Nýja bókin G. Ágúst Pétursson, stjórnarformaður Frumkvöðlafræðslunnar ses., flettir nýju kennslubókinni Frumkvöðlafræði - Að stofna og reka lítið fyrirtæki.
Nýja bókin G. Ágúst Pétursson, stjórnarformaður Frumkvöðlafræðslunnar ses., flettir nýju kennslubókinni Frumkvöðlafræði - Að stofna og reka lítið fyrirtæki.
GEFIN hefur verið út bókin Frumkvöðlafræði - Að stofna og reka lítið fyrirtæki. Þetta er fyrsta bókin á íslensku um þetta efni.

GEFIN hefur verið út bókin Frumkvöðlafræði - Að stofna og reka lítið fyrirtæki. Þetta er fyrsta bókin á íslensku um þetta efni. Það er IÐNÚ sem gefur bókina út en hún er þýðing á bandarískri bók sjálfseignarstofnunarinnar National Foundation for Teaching Entrepreneurship, NFTE.

Frumkvöðlafræðslan sá ásamt útgefandanum um allan undirbúning að útgáfu bókarinnar, en eitt af meginverkefnum stofnunarinnar er að stuðla að útbreiðslu frumkvöðlafræðslu í skólakerfinu, sérstaklega í grunn- og framhaldsskólum. Deloitte á Íslandi, stuðningsaðili Frumkvöðlafræðslunnar, kom einnig að gerð bókarinnar og skrifuðu sérfræðingar stofunnar hluta af þeim texta sem þurfti að endursemja og laga að íslenskum aðstæðum.

G. Ágúst Pétursson, stjórnarformaður Frumkvöðlafræðslunnar, segir að eftir að hafa heimsótt nokkurn fjölda framhaldsskóla hér á landi og rætt við yfirvöld menntamála hafi komið í ljós að mikill áhugi hafi verið fyrir því að unnið yrði að útgáfu bókar um frumkvöðlafræði. Og eftir nokkra leit að hentugu námsefni á þessu sviði hafi þessi bók orðið fyrir valinu, enda þyki hún mjög góð.

Bókin var fyrst gefin út í Bandaríkjunum á árinu 1987 og hefur verið endurprentuð og endurbætt alls átta sinnum síðan þá. Á árinu 2002 hlaut bókin námsbókaverðlaunin Golden Lamp Award, sem eru verðlaun sem Samtök bandarískra námsbókaútgefenda veita fyrir bestu námsbækurnar þar í landi.

Að sögn Ágústar hentar bókin mjög vel til kennslu í framhaldsskólum og einnig í símenntun á ýmsum stigum, sérstaklega þar sem nemendurnir hafa ekki mikla þekkingu í rekstrarfæðum. Hann segir að nú þegar sé bókin notuð við kennslu í Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu, Fjölbrautaskólanum í Garðabæ, Menntaskólanum á Egilsstöðum og Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum. Einnig sé þess að vænta að hún verði tekin til kennslu í haust í nokkrum skólum til viðbótar.