"ÁRIÐ 2004 var okkur gott ár," segir Samúel Hreinsson, framkvæmdastjóri Íseyjar, sem rekur fiskmarkaðinn í Bremerhaven í Þýskalandi.

"ÁRIÐ 2004 var okkur gott ár," segir Samúel Hreinsson, framkvæmdastjóri Íseyjar, sem rekur fiskmarkaðinn í Bremerhaven í Þýskalandi. Hann segir að um 12 þúsund tonn hafi selst á árinu 2004 og fyrir það hafi fengist um 17 milljónir evra sem nemur tæpum 1,4 milljarði kr. Sé miðað við árið 2003 hafi magnið aukist um 500 tonn og verðmætaaukning um milljón evrur.

Þegar litið er til magns og veltu var árið 2004 það þriðja besta í sögu fyrirtækisins að sögn Samúels. Það hafi helgast af því að árið á undan hafi verið mikil hitabylgja sem hafi haft áhrif á fiskverð og þar með á veltuna. Árið 2004 hafi hinsvegar verið venjulegra og án mikilla veðursveiflna. Eftirspurn hafi verið jafnari og þ.a.l. minni verðsveiflur sem og það hafi einna helst einkennt árið 2004.

Hann segist vera mjög sáttur með að hafa náð að selja 12 þúsund tonn. "Um 85% af því sem við seljum er karfi og eins og allir vita hafa veiðarnar á honum dregist saman. Við erum faktískt að halda vel okkar hluta, þ.e. magninu," segir Samúel.

Spurður um árið í ár segir Samúel árið hafa farið vel af stað þrátt fyrir að aðeins hafi dregið úr eftirspurn í kjölfar hamfaranna í Suðaustur-Asíu. Hann segir það vera ljóst að veðrið spili stórt hlutverk í hvernig þróunin komi til með að verða. Hann bendir þó á að í tengslum við hamfarirnar í Suðaustur-Asíu annan dag jóla hafi bæði eftirspurn og verð dottið niður. Það hafi varað í nokkra daga en hafi svo tekið góðan kipp um miðjan mánuðinn. "Maður heyrði þá skýringu að veitingastaðirnir væru ekki í jafngóðum gír og oft áður. Fólki hafi ekki þótt rétt að eyða í sjálft sig," segir Samúel og bætir því við að fiskur sé dýr vara á matsölustöðum og þar að auki hafi allir fjölmiðlar í Þýskalandi verið uppfullir af fréttum af flóðasvæðunum í Asíu og það hafi haft áhrif á eftirspurnina. Nú hafi þetta hinsvegar gengið yfir og það væri merkjanlegt bæði á verði og eftirspurn.

"Magni á Brekanum var að selja mjög vel. Hann var að selja 128 tonn á 428 þúsund evrur," segir Samúel og bætir því við að það geri meðalverð upp á 277 krónur sem sé mjög hátt verð á karfa eða tvöfalt miðað við meðalverð.