Susan Sontag "Þversögnin í rithöfundarlífi hennar er hins vegar sú að hún hafði metnað til að skrifa skáldsögur og taldi að þær fjórar skáldsögur sem hún skrifaði væru mikilvægari en ritgerðarsöfnin. Því munu fæstir lesendur hennar vera sammála og það
Susan Sontag "Þversögnin í rithöfundarlífi hennar er hins vegar sú að hún hafði metnað til að skrifa skáldsögur og taldi að þær fjórar skáldsögur sem hún skrifaði væru mikilvægari en ritgerðarsöfnin. Því munu fæstir lesendur hennar vera sammála og það — AP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Susan Sontag lést í lok síðasta árs. Sontag var einn áhrifamesti hugsuður Bandaríkjanna. Hún skrifaði um fagurfræði, bókmenntir, kvikmyndir, ljósmyndir, pólitík og margt fleira. Hér er ferill hennar rifjaður upp.

Það sem mestu skiptir nú er endurheimt skilningarvitanna. Við verðum að sjá meira, heyra meira, skynja meira - Susan Sontag, Against Interpretation.

Skelfilegustu myndir nýliðins árs eru fréttamyndir af gíslatökunni í borginni Beslan í Norður-Ossetíu: Það er verið að setja barnaskólann í bænum þegar hryðjuverkamenn ráðast þar inn, vopnaðir handsprengjum, eldvörpum og skammbyssum. Tveimur óbærilegum sólarhringum síðar liggja 330 í valnum, þar af 176 börn. Sex hundruð manns særð, meirihlutinn börn. Á myndunum hlaupa hermenn með blóðug, hálfnakin börn út úr byggingunni og við sjáum grátandi mæður og feður. Þetta var í byrjun september. Fjórum mánuðum síðar, fyrstu daga ársins 2005, fylgjumst við með þjáningu fólksins við Indlandshaf: Limlestir líkamar, örvingluð börn, grátandi foreldrar, fjöldagrafir. - Það er eitt af einkennum okkar fjölmiðlavæddu menningar, skrifar Susan Sontag í sinni síðustu stóru ritgerð (Regarding the Pain of Others) að við erum sífellt að virða fyrir okkur sársauka annarra. En hvað er það eiginlega að virða fyrir sér þjáningu og sársauka annarra - úr öruggri fjarlægð vel að merkja? Gegna allar þessar myndir af særðu og þjáðu fólki mikilvægu hlutverki eða valda þær bara augnabliks hryllingi áður en við gleymum þeim? Eru þær partur af afþreyingarmenningu? Vekja þessar myndir samúð með fólkinu og jafnvel andúð á stríði eða kannski bara hefndarhug. Ritgerðin er gagnrýnið framhald hugleiðinga sem komu út á frægu ritgerðarsafni eftir Sontag 1976 og heitir On Photography eða Um ljósmyndun. Þar veltir hún fyrir sér á mjög áleitinn hátt tvíeggjuðu eðli ljósmynda: Því þótt ljósmyndavélin sé skoðunarstöð, þá er ljósmyndun annað og meira en hlutlaus skoðun. Hún á það sammerkt með kynferðislegri gægjuþörf að hvetja til þess, leynt eða ljóst, að það sem er að gerast haldi áfram að gerast. Að taka ljósmynd er að hafa áhuga á hlutunum eins og þeir eru í óbreyttu ástandi, (a.m.k. svo lengi sem það tekur að ná góðri mynd) - líka þegar manneskjan þjáist eða verður fyrir ógæfu. Sontag bendir á að ljósmyndavélin breyti öllu í misáhugaverð myndefni, já breyti allri reynslu í kalda mynd og geri okkur að því leyti sljó fyrir þjáningu annarra. Að vekja fólk til vitundar og slæva það, þetta er þverstæða fréttaljósmyndunar sem heillar Susan Sontag. Ein ástæðan fyrir því hve hún var alla tíð upptekin af ljósmyndum, áhrifum þeirra á einstaklinga og hlutverki í samfélaginu, gæti verið sú að haustið 1945 var hún einu sinni sem oftar að gramsa í bókabúð í Los Angeles og rakst þar á fréttatímarit með ljósmyndum frá aðkomunni í Buchenwald-útrýmingarbúðunum fyrr á árinu. Hún var tólf ára gömul. "Þá brast eitthvað inni í mér" sagði hún löngu síðar í viðtali "ég hef aldrei verið söm síðan".

