á að aga sjálfan sig, temja skapsmuni sína, halda því frá sér sem honum gramdist eða reitti hann til reiði. Líklega var kímnin, hið fíngerða en þó oft svo beitta háð sem hann brá gjarnan fyrir sig og varð raunar einn af sterkustu þáttum listar hans, að einhverju leyti hluti af varnarvirki hans gegn þessari tilhneigingu. Hann var afar orðvar og gætinn í umsögnum og dómum um menn; að því komst ég fljótt þegar ég hafði kynnst honum svo vel að ég gæti farið að spyrja hann út í kynni hans og samstarf við ýmsa af hans kynslóð. Það segir ugglaust sína sögu að hann, einn ritfærasti maður leikarastéttarinnar, skyldi aldrei skrá endurminningar sínar eða ljá máls á því að vinna ævisögu þegar eftir því var leitað.

Sál listamannsins, skapgerð hans og lunderni, endurspeglast alltaf að verulegu leyti í list hans; þess vegna hef ég leyft mér að byrja þessa stuttu og fátæklegu upprifjun í tilefni af aldarafmæli Þorsteins Ö. Stephensen með persónulegum minningabrotum mínum. Þorsteinn var ekki einn þeirra leikara, sem leitast við að fela eigin persónu í karaktersköpuninni, koma sem mest á óvart í nýju og á stundum óþekkjanlegu gervi, heldur reyndi hann ævinlega að finna hjá sjálfum sér það sem máli skipti. Vera má að það hafi sett list hans ákveðin takmörk, en um leið gæddi það hana sannfæringarkrafti og tilfinningadýpt sem á bestu stundum hans lyfti henni í þær hæðir að við fátt verður jafnað. Ekki má heldur gleyma því að hann gat leikið jafnt á húmorinn sem alvöruna, þó að hann væri ekki kómískur leikari að upplagi; byggi ekki yfir þeirri náðargáfu mikilla kómíkera að geta komið mönnum til að hlæja með því einu að ganga fram á sviðið. Kímni hans var miklu fremur vitsmunaleg, gat mjög gjarnan verið írónísk, og naut sín ekki síst falin undir grímu einfeldningsskapar eða sakleysis. Um það er ein frægasta persónusköpun hans, Pressarinn í Dúfnaveislu Halldórs Laxness, glöggt dæmi.

Ungur leikari mannaði sig eitt sinn upp í að spyrja leiklistarstjórann hvað þyrfti til að verða góður útvarpsleikari. Þorsteinn mun hafa hugsað sig um nokkra stund, ræskt sig síðan á þann hátt sem honum einum var lagið og svaraði síðan eitthvað á þessa leið: "Maður reynir svona að leggja í þetta einhverja hugsun - já, og síðan koma henni til skila." Ekki er vitað hvort leikarinn ungi taldi sig miklu nær, en víst er að hann varð sjálfur einn af snjöllustu útvarpsleikurum sinnar kynslóðar. Sjálfum hefur mér alltaf fundist þetta litla tilsvar segja heilmikið um hug Þorsteins til listar sinnar, því að skýrleiki hugsunarinnar ásamt tærleik tilfinninganna voru þau gildi sem þar ríktu ofar öllu öðru.

