— Morgunblaðið/Ómar
STÖRFUM á vinnumarkaði hér á landi fjölgaði um 3.100, eða 2%, á fjórða ársfjórðungi síðasta árs í samanburði við sama ársfjórðung árið áður. Fjöldi starfandi fólks á fjórða ársfjórðungi 2004 var 156.300 manns. Á vinnumarkaði voru alls 160.

STÖRFUM á vinnumarkaði hér á landi fjölgaði um 3.100, eða 2%, á fjórða ársfjórðungi síðasta árs í samanburði við sama ársfjórðung árið áður. Fjöldi starfandi fólks á fjórða ársfjórðungi 2004 var 156.300 manns. Á vinnumarkaði voru alls 160.300 manns sem jafngildir 79,7% atvinnuþátttöku. Á fjórða ársfjórðungi 2003 mældist atvinnuþátttaka 80,0%. Á milli ára fjölgaði í vinnuaflinu um 2.600 manns, mest í aldurshópnum 55-74 ára. Þetta kemur fram í vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands.

Um 4.000 manns voru án atvinnu og í atvinnuleit á fjórða ársfjórðungi 2004, sem er um 2,5% vinnuaflsins. Atvinnuleysi mældist 2,1% hjá körlum en 2,9% hjá konum. Atvinnuleysið var mest meðal fólks á aldrinum 16-24 ára, eða 6,9%. Á fjórða ársfjórðungi 2003 mældist atvinnuleysi 2,9%.

Í Vegvísi greiningardeildar Landsbanka Íslands segir að mikill sveigjanleiki á íslenskum vinnumarkaði birtist einna helst í miklum sveiflum í atvinnuþátttöku.

Atvinnuleysi enn fremur mikið

"Það er því athyglisvert að atvinnuþátttaka skuli standa í stað á milli ára, en þessi þróun rímir auðvitað við þá staðreynd að atvinnuleysi er enn fremur hátt miðað við umsvifin í atvinnulífinu. Þetta er enn ein vísbendingin um að þessi uppsveifla hafi önnur áhrif á vinnumarkaði en þær uppsveiflur sem við höfum áður upplifað. Hlutfall erlends vinnuafls er mjög hátt og líklegt að launaskrið á almennum markaði verði helst ef flöskuhálsar myndast í einstökum atvinnugreinum," segir greiningardeild Landsbankans.