Susan Sontag var rithöfundur og menningarrýnir sem öðlaðist poppstjörnufrægð á sjöunda og áttunda áratugnum. Hún var einn áhrifamesti hugsuður síðustu áratuga, stjarna vinstrisinnaðrar menntastéttar Bandaríkjanna, fagurfræðilegur trúboði og menningarlegt yfirvald sem tók róttæka evrópska hugsuði og listamenn í dýrlingatölu (Artaud, Barthes, Benjamin, Godard) og kynnti þá fyrir lesendum sínum og löndum. Og hún var óvæginn gagnrýnandi bandarískrar utanríkisstefnu sem sagði á dögum Víetnamstríðsins að Bandaríkjamenn væru dæmd þjóð sem byggði á þjóðamorði. Það þarf varla að taka fram að margir bandarískir hægrimenn hötuðu Susan Sontag, sennilega jafnmikið og íslenskir hægrimenn (og framsóknarmenn) hötuðu Halldór Laxness á sínum tíma. Hún bjó með hléum í Sarajevo í tvö ár á meðan Balkanstríðið geisaði og borgin í herkví leyniskyttna, setti upp stykkið Beðið eftir Godot með leikurum í borginni, kenndi ensku og gagnrýndi Evrópuþjóðirnar harðlega fyrir deyfð sína og aðgerðarleysi. Hún réttlætti loftárásir Nató í Bosníu og Kosovo og sagði rök friðarsinna gegn loftárásunum ekki standast. Hún skrifaði magnaðan texta um krabbameinið sem hún þurfti að berjast við þrisvar sinnum áður en yfir lauk.

Þar að auki má hiklaust telja Susan Sontag einhvern snjallasta essayista síðustu áratuga. Ritgerðir hennar eiga reyndar ekki að sanna eitt né neitt og þeim er ekki ætlað að byggja upp akademíska kenningu um veruleikann. Þær eru miklu frekar knúnar áfram af einstöku næmi fyrir margbreytileika hlutanna eins og þeir birtast okkur - og sterkri réttlætiskennd. Hún hnitar stóra og smáa hringi í kringum kjarna hvers máls, kjarna sem reynist oft vera óleysanleg þversögn. Hún er óhrædd við að komast í mótsögn við það sem hún hefur skrifað einhvern tíma áður. Hún telur sig ekki hafa neinu að tapa. Ef við líkjum henni við tónlistarmann, þá er hún djassleikari sem spinnur út frá ákveðnum stefjum; djassleikari sem, vel að merkja, metur frelsi sitt ofar öllu og hefur ákveðið að þiggja ekki fastlaunaða stöðu í háskólahljómsveitinni. Þversögnin í rithöfundarlífi hennar er hins vegar sú að hún hafði metnað til að skrifa skáldsögur og taldi að þær fjórar skáldsögur sem hún skrifaði væru mikilvægari en ritgerðarsöfnin. Því munu fæstir lesendur hennar vera sammála og það sárnaði henni.

Hún fæddist 1933 í New York og mun vera komin af pólskum gyðingum. Hún missti föður sinn fimm ára og ólst upp í Kaliforníu og Arizona hjá móður sinni og stjúpföður sem var atvinnuhermaður. Og þrátt fyrir frekar dauflegt millistéttarumhverfi hefur æska hennar á sér goðsagnakenndan blæ eins og títt er um stórstjörnur. Henni lá allavega meira á en jafnöldrum hennar. Hún var afburðanemandi, farin að lesa Marcel Proust 14 ára gömul og tók sig til um líkt leyti og heimsótti Thomas Mann í Santa Monica með vinkonu sinni til að ræða við hann um Töfrafjallið en fannst svo ekki mikið til hans koma, sagði að hann hefði talað eins og bókagagnrýni er skrifuð. Þegar stjúpfaðir hennar benti henni eitt sinn á, í mestu vinsemd, að hún mætti ekki loka sig inni yfir bókum því þá eignaðist hún aldrei vini og sennilega ekki kærasta heldur, sagðist hún hafa hlegið hæðnislega því hún hefði verið sannfærð um að það hlyti að vera til fullt af fólki sem hefði nákvæmlega sömu áhugamál og sömu þrár og hún. Hún reyndist hafa rétt fyrir sér. Hún innritaðist í háskólann í Berkley aðeins 15 ára gömul, giftist félagsfræðingnum Philip Rieff 17 ára, lauk gráðu í háskólanum 18 ára og eignaðist sitt eina barn, soninn David, 19 ára. Hún skildi 9 árum síðar og sagan segir að hún hafi verið eina einstæða móðirin í hinu stóra Kaliforníuríki sem neitaði að þiggja meðlag.

