SJÁVARÚTVEGURINN í heild var rekinn með 10% hagnaði á árinu 2003. Afkoma botnfiskveiða versnaði frá árinu 2002 til ársins 2003 en afkoma botnfiskvinnslu batnaði. Hagur rækjuvinnslu batnaði en hagur hörpudiskvinnslu versnaði á árinu 2003.

SJÁVARÚTVEGURINN í heild var rekinn með 10% hagnaði á árinu 2003. Afkoma botnfiskveiða versnaði frá árinu 2002 til ársins 2003 en afkoma botnfiskvinnslu batnaði. Hagur rækjuvinnslu batnaði en hagur hörpudiskvinnslu versnaði á árinu 2003. Hagnaður var áfram á rekstri mjölvinnslu en tap varð á rekstri loðnuskipa á árinu 2003. Eigið fé sjávarútvegsins jókst um 4% á árinu 2002.

Þetta kemur fram í yfirliti Hagstofu Íslands um afkomu sjávarútvegsins árið 2003. Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnskostnað og tekju- og eignarskatta (verg hlutdeild fjármagns eða EBITDA) sem hlutfall af heildartekjum sjávarútvegsins lækkaði milli áranna 2002 og 2003. Í fiskveiðum og -vinnslu lækkaði þetta hlutfall (án milliviðskipta) úr 21½% í 20%. Í fiskveiðum lækkaði hlutfallið úr 23½% árið 2002 í 21½% af tekjum árið 2003 en í fiskvinnslu hækkaði hlutfallið úr 8% árið 2002 í 8½% árið 2003.

Afkoma botnfiskveiða versnaði frá árinu 2002 til ársins 2003 en afkoma botnfiskvinnslu batnaði. Hreinn hagnaður botnfiskveiða, reiknaður samkvæmt árgreiðsluaðferð, lækkaði úr 12½% af tekjum í 11% og hagnaður botnfiskvinnslu hækkaði úr 3% af tekjum í 3½%. Afkoma veiða er nokkru verri ef gert er upp samkvæmt hefðbundnum uppgjörsaðferðum í stað árgreiðslu, en afkoma vinnslu betri.

Hagur rækjuvinnslu batnaði en hagur hörpudiskvinnslu versnaði á árinu 2003. Lítil hörpudiskvinnsla var árið 2003. Hagnaður var áfram á rekstri mjölvinnslu en tap varð á rekstri loðnuskipa á árinu 2003. Afli var mikill en verð afurða lækkaði á árinu.

Ekki reyndist vera mikill munur á afkomu sjávarútvegsins eftir því hvort hagnaður er reiknaður eftir árgreiðsluaðferð eða á hefðbundinn hátt miðað við gjaldfærðar afskriftir og fjármagnskostnað. Verð á erlendum gjaldeyri var u.þ.b. óbreytt frá upphafi til loka árs 2003 miðað við útflutningsvog en lækkaði um 6% á milli ársmeðaltala. Sé árgreiðsluaðferðin notuð gætir ekki sveiflna af þessu tagi við mat á fjármagnskostnaði.

Heildareignir sjávarútvegs í árslok 2003 voru 255 milljarðar króna, heildarskuldir 179 milljarðar og eigið fé 76 milljarðar. Verðmæti heildareigna hefur hækkað í fjárhæðum um 9% frá 2002 og skulda um 11% á en eigið fé hefur aukist um 4%.