Alþýðumaður af höfðingjaætt

Þverstæðurnar í fari Þorsteins Ö. Stephensen birtust þegar í uppruna hans, ættum og mannfélagsstöðu. Foreldrar hans, Ögmundur Hansson og Ingibjörg Þorsteinsdóttir, voru óbreytt alþýðufólk og hann er alinn upp við svipuð kjör og allur almenningur í byrjun síðustu aldar. Þó átti hann til höfðingja að telja, því að faðir hans var kominn af Stephensenum, einni helstu valdaætt landsins á átjándu og nítjándu öld. Þorsteinn var fæddur að Hurðarbaki í Kjós 21. des. 1904; þar bjó faðir hans þá en flutti skömmu síðar til Reykjavíkur og settist að í Hólabrekku á Grímstaðaholti, þar sem hann stundaði ofurlítinn búskap en fékkst annars mest við vöruflutninga. Það var því langt því frá að drengurinn væri fæddur með silfurskeið í munni, en hann fékk þó að ganga menntaveginn og síðar kaus hann einnig að nefna sig hinu fræga ættarnafni sem faðir hans hafði lagt niður fyrir sitt leyti. Þó að hann fyndi þannig sýnilega til nokkurs stolts yfir uppruna sínum, þá var hann síðar á ævinni ætíð maður alþýðunnar; það er vafasamt hvort nokkur íslenskur leikari hefur brugðið upp snjallari myndum af óbrotnum erfiðismönnum, fátækum af jarðneskri auðlegð, fátækum í anda. Hann var sósíalisti, að vísu aldrei flokksbundinn, svo mér sé kunnugt um, en sjálfsagt ekki óhollari "línunni" en hver annar og gekk aldrei af þeirri trú, að því er best er vitað.

Þorsteinn lauk stúdentsprófi frá MR árið 1924 og innritaðist þá í Háskóla Íslands þar sem hann mun hafa stundað læknisfræðinám um skeið. Eitthvað olli því að hann flosnaði upp úr því námi; e.t.v. var Thalía byrjuð að toga í hann, e.t.v. voru efnin takmörkuð og áhuginn sömuleiðis. Mér skildist á honum að Hólabrekkufjölskyldan hefði ekki stundað mikið leikhús; t.d. mun hann ekki hafa séð frú Stefaníu á leiksviðinu og hefði hann þó vel getað gert það aldurs vegna. Hann kom fyrst fram í nemendaleiksýningu Menntaskólans árið 1923 á einum af gamanleikjum Holbergs, en annars var leikferill hans næstu ár fremur slitróttur, nánast eins og hann hafi verið hikandi og óviss um hvort hann ætti að leggja út í þessa ófæru eða ekki. Ófæru, segi ég, því að leikarabrautin var vitaskuld ekkert annað en ófæra í flestra augum á þeim árum og ekki heldur allir í þeim hópi sem skildu mikilvægi þess að leikarinn hefði trausta undirstöðumenntun. Það gerði Þorsteinn hins vegar, en aðstaða hans var ekki auðveld; hann var orðinn fjölskyldumaður og efnin ekki slík að hann ætti auðvelt með að hleypa heimdraganum. Þau Thea gengu í hjónaband árið 1930 og árið eftir fæddist fyrsta barn þeirra, Guðrún, síðar leikkona við Þjóðleikhúsið, en alls eignuðust þau hjón fimm börn: Ingibjörgu, sem er nú látin, Stefán og Kristján, sem báðir eru hljóðfæraleikarar, og Helgu, leikkonu. Thea, sem var Reykjavíkurstúlka af skaftfellskum og breiðfirskum ættum, skildi vel þá köllun, sem hinn ungi bóndi hennar var að takast á við, enda sjálf mikil leikhúsmanneskja, og var það ekki síst fyrir atbeina og hvatningu hennar að hann brá sér til Kaupmannahafnar til að fylgjast með kennslunni í skóla Kgl. leikhússins vetrarlangt 1933-34. "Þá kynntist ég leiklist" sagði hann eitt sinn við mig með þeirri áherslu á orðið leiklist að auðfundið var hvað honum þótti um listiðkanir íslenskra kollega sinna um þær mundir.

