"Heimi hefur enn tekist að skapa mátulega dularfulla sýningu."
"Heimi hefur enn tekist að skapa mátulega dularfulla sýningu." — Morgunblaðið/Eggert
Til 30. janúar. Kling og Bang er opið fimmtudaga til sunnudaga frá kl. 14-18.

ÍSLENSK samtímalist væri fátækari ef Heimis Björgúlfssonar nyti ekki við en nálgun hans, framsetning og hugmyndafræði eru skemmtileg blanda af íslenskum og evrópskum hugsunarhætti eins og hann sjálfur leggur áherslu á. Ég treysti mér þó varla til að greina nákvæmlega þarna á milli - e.t.v. einkennist nálgun íslenskra myndlistarmanna stundum af persónulegu viðmiði á meðan evrópskir starfsbræður forðast frekar hið persónulega sjónarhorn og leitast við að sjá hlutina í stærra samhengi? Hér eru auðvitað yfirborðskenndir sleggjudómar á ferð rétt eins og í myndinni How do you like Iceland? sem við sáum um daginn. En eitthvað verður til þess að kveikja svona hugmyndir, hvort sem þær eiga rétt á sér eður ei.

Að hætti ímyndaðs evrópsks listamanns fletti ég upp á álku í fuglavísinum - íslenskur starfsbróðir hefði etv. leitað í söguna af því þegar álkan skeit á hattinn hans afa í sunnudagsgöngutúrnum við Reykjanesvita 1967? Fuglavísirinn hefur ýmislegt að segja um álkuna. Hún er t.a.m. skyld geirfuglinum sem dó út 1844, ófleygur. Enn fremur eru stærstu álkubyggðir heims undir Látrabjargi. Að öðru leyti er álkan flottur og félagslyndur fugl, hraðfleygur og sundléttur en á erfitt um gang. Hún étur sjálfsagt einhver síli og þvílíkt en tæpast finnur hún á Íslandi bjöllu líka þeirri sem uppstoppaða álkan hefur í gogginum í Galleríi Kling og Bang þar sem hún trónir á stöpli í miðbiki sýningar Heimis. Heimir hefur ennfremur gefið fuglaáráttu sinni lausan tauminn og veggfóðrað galleríið með fuglamyndum sem að öllum líkindum sýna íslenska fugla, þori þó ekki að fara með það. Ljósmyndaklippimyndir af skógi prýða bakherbergi en hér notar Heimir sömu aðferð og Hrafnkell Sigurðsson gerði á ljósmyndaseríum af landslagi, steinum og hrauni fyrir allnokkrum árum. Útkoman skapar eilítið ruglandi en áferðarfallegt yfirborð. Myndband í kjallara sýnir loks dularfulla togstreitu hvað varðar afstöðu listamannsins til náttúrunnar og verður hér hver að túlka fyrir sig. Heimi hefur enn tekist að skapa mátulega dularfulla sýningu þar sem ekkert er gefið en annað gefið í skyn, þar sem húmor og alvara spila vel saman. Hann er tvímælalaust í hópi áhugaverðari listamanna af sinni kynslóð og list hans fangar tíðarandann áreynslulaust.

Ragna Sigurðardóttir