BURÐARÁS hefur keypt 12,3% hlut í sænska upplýsingatæknifyrirtækinu Scribona en kaupverð hlutarins nam um 900 milljónum króna eða 96 milljónum sænskra króna. Eftir þessi kaup á Burðarás 14,9% hlut í Scribona.

BURÐARÁS hefur keypt 12,3% hlut í sænska upplýsingatæknifyrirtækinu Scribona en kaupverð hlutarins nam um 900 milljónum króna eða 96 milljónum sænskra króna. Eftir þessi kaup á Burðarás 14,9% hlut í Scribona. Samkvæmt útreikningum Landsbankans keypti Burðarás hlutinn á genginu 15,2.

Scribona er alhliða upplýsingatæknifyrirtæki en það selur bæði tölvubúnað og hugbúnað.

Mikil velta, lítill hagnaður

Velta Scribona er mjög mikil samanborið við veltu upplýsingatæknifyrirtækja hér á landi enda er félagið að keppa á mun stærri markaði.

Veltan nam 106 milljörðum króna árið 2003 og á fyrstu níu mánuðum síðasta árs nam veltan 74 millörðum króna. Þrátt fyrir mikla veltu hefur hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) verið mjög lítill. EBITDA hagnaður 2003 nam 845 milljónum króna eða sem nemur 0,8% af tekjum. Afkoma félagsins hefur því verið slök á undanförnum árum en hagnaður á fyrstu níu mánuðum síðasta árs nam 117 milljónum króna og allt árið 2003 var hagnaðurinn 9 milljónir króna. Það má þó búast við að afkoma Scribona batni á næstu árum en ráðist hefur verið í hagræðingaraðgerðir sem áætlað er að skili félaginu 225 milljónum króna á ári, að því er fram kemur í Vegvísi Landsbankans.