Fjölmiðlastjarna og leiklistarstjóri

Um miðjan fjórða áratuginn réðst Þorsteinn aðstoðarþulur til hins nýstofnaða Ríkisútvarps og árið 1940 fékk hann stöðu aðalþular. Útvarpsdagskráin var þá og raunar alllengi síðan að mestu leyti bundin við kvöldin, enda fráleitt að vera að trufla fólk frá vinnunni með músík og masi úr viðtækjunum sem biðu manna þegar þeir komu þreyttir heim að kveldi, þyrstir í fréttir og fróðleik, afþreyingu og list. Þorsteinn Ö. varð ein af skærustu stjörnum hins nýja undratækis, rödd hans, karlmannleg, blæfögur og þýð, barst um landið og greip hugi þjóðarinnar föstum tökum, auðvitað ekki síst kvenþjóðarinnar, sbr. hina skemmtilegu vísu Ólínu Jónasdóttur sem varð fleyg:

Ekki er klukkan orðin sjö,

ennþá hefur birtan völdin.

Mikið þrái ég Þorstein Ö,

þegar fer að skyggja á kvöldin.

Þá dró ekki úr vinsældum þularins hversu vel hann þótti leika í leikritum þeim sem urðu snemma eitt vinsælasta efni dagskrárinnar. Þorsteinn fékk flestum betri tækifæri til að læra á hljóðnemann sem miðil leikflutnings, og hann nýtti þau í þaula; kannski var nauðsynlegt að fá að sjá hann sjálfan standa við hljóðnemann í stúdíóinu og nánast dansa í kringum hann til að átta sig á því feykilega valdi sem hann bjó hér að lokum yfir eftir áratuga þjálfun. Samkvæmt skrám Útvarpsins lék hann fyrsta hlutverk sitt þar árið 1936, í þáttum úr Pétri Gaut, en alls urðu hlutverk hans í útvarpi um 600 talsins, fleiri en nokkurs annars leikara. Ef talið er frá fyrsta leik á sviði til síðasta útvarpshlutverks spannaði ferill Þorsteins alls sextíu og sex ár.

Fram að stofnun Þjóðleikhússins 1950 var oftast æft í Iðnó að kvöldlagi, enda leikendur og aðrir starfsmenn flestir við borgaraleg störf á daginn. Að þessu leyti rakst starf Þorsteins hjá Útvarpinu illa á leikhúsvinnuna; þegar aðrir voru lausir var hann bundinn þar. Á fimmta áratugnum leikur hann því tiltölulega fá hlutverk og smá með LR, veigamest þeirra var Brynjólfur biskup í Skálholti Kambans sem var frumsýnt á jólum 1945. Tæpum áratug síðar lék hann það í útvarp; er sú túlkun tvímælalaust einn af hátindunum á ferli hans og mætti heyrast oftar. Í rauninni er það ekki fyrr en um 1950 að Þorsteinn öðlast þann sess á sviðinu sem manni finnst að honum hefði borið miklu fyrr. Aðstæður hans á Útvarpinu höfðu þá breyst frá því sem áður var, því að árið 1947 hafði Brynjólfur Bjarnason látið það verða eitt af síðustu verkum sínum sem menntamálaráðherra að skipa hann yfirmann leiklistar í Ríkisútvarpinu. Þó að ráðningin væri auðvitað pólitísk, hafði umsjón með útvarpsleikritunum fram að því verið á ýmissa höndum og löngu orðið tímabært að koma þeim málum í fastari skorður.

Útvarpsleikritunum stýrði Þorsteinn síðan í rúman aldarfjórðung allt til ársins 1974, er hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Auðvitað hlaut smekkur hans að setja svip á verkefnavalið; þó að hann væri góður bókmenntamaður, vel menntaður og smekkvís, var hann alltaf frekar íhaldssamur í þeim efnum; t.d. var hann ekki mikið gefinn fyrir að prófa evrópska framúrstefnu í útvarpinu, kaus fremur að halda sig við þá höfunda af breskum og bandarískum skóla sem kunnu vel að segja sögu, og spillti þá ekki að þeir hefðu góðan boðskap að flytja: það má nefna Somerset Maugham, J.B. Priestley, Bernard Shaw, Eugene O'Neill, og svo auðvitað meistara þeirra allra, Ibsen. Þó væri rangt að saka hann hér um algera einstefnu, eitt framúrstefnulegasta verk O'Neills, Strange Interlude, tókst t.d. ágætlega í flutningi Útvarps árið 1961. Hinn mikli lærifaðir O'Neills, Strindberg, átti hins vegar ekkert sérstaklega upp á pallborðið hjá Þorsteini og ég held ekki að honum hafi þótt sérstök eftirsjá að Ionesco, Beckett og því kompaníi öllu. Hann var róttækur húmanisti, en enginn bölmóðugur níhílisti; trúði því ekki að manneskjan væri alvond og alspillt, tilveran absúrd, án tilgangs og stefnu.

