NÝSKÖPUN 2005, samkeppni um gerð viðskiptaáætlana, er að hefjast. Keppnin er sú fimmta í röðinni en sú fyrsta var haldin árið 1999. Skiladagur í keppninni er 1. september 2005. Samkeppnin er að mestu með hefðbundnu sniði.

NÝSKÖPUN 2005, samkeppni um gerð viðskiptaáætlana, er að hefjast. Keppnin er sú fimmta í röðinni en sú fyrsta var haldin árið 1999. Skiladagur í keppninni er 1. september 2005. Samkeppnin er að mestu með hefðbundnu sniði. Leitað er að athyglisverðum viðskiptaáætlunum frumkvöðla á ýmsum sviðum. Þó er hún frábrugðin að því leyti að þátttakendur skrá sig ekki fyrirfram til keppni að þessu sinni eins og verið hefur.

Þátttakendur í Nýsköpun 2005 geta sótt öll gögn sem þörf er á ókeypis á Netinu, á slóðinni www.nyskopun.is. Þar er að finna leiðbeiningar þar sem rakið er hvernig heppilegt er að standa að gerð viðskiptaáætlunar, hvaða upplýsingar verða að koma fram í slíkri áætlun og reiknilíkan til aðstoðar við útreikninga.

Í febrúar hefjast námskeið á vegum Frumkvöðlafræðslunnar, með þátttöku sérfræðinga frá Íslandsbanka, á nokkrum stöðum á landinu. Fyrir liggur að haldin verða námskeið á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri, Ísafirði og Reyðarfirði. Þá er í athugun að halda námskeið á Selfossi, í Keflavík, á Húsavík og hugsanlega fleiri stöðum. Miðað er við að hvert námskeið sé ein kvöldstund.

Frumkvöðlafræðslan sér um undirbúning og framkvæmd Nýsköpunar 2005. Fjárhagslegir bakhjarlar eru: Íslandsbanki, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og Morgunblaðið. Auk þess eru Háskólinn í Reykjavík og Iðntæknistofnun stuðningsaðilar en Iðntæknistofnun hefur ekki áður komið að keppninni.

Sigurvegari í Nýsköpun 2005 fær peningaverðlaun að fjárhæð ein milljón króna. Sá sem lendir í öðru sæti fær 500 þúsund en auk þess eru veitt fimm þriðju verðlaun að fjárhæð 100 þúsund hver. Þessu til viðbótar verður höfundum valinna verkefna boðið upp á tæknilega aðstoð hjá Iðntæknistofnun.

G. Ágúst Pétursson segir að í Nýsköpun 2005 verði áhersla lögð á að reyna að ná til fyrirtækja sem eru í nýsköpun til að fá þau til þátttöku. "Auk þess er að sjálfsögðu mikilvægt að hinn hefðbundni markhópur keppninnar, einstaklingarnir sem ganga um með hugmyndir í kollinum, verði með."