[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HEILDARÚTLÁN Íbúðalánasjóðs voru um 477 milljarðar króna í lok september samkvæmt upplýsingum frá sjóðnum. Þar af voru um 150 milljarðar króna tilheyrandi útlánum sem bera vexti undir ráðandi markaðsvöxtum, þó að lágmarki 1%.

HEILDARÚTLÁN Íbúðalánasjóðs voru um 477 milljarðar króna í lok september samkvæmt upplýsingum frá sjóðnum. Þar af voru um 150 milljarðar króna tilheyrandi útlánum sem bera vexti undir ráðandi markaðsvöxtum, þó að lágmarki 1%. Ástæður fyrir þessum lágu vöxtum geta verið að lánin hafi félagsleg ákvæði og að lántakandi sé búsettur utan markaðssvæða bankanna. Ekki er talið líklegt að af uppgreiðslu þessara lána verði því lántakendur eiga ekki kost á hagstæðari lánum. "Verði af uppgreiðslu á þessum hluta lánanna mun sjóðurinn hagnast verulega sökum þess að þau bera að meðaltali vexti sem eru talsvert undir núverandi markaðsvöxtum," sagði Jóhann G. Jóhannsson, sviðsstjóri áhættu- og fjárstýringasviðs Íbúðalánasjóðs í samtali við Morgunblaðið í gær.

Uppgreiðsluáhætta í almennum lánum

Um 327 milljarðar króna voru tilheyrandi svokölluðum almennum lánum og felst uppgreiðsluáhætta sjóðsins í þessum lánum. Að sögn Jóhanns gerði sjóðurinn viðeigandi ráðstafanir til að bregðast við þessari áhættu. "Um 235-255 milljarða vörn sjóðsins felst í tvennu. Í fyrsta lagi hefur sjóðurinn heimild til þess að greiða upp eldri skuldbindingar sínar upp að um 135 milljörðum króna og í öðru lagi tók Íbúðalánasjóður skiptiálag í skiptum á húsbréfum yfir í íbúðabréf sem áttu sér stað í júlí síðastliðnum. Skiptiálagið nam 0,23-0,26% og jafngildir uppgreiðsluvörn á bilinu 100-120 milljörðum króna, miðað við núverandi aðstæður. Heildarvarnir almenna lánakerfisins nema því rúmlega 75% af útistandandi lánum sjóðsins," sagði Jóhann og hélt áfram: "Það gleymist í umræðunni um þessi mál að það eru ekki miklar líkur á því að öll 160 þúsund útlán Íbúðalánasjóðs muni greiðast upp. Lánin eru mismunandi í lengd en einnig er hluti þeirra með vöxtum talsvert undir markaðsvöxtum, félagsleg lán og lán tengd landsbyggðinni sem bankar hafa ekki tiltekið sem markaðssvæði."

Eiginfjárhlutfall í samræmi við markmið

Í reglugerð um fjárhag og áhættustýringu Íbúðalánasjóðs segir: "Íbúðalánasjóður skal hafa sem langtímamarkmið að halda eiginfjárhlutfalli sjóðsins yfir 5%, miðað við reglur Fjármálaeftirlitsins um eigið fé og eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja, til að tryggja að sjóðurinn geti mætt skuldbindingum sínum." Að sögn Jóhanns er eiginfjárhlutfall af bókfærðu virði útistandandi lána sjóðsins 5,1% og eiginfjárhlutfall af markaðsvirði lánanna 7%. Hann segir jafnframt að til skammtíma megi eiginfjárhlutfall vera 4%. En er ekki hættulegt að hafa eiginfjárhlutfall svona nálægt langtímamarkmiðinu? "Sjóðurinn er skilgreindur sem stofnun sem skila á hagnaði sínum til viðskiptavina og því er það markmið hans að hafa eiginfjárhlutfall sem næst 5%," segir Jóhann.

Upplýsingagjöf samkvæmt reglum Kauphallar

Keppinautar Íbúðalánasjóðs hafa gagnrýnt sjóðinn fyrir lélega upplýsingagjöf og til dæmis er hægt að lesa eftirfarandi á vefsíðu Íslandsbanka: "Enn hefur Íbúðalánasjóður ekki birt áætlun um sölu íbúðabréfa fyrir árið 2005 og er að okkar mati ámælisvert að stærsti einstaki útgefandi skuldabréfa á íslenskum markaði skuli sinna upplýsingagjöf til fjárfesta með jafn slökum hætti og raun ber vitni." Aðspurður segir Jóhann að sjóðurinn vinni samkvæmt reglugerðum Kauphallar Íslands í þessum efnum og að samkvæmt þeim beri sjóðnum ekki að gefa neitt út um áætlanir sínar á næsta ári. Þetta hefur fengist staðfest hjá Kauphöllinni. Þar á bæ segja menn að Íbúðalánasjóður lúti sömu reglum og aðrir skuldabréfaútgefendur, þar með taldir bankarnir.

Góð einkunn Moody's

"Mat fagaðila eins og Fjármálaeftirlitsins og Moody's, ásamt þeim norrænu ráðgjöfum sem að skiptunum í sumar komu, er einróma um að staða sjóðsins sé stöðug og traust við núverandi aðstæður," segir Jóhann og vísar til skýrslu lánshæfismatsfyrirtækisins Moody's um Íbúðalánasjóð. Samkvæmt henni er lánshæfismat sjóðsins Aaa en það er hæsta einkunn sem Moody's gefur. "Samkvæmt skýrslunni er nánast engin hætta á greiðslufalli og auk þess er sjóðurinn mjög kostnaðarskilvirkur. Ennfremur kemur fram að eiginfjárhlutfall sjóðsins sé fullnægjandi og að þar sem öll inn- og útlán sjóðsins eru í íslenskum krónum sé gengisáhætta sjóðsins engin," segir Jóhann. Að hans sögn leiðir sú staðreynd að Íbúðalánasjóður fær betri einkunn hjá Moody's en viðskiptabankarnir og sparisjóðirnir til þess að sjóðurinn getur fjármagnað útlán sín á hagkvæmari hátt en keppinautarnir. "Þau lán sem við erum nú að bjóða á 4,15% vöxtum eru fjármögnuð með síðustu skuldabréfaútgáfu okkar en á þeim skuldabréfum greiðum við 3,55% vexti," sagði Jóhann. Hann telur að umræða um sjóðinn sé á talsverðum villigötum. "Menn sem gagnrýna sjóðinn mest virðast ekki hafa kynnt sér til hlítar uppbyggingu og verklag hans í dag. Það er einnig af og frá að Íbúðalánasjóður hafi ekki gert ráð fyrir aðkomu fjármálafyrirtækja á húsnæðislánamarkaðinn. Ég held við getum öll verið sammála um það að innkoma bankanna á íbúðalánamarkaðinn sé jákvæð og til þess að vera. Breytingar á rekstri Íbúðalánasjóðs miðuðu einmitt að því að slíkt gerðist," segir Jóhann G. Jóhannsson að lokum.