Síðbúinn stórleikari

Árið 1950 var tímamótaár, jafnt í sögu Þorsteins Ö. og leiklistarinnar í landinu. Hann hafði sótt um stöðu þjóðleikhússtjóra á móti Guðlaugi Rósinkranz og þegar niðurstaða ráðherra lá fyrir, var af og frá að Þorsteinn réðist að Þjóðleikhúsinu sem undirmaður Guðlaugs. Þorsteinn hafði þegar markað sér sess sem einn af forystumönnum hinnar ungu leikarastéttar, var t.d. fyrsti formaður Félags íslenskra leikara er það var stofnað árið 1941, og hafði komið að undirbúningi þjóðleikhússtofnunar sem formaður í nefnd skipaðri af Brynjólfi Bjarnasyni árið 1946. Ef hann hefði ráðist til Þjóðleikhússins hefði hann að sjálfsögðu orðið að sleppa þeirri áhrifastöðu sem hann hafði á Ríkisútvarpinu og hún var á þeim árum, þegar Útvarpið var eini ljósvakamiðill landsins, hreint ekki lítilsverð. Honum var mun auðveldara að samræma störf sín við Útvarpið þátttöku í starfi Leikfélags Reykjavíkur. Endurreisn Leikfélagsins árið 1950, því óhætt er að nefna hana því nafni, er eitt af ævintýrum íslenskrar leiklistarsögu og ekki hægt að hugsa þá hugsun til enda, hvað hefði orðið ef það hefði lognast út af og Þjóðleikhúsið eitt átt að halda hér uppi merki leiklistarinnar. Það var mikið gæfuspor er þeir Þorsteinn og Brynjólfur Jóhannesson ákváðu að slást í hóp ungra og áhugasamra krafta, sem Þjóðleikhúsið hafði a.m.k. ekki reglubundin not fyrir, og halda starfi LR áfram.

Hér er ekki rúm til að fara í saumana á einstæðum leikferli Þorsteins næstu ár, frægum sigrum hans og listþroska. Hann fékk Silfurlampa Félags íslenskra leikdómara tvívegis: 1957 fyrir hinn raunamædda menntaskólakennara Andrew Crocker-Harris í Browning-þýðingu Rattigans, 1966 fyrir Pressarann í Dúfnaveislu Laxness. Hvað sem því olli, þá var eins og hann leystist úr læðingi sem leikari um og upp úr 1950, og er vissulega athyglisvert að það gerist fyrst undir handarjaðri danska leikstjórans Gunnars R. Hansen sem vann ómetanlegt starf með LR á sjötta áratugnum. Sumir leikarar geysast fram sem skærar stjörnur á unga aldri, leggja áhorfendur og gagnrýnendur að fótum sér, þó að síðar geti oltið á ýmsu um framhaldið. Í þeim hópi var Þorsteinn ekki; þó að hann fengi stöku sinnum allgóð tækifæri framan af var það fyrst á síðari hluta starfsævinnar sem hann náði að blómstra.