Á sjötta áratugnum lagði Susan Sontag stund á heimspeki og bókmenntir við Harward-háskólann og var eitt ár við nám í París, starfaði síðan við háskólakennslu í Boston og New York og skrifaði um listir og menningu í tímaritin New York Review of Books, Nation og Harper's. Ég gerði mér ljóst þarna í upphafi sjöunda áratugarins í New York, skrifaði hún síðar, að háskólalífið hentaði mér ekki, "ég ákvað að hæla mitt tjald niður utan við hið lokkandi, grjóthlaðna öryggi háskólanna". Þegar hún var þrítug kom út fyrsta skáldsagan hennar Velgjörðarmaðurinn en hún fjallar um auðugan mann að nafni Hyppolyte sem ákveður að laga hversdagslífið að frekar geggjuðum draumum sínum og taka ekkert mark á því hvað öðrum finnst um tiltækið. Í glímunni við þessa sérkennilegu sögupersónu mótast hennar eigin fagurfræðilega afstaða en hana má orða þannig að Sontag hvetji samtímafólk til að hætta að leita að einhverri merkingu á bak við listaverk heldur að skynja verkið sem hlut í sjálfum sér. Hún brýnir fyrir fólki að listaverk sé hlutur í heiminum en ekki bara texti eða lýsing á heiminum. Árin 1961 til 1965 birtust eftir hana fjöldi blaða og tímaritsgreina um bókmenntir, franskar nýbylgjumyndir, fagurfræði, leikhús og bandarískan hommakúltur sem hún safnaði saman 1966 í ritgerðarsafnið Against Interpretation (Gegn túlkun). Titilgrein safnsins er fagurfræðileg stefnuyfirlýsing Susan Sontag. Þar gagnrýnir hún af frábæru andríki bókmenntafræðinga sem séu sífellt að leita að dulinni merkingu "á bak við textann" sem þeir fjalla um, í stað þess að skynja og greina hljómfall, stíl og innihald textans eins og hann birtist á blaðinu. Hún fullyrðir að "áköf þörf" samtímans fyrir að túlka stafi ekki ekki endilega af lotningu gagnvart erfiðum textum, heldur "opinskáum fjandskap, yfirlýstri óbeit á sýndinni". Og hún bætir því við að "þekktustu og áhrifamestu" kenningakerfi nútímans, marxismi og freudismi séu í raun "blygðunarlausar túlkunarkenningar" sem setji öll greinanleg fyrirbæri innan hornklofa með því að gera greinarmun á yfirborðsmerkingu og djúpmerkingu. Gegn þeim kumpánum stefnir hún spjátrungnum Oscar Wilde sem á mottó ritgerðarinnar: "Einungis yfirborðskennt fólk dæmir ekki eftir útliti. Leyndardómur heimsins er hið sýnilega ekki hið ósýnilega". Sontag segir að túlkun geti vissulega verið frelsandi í sumum menningarsamfélögum en í öðrum samfélögum sé hún íhaldssöm, heftandi, óviðeigandi og til marks um hugleysi: Samtíminn er slíkur tími...Rétt eins og eiturgufurnar frá bílum og stóriðju liggja eins og mara á andrúmslofti borganna eitra dreggjar listtúlkunar fyrir skilningarvitum okkar í dag. Túlkunin er hefnd vitsmunanna í garð listarinnar í menningarsamfélagi þar sem ofvöxtur vitsmuna á kostnað krafts og skynjunarhæfni er ekki lengur ný krísa...Hún er hefnd vitsmunanna á heiminum. Að túlka er að gera fátækara, firra heiminn einhverju - í því skyni að koma á fót skuggaveröld "merkinga". Að mati Sontag er það einmitt sjálf sýndin sem skiptir öllu máli, já, fyrirbærið sjálft og þar með hæfileikinn til að skynja hlutina eins og þeir eru. Hún talar í því samhengi um "gagnsæi" en það þýðir að upplifa "ljóma hlutarins í sjálfum sér". Í lok ritgerðarinnar talar hún um að menning okkar byggist á ofgnótt og offramleiðslu og að öll skilyrði nútímalífs leggist á eitt við að deyfa skilningarvit okkar. "Það sem mestu skiptir nú er endurheimt skilningarvitanna. Við verðum að læra að sjá meira, heyra meira, skynja meira". En ritgerðin endar með þessum orðum: "Í stað túlkunarfræði er þörf á erótík listarinnar."

