30. desember 2004 | Erlendar fréttir | 299 orð

Mannskæðustu jarðskjálftarnir

JARÐSKJÁLFTAR, skriðuföll og flóðbylgjur hafa valdið dauða og eyðileggingu svo lengi sem sögur kunna frá að greina. Átti sá mannskæðasti sér stað í Shensi-héraði í Kína árið 1556 en talið er, að hann hafi valdið dauða 830.000 manna.
JARÐSKJÁLFTAR, skriðuföll og flóðbylgjur hafa valdið dauða og eyðileggingu svo lengi sem sögur kunna frá að greina. Átti sá mannskæðasti sér stað í Shensi-héraði í Kína árið 1556 en talið er, að hann hafi valdið dauða 830.000 manna.

Annar mannskæðasti skjálftinn er líklega Antíokkíu-skjálftinn í Sýrlandi árið 526, sem varð um 300.000 manns að bana, og sá þriðji mannskæðasti varð í borginni Tangshan í Kína 1976. Þá fórust um 250.000 manns.

Í Mikla Kanto-jarðskjálftanum árið 1923, sem átti upptök sín rétt við Tókýó í Japan, fórust 142.800 manns og skjálftinn mikli í Lissabon í Portúgal 1755 olli dauða um 100.000 manna, þar, annars staðar í landinu og í Marokkó. Fylgdi honum gífurleg flóðbylgja og síðan eldar, sem brunnu í marga daga. Í Messína á Ítalíu fórust allt að 100.000 manns 1908.

Um 66.000 manns fórust í skriðuföllum af völdum jarðskjálfta í Perú 1970. Um 40.000 týndu lífi í miklum jarðhræringum í héraðinu Gilan í Íran 1990 og fyrir réttu ári hrundi íranska borgin Bam til grunna. Fórust þá að minnsta kosti 26.000 manns.

Jarðskjálftinn í Armeníu 1988 kostaði 25.000 manns lífið og 20.000 manns fórust í Gujarat-héraði á Indlandi 2001.

Í jarðskjálfta í Tyrklandi 1999 fórust um 17.000 manns og í Mexíkóborg 1985 og í Managva í Níkaragva 1972 10.000 manns í hvorri borg.

Tölur yfir mannfall í öðrum skjálftum á síðustu öld og það, sem af er þessari, eru lægri en nefna má, að jarðskjálftinn í Kobe í Japan 1995 kostaði 6.430 manns lífið.

Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru og nefna má, að í tveimur skjálftum í Kína á síðustu öld, 1920 og 1927, fórust samtals 400.000 manns.

Í öflugasta jarðskjálfta, sem vitað er um, sem var 9,5 á Richter-kvarða og átti sér stað í Alaska 1964, fórust aðeins rúmlega 100 manns og í jarðskjálftanum fræga í San Francisco 1906 var manntjónið um 3.000.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.