Eins og fram kom í grein Bergþóru Jónsdóttur, Af listum, í Morgunblaðinu í gær, er gjöf Halldórs Hansen barnalæknis til Listaháskóla Íslands, "stórmerk".

Eins og fram kom í grein Bergþóru Jónsdóttur, Af listum, í Morgunblaðinu í gær, er gjöf Halldórs Hansen barnalæknis til Listaháskóla Íslands, "stórmerk". Með henni er "lagður grundvöllur að því að hér verði hægt að halda uppi fagmennsku á sviði tónlistarfræða hvers konar; tónvísinda og tónlistarsögu".

Gjöf hans má rekja aftur til ársins 1999 er Halldór, sem átti viðamikið safn hljómplatna, myndbanda, bóka og ýmiskonar gagna um tónlist, fór fram á það að Listaháskólinn tæki við safni hans. Árið 2001 gaf hann skólanum safnið auk fleiri verðmæta, svo sem húseignar við Laufásveg. Var þá tekin ákvörðun um að stofna sérstakan styrktarsjóð við Listaháskólann og kenna hann við Halldór Hansen, en sú athöfn fór formlega fram í Salnum sl. föstudag. Nemur stofnfé sjóðsins um 90 milljónum króna.

Auk þess að verðlauna einn eða fleiri tónlistarnema Listaháskólans fyrir framúrskarandi árangur, er það hlutverk sjóðsins að byggja upp og styðja við tónlistarbókasafn skólans. Skilyrði Halldórs fyrir gjöfinni var að skólinn tryggði að tónlistarsafn hans yrði notað í þágu nemenda og kennara Listaháskólans, auk annarra sem rannsaka eða kynna tónlist. Ennfremur að það yrði skráð og gert aðgengilegt öllum notendum innan skólans og utan. Skilyrðin bera hugsjónum Halldórs gott vitni - en einnig þekkingu hans á átakanlegri vöntun á slíku safni hér á landi.

Bergþóra bendir á að "þeir háskólar heims sem teljast í fremstu röð, eiga það sammerkt að státa af feiknargóðum bókasöfnum, sem laða ekki bara að sér nemendur og kennara, heldur líka fræðimenn. Á Íslandi hefur fræðimennska í tónlist af augljósum ástæðum verið handahófskennd og háð mikilli þrautseigju þeirra sem hana hafa stundað". Sjóður Halldórs Hansen hefur alla burði til að valda löngu tímabærum straumhvörfum. Framsýni Halldórs og metnað fyrir hönd íslensks tónlistarlífs ber því að þakka - gjöf hans mun vinna með komandi kynslóðum og verða forsenda brýnna framfara á þessu sviði menningarinnar.