Frægasta ritgerðin í þessu fyrsta ritgerðarsafni hafði reyndar birst í tímaritinu Partisan Review haustið1964 og gert Susan Sontag að stjörnu meðal lista og menntamanna í New York á einni nóttu. Hún heitir "Notes on Camp" og þar greinir hún á snilldarlegan hátt þá sérstöku og frumlegu skynjun á veröldinni sem hafði þróast í litríkri jaðarmenningu homma í Bandaríkjunum eins og hún birtist í "hommalegri" orðanotkun, tísku, smekk, svolítið ýktum tilburðum, fjaðraskrauti frá þriðja áratugnum, áhuga á ballett og óperum, ást á kitschi, listum yfir 10 verstu kvikmyndir sem ég sé á ævinni og oscar-wilde-legum orðatiltækjum: því meira sem ég pæli í listum, því minni áhuga hef ég á náttúrunni. Í "camp"-kúlturnum fann Susan Sontag eitthvert næmi fyrir veruleikanum sem heillaði hana; fólk sem sér meira, heyrir meira og skynjar meira.

Stundum hefur verið bent á að áhersla Susan Sontag á fyrirbærin eins og þau birtast okkur sé mjög kantísk afstaða. Sontag hafnaði aldrei þeirri samlíkingu en kannski má fullt eins kalla hana and-platónista því hinn sýnilegi veruleiki á hug hennar allan. Hún hefur engan áhuga á heimi frummyndanna, öll athygli hennar beinist að heimi sýndanna. Um það ber áhugi hennar á ljósmyndum ljósast vitni og að hún er heilluð af kvikmyndum (evrópskum), þessu listformi hinna flöktandi sýnda. Í formála að endurútgáfu á Against Interpretation í spænskri þýðingu segist Sontag hafa lært mikið af því að fara daglega í kvikmyndsafnið í París, meðan hún bjó þar, til að horfa á gamlar og nýjar myndir. Hennar eigin fagurfræði mótaðist af því að deila upplifun sinni og skarpskyggni með bandarískum lesendum eftir að hafa horft á nýjustu myndir Godards, Bressons og Bergmanns. Godard var í sérstöku uppáhaldi hjá henni, um myndirnar hans skrifaði hún sumar af sínum snjöllustu ritgerðum.