Því miður fór svo að leiðir Þorsteins og LR skildu undir lok sjöunda áratugarins með atvikum sem ekki er nauðsyn að rekja hér. Eftir það lék hann aðeins stöku hlutverk með félaginu, þegar alveg sérstaklega stóð á og í hlut áttu leikstjórar eða höfundar sem stóðu honum nærri: Lárus Pálsson, Halldór Laxness, Jökull Jakobsson. Ugglaust fór leiklistarsagan á mis við mörg stórhlutverk fyrir vikið, þó að hitt verði tæpast harmað að Þorsteinn hafði þá því betra svigrúm til að helga sig útvarpsleiknum. Hann hafði nú tekið út fullan þroska sem leikari og í útvarpsleikjum sjöunda og áttunda áratugarins má glöggt heyra hversu feikilega breitt svið skapgerðarleikur hans spannaði. Þá lék hann nokkuð í sjónvarpið eftir að það tók til starfa 1966; hann var t.d. Runólfur skósmiður í Romm handa Rósalind Jökuls Jakobssonar, fyrsta sjónvarpsleiknum sem var tekinn upp í stúdíói, og Björn í Brekkukoti í sjónvarpsmyndinni eftir Brekkukotsannál Laxness. Allra síðustu árin lék hann nokkur hlutverk í Þjóðleikhúsinu og er eftirminnilegast þeirra Örnólfur gamli í Stundarfriði Guðmundar Steinssonar, enn ein smáperlan þar sem saman fór hlýja hans, fínleiki og kankvísleg glettni, í lýsingu á íslenskum almúgamanni.

Arfleifðin?

Hver er þá arfleifð Þorsteins Ö. Stephensen til okkar? Verk leikarans er ekki áþreifanlegt, það er bundið persónu listamannsins, hverfur í raun um leið og hann sjálfur. Hvað Þorstein varðar erum við svo lánsöm að eiga ótrúlega stóran hluta af lífsverki hans varðveittan í upptökum, sem flestar eru auðvitað úr Útvarpinu, en sjónvarps- og kvikmyndaupptökurnar eru ekki síður verðmætar, eins þótt þær séu frá seinni árum hans. Í sumum af eldri útvarpsupptökunum, s.s. af Skálholti og Íslandsklukkunni, finnum við sjálfsagt betur fyrir vænghafi þess stórleikara, sem hann var í blóma lífsins, og er þó hætt við að þær miðli ekki nema broti þeirrar snilldar sem hitti samtíð hans í hjartað frá sviðinu sjálfu.

Leikhúsið hefur breyst mikið á undanförnum árum og áratugum. Öld hinna miklu stórleikara er liðin; þó að við og þjóðirnar í kringum okkur eigi vitaskuld fjölda góðra leikara eiga Danir engan Poul Reumert, Bretar engan Olivier - við engan Þorstein Ö. Er víst að það sé að öllu leyti slæmt? Orðið "stjörnuleikhús" hefur óbragð í munni margra, og víst hafði "stjörnuleikhúsið" sínar slæmu hliðar. En er betra að leikstjórinn verði sú "stjarna" sem allt snýst um? Leikstjórnarleikhúsið getur líka farið út í öfgar; um það þarf ekki að fjölyrða hér.

Hvað sem því líður: tímarnir breytast og spegill þeirra, leikhúsið, með. Hvernig sem allt veltist verður einu aldrei neitað: það er hverri þjóð, ekki síst smáþjóð eins og okkur, þakkarefni að hafa átt snillinga, á hvaða sviði listarinnar sem er. Þorsteinn Ö. Stephensen var einn hinna útvöldu; list hans hefur haldið ferskleika sínum og þrótti til þessa dags, a.m.k. í eyrum þeirra sem enn nenna að leggja við hlustir þegar rödd hans hljómar. Við sem nú lifum höfum öll tæki til að halda arfi hans að komandi kynslóðum og ef við bregðumst þeirri skyldu höfum við einungis við sjálf okkur að sakast.

Eftir Jón Viðar Jónsson