Ingrid Karlsdóttir og Melkorka Ólafsdóttir.
Ingrid Karlsdóttir og Melkorka Ólafsdóttir. — Morgunblaðið/Þorkell
VEITT var í fyrsta sinn í gær úr Styrktarsjóði Halldórs Hansen til tónlistarnema við athöfn í Salnum í Kópavogi, en Halldór arfleiddi Listaháskóla Íslands að öllum eigum sínum með þeim formerkjum að stofnaður yrði styrktarsjóður í hans nafni.
VEITT var í fyrsta sinn í gær úr Styrktarsjóði Halldórs Hansen til tónlistarnema við athöfn í Salnum í Kópavogi, en Halldór arfleiddi Listaháskóla Íslands að öllum eigum sínum með þeim formerkjum að stofnaður yrði styrktarsjóður í hans nafni.

Það eru Ingrid Karlsdóttir fiðluleikari og Melkorka Ólafsdóttir flautuleikari sem hljóta styrkinn að þessu sinni, en þær stunda báðar framhaldsnám í tónlist erlendis. Báðar hljóta þær 300.000 kr. í styrk, en í sjóðnum eru tæpar 90 milljónir króna. Þá var 8 milljóna króna framlag sjóðsins til uppbyggingar tónlistarbókasafni Listaháskólans afhent við sömu athöfn.

"Mér líst ljómandi vel á styrkinn. Hann kemur sér auðvitað mjög vel, en ekki síður er það er mikil hvatning að hljóta hann," sagði Ingrid í samtali við Morgunblaðið, og bætti við að hún vildi nota tækifærið til að koma á framfæri þökkum til þeirra sem standa að baki styrknum. "Vonandi stend ég undir væntingum þeirra sem höfðu þessa trú á mér."

Styrkurinn mun koma að góðum notum, að sögn Ingridar, því framundan hjá henni eru inntökupróf í eina fimm háskóla í Bandaríkjunum, sem geta verið kostnaðarsöm. "Síðan er ég að festa kaup á nýju hljóðfæri og það getur verið að ég noti peningana að einhverju leyti til þess," segir hún.

Ingrid Karlsdóttir er fædd í Reykjavik árið 1984 og hóf fiðlunám sjö ára gömul hjá Lilju Hjaltadóttur. Árið 1996 innritaðist hún í Tónlistarskólann í Reykjavík og haustið 2001 hóf hún nám við Listaháskóla Íslands og útskrifaðist þaðan síðastliðið vor. Vorið 2003 var Ingrid einn af sigurvegurunum í einleikarakeppni Listaháskólans og Sinfóníuhljómsveitar Íslands og spilaði af því tilefni fiðlukonsert eftir Jean Sibelius með Sinfóníuhljómsveitinni vorið 2004. Ingrid er nú við nám í Bandaríkjunum þar sem hún sækir einkatíma hjá Sigurbirni Bernharðssyni.

Að sögn Melkorku líst henni að sjálfsögðu einnig vel á styrkinn. "Það er rosalega mikill heiður og mikils virði að finna að það hefur einhver trú á manni. Þetta er mikil hvatning í því sem maður er að gera," sagði hún í samtali við Morgunblaðið. Aðspurð segist Melkorka ekki enn hafa ákveðið hvernig hún hyggst ráðstafa styrknum. "Það getur verið að ég kaupi mér nýtt hljóðfæri, en það er ekki ákveðið," sagði hún.

Melkorka Ólafsdóttir fæddist árið 1981. Flautunám sitt hóf hún í Tónskóla Sigursveins hjá Maríu Cederborg. Síðar flutti hún sig yfir í Tónlistarskólann í Reykjavík.Haustið 2001 hóf hún nám við Listaháskóla Íslands og útskrifaðist þaðan vorið 2004. Melkorka tók þátt í einleikarakeppni Listaháskólans og Sinfóníuhljómsveitar Íslands og lék í framhaldi af því flautukonsert Jacques Iberts með Sinfóníuhljómsveitinni. Hún stundar nú framhaldsnám hjá Harrie Starreveld við Konservatoríið í Amsterdam og Emily Beynon við Konunglega konservatoríið í Den Haag.