Þegar líður á sjöunda áratuginn og fram á þann áttunda verður Susan Sontag sífellt róttækari í yfirlýsingum sínum um bandarískt þjóðfélag og bandaríska utanríkisstefnu en ritgerðir hennar snúast fyrst og fremst um fyrirbæri samtímamenningar. Hún pælir í ímyndum klámsins, skrifar um eiturlyf, kvikmyndir og nútímalist. Hún skrifar ítarlega og hárbeitta ritgerð "Fascinating Fascism" gegn Leni Riefenstahl sem þá var um það bil að hljóta uppreisn æru í alþjóða samfélaginu með glæsilegum ljósmyndum sínum af íturvöxnum Núbíumönnum í ljósmyndabókinni The Last of The Nuba. "Liturinn er svartur" skrifar Sontag "efnið er leður, freistingin er fegurð, réttlætingin er heiðarleiki, markmiðið er alsæla og fantsían er dauði". Nokkrum árum síðar skrifar hún eina af sínum fallegustu ritgerðum um Walter Benjamin, sem mætti kalla guðföður menningarfræðinnar, en hann framdi sjálfsmorð við spænsku landamærin á flótta undan nasistum 1940. Ritgerðin heitir "Undir merki Satúrnusar". Það eru þó einkum tvær bækur frá áttunda áratugnum sem tryggðu varanlega frægð Susan Sontag. Áðurnefndur greinaflokkur Um ljósmyndir fjallar á brilljant hátt um tvíeggjuð áhrif og hlutverk ljósmynda í neyslusamfélaginu. Þetta er sennilega víðlesnasta bók Susan Sontag og sumir fullyrða sú besta. Hin bókin er ritgerðin Illness and Metaphor sem kom út 1978 en þar lýsir Sontag ekki aðeins baráttu sinni við brjóstakrabba sem hún hafði greinst með tveimur árum áður, heldur greinir hún og gagnrýnir menningarfyrirbærið krabbamein. Hún gagnrýnir þá tilhneigingu í samfélaginu, sem hún varð vör við, að líta krabbamein sem einhvers konar tákn fyrir líf sem er ekki lengur í jafnvægi, firrt samfélag, hnignun okkar nútímamanna. Boðskapur hennar er að við eigum ekki að líta á krabbamein sem myndlíkingu fyrir eitthvað annað en það er, nefnilega sjúkdómur sem við þurfum að berjast við með hjálp læknavísinda. Og það var nákvæmlega það sem Sontag gerði - og hafði sigur með hjálp lækna í París og reyndar einnig vina sinna sem hjálpuðu henni fjárhagslega vegna þess að hún hafði aldrei verið í fastri vinnu og var ekki sjúkratryggð. Nokkrum árum síðar þegar alnæmi kom upp og raddir heyrðust um refsingu fyrir syndugt líferni kom bókin út aftur endurskoðuð og aðlöguð: Aids and its Metaphors (1988).

Þegar Balkanstríðið skall á taldi Sontag sig sjá skýr merki að nú væru aftur að hefjast þjóðernishreinsanir í Evrópu. Hún undraðist eins og áður sagði aðgerðarleysi Evrópríkja og ekki síður deyfð evrópskra menntamanna. Hennar viðbrögð voru að fara til Sarajevo þegar ástandið þar var hvað verst og dvelja þar meira og minna í tvö ár. Hún var sannfærð um að loftárásir Nató á Bosníu og Kosovo hefðu stöðvað þjóðernishreinsanir. Friðarsinnum sem mótmæltu loftárásunum svaraði hún í blaðagreininni "Why Are We in Kosovo". "Er það virkilega satt að stríð leysi aldrei neitt? Prufið að spyrja svarta Bandaríkjamenn hvort þeir telji að frelsisstríðið hafi ekkert leyst"? Hún gagnrýndi hins vegar harðlega innrás Bandaríkjamanna og hinna viljugu þjóða í Írak. Taldi augljóst að Bush-stjórnin beitti lygum og blekkingum og að henni gengi illt eitt til, það er að segja að tryggja olíuhagsmuni og að koma upp herstöðvum á lykilstöðum í Mið-Austurlöndum. Aftur uppskar hún hatursraddir herskárra hægrimanna sem urðu nú háværari en nokkru sinni fyrr.

Í sinni síðustu bók Regarding The Pain of Others tekur hún upp þráðinn frá því ljósmyndabókinni frá 8. áratugnum en veltir nú fyrir sér ljósmyndum af þjáningum annarra. Nú telur hún ljóst að hún hafi gert of mikið úr því að myndflæði neyslusamfélagsins geri okkur sljó og ónæm fyrir myndefninu. Og hún gagnrýnir harkalega póstmódernista sem hafi ýkt slævingaráhrif myndflæðisins svo mikið að þeir trúi því að fólk hafi engin tengsl lengur við raunveruleikann og þar með raunveruleika þjáningarinnar. Þetta er lúxuspæling vestrænna menntamanna og hefur ekkert að gera með hvernig stór hluti mannskyns upplifir veruleika myndanna, skrifar hún. - Einhvers staðar bætir hún svo við "Fórnarlömbin vilja ekki að enginn hirði um þjáningu þeirra". Kannski minntist hún þá ljósmyndanna úr Buchenwald.

Susan Sontag lést úr hvítblæði á heimili sínu í New York 27. desember síðastliðinn. Sambýliskona hennar til margra ára var ljósmyndarinn Anne Leibowitch.

Tilvitnanir í verk Susan Sontag eru úr þýðingum Hermanns Stefánssonar og Hjálmars Sveinssonar. Úrval ritgerða eftir Susan Sontag er væntanlegt í atviksbókaröðinni.

Höfundur er heimspekingur og útvarpsmaður.