Innherji tók fullmikið upp í sig, fyrir viku, þegar hann fullyrti að Húsasmiðjan væri að byggja stærstu byggingavöruverslun landsins í Grafarholti. Með réttu hefði átt að standa, að Húsasmiðjan væri að byggja eina stærstu byggingavöruverslun landsins.

Innherji tók fullmikið upp í sig, fyrir viku, þegar hann fullyrti að Húsasmiðjan væri að byggja stærstu byggingavöruverslun landsins í Grafarholti. Með réttu hefði átt að standa, að Húsasmiðjan væri að byggja eina stærstu byggingavöruverslun landsins. Innherji hefur fengið ábendingu um að BYKO hafi fyrir tveimur og hálfu ári, þ.e. haustið 2002, opnað nýja verslun í Breiddinni á 7000 fermetra sölusvæði, sem mun vera svipaður fermetrafjöldi og verður í hinni nýju verslun Húsasmiðjunnar í Grafarholti, auk 3000 fermetra lagers tengdum þeirri verslun. Í Breiddinni sé líka 9000 fermetra hlaðbraut, 2000 fermetra leigumarkaður og 1500 fermetra lagnadeild. Breiddin sé því tvímælalaust stærsta byggingavöruverslun landsins.

Innherja er bæði ljúft og skylt að greina frá þessu, og um leið að biðjast velvirðingar á þeirri ónákvæmni sem gætti í vangaveltum hans fyrir viku.

Það er augljóst, á þessum tímum mikilla framkvæmda, að gróska er í þeim geira atvinnulífsins, sem tengist byggingum. M.a. fjallaði Innherji um vöxt Húsasmiðjunnar í liðinni viku. Eins hefur Innherji haft spurnir af því að hjá BYKO og tengdum félögum, (Norvík) sé ýmislegt á döfinni Þannig keypti BYKO á síðasta ári rekstur Wayland Timber í Bretlandi, en það er heildsölufyrirtæki í timbri og timburtengdum vörum og nú þessa dagana er BYKO að setja í gang byggingavöruverslanir í Lettlandi í félagi við þarlenda aðila. Fyrirtækið mun ráðgera að opna 3 verslanir í Riga innan árs, auk þess sem BYKO mun hafa verið að byggja upp timburframleiðslu í Rússlandi með góðum árangri.

Það virðist því vera á hverju sviðinu á fætur öðru, sem íslensk fyrirtæki ráðast í útrás og uppbyggingu íslenskrar starfsemi í nálægum og fjarlægum löndum.

Þetta er auðvitað af hinu góða fyrir íslenskt viðskiptalíf og sannkallað fagnaðarefni, þegar jákvæðar fregnir berast að utan, um velgengni íslenskra athafnamanna og fyrirtækja.

Ekkert lát á íslenskri útrás

Ef marka má áform forystumanna fjölmargra fyrirtækja, þá verður ekkert lát á íslenskri sókn á erlenda markaði í bráð.

Íslenskir bankar og fjármálafyrirtæki eru nánast daglega orðuð við þessi eða hin kaupin í erlendum fjármálafyrirtækjum, í erlendum fjölmiðlum. Ekki þarf að hafa mörg orð um fjárfestingar Baugs Group, undir forystu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, í Bretlandi og á Norðurlöndum, Björgólfur Thor Björgólfsson og hans erlendu fjárfestingar eru reglulegt umfjöllunarefni, sömuleiðis lyfjafyrirtækin, ákveðin sjávarútvegsfyrirtæki einnig, ekki síst Samherji, Samskip hyggja á aukna útrás, eins og Ólafur Ólafsson ræddi í stórglæsilegri veislu sl. laugardagskvöld, þar sem nýjar höfuðstöðvar Samskipa voru formlega vígðar, Flugleiðir hafa verið í útrás og hyggja á frekari útrás, ef marka má orð hins starfandi stjórnarformanns, Hannesar Smárasonar og svo mætti ugglaust lengi telja.

Allt er þetta vísbending um mikinn sóknarhug og allt eins líklegt að sú mikla útrás, sem nú hefur staðið um nokkurt skeið, verki sem hvati á aðra, sem hingað til hafa látið sér nægja Ísland sem athafnasvæði.

Innherji@mbl.is