Kristján Aðalsteinsson
Kristján Aðalsteinsson
SÆPLAST hf. á Dalvík og dönsku fyrirtækin Neptun Plast A/S og Atlantic Trawl Floats A/S hafa ákveðið að sameina framleiðslu sína á trollkúlum í einu fyrirtæki Atlantic Floats ehf.

SÆPLAST hf. á Dalvík og dönsku fyrirtækin Neptun Plast A/S og Atlantic Trawl Floats A/S hafa ákveðið að sameina framleiðslu sína á trollkúlum í einu fyrirtæki Atlantic Floats ehf. Nýja fyrirtækið mun taka yfir alla framleiðslu og sölu á trollkúlum frá þessum þremur fyrirtækjum. Hið nýja fyrirtæki mun jafnframt taka yfir framleiðslurétt og tækjabúnað fyrirtækjanna þriggja.

Hluthafar í Atlantic Floats ehf., sem hefur lögheimili á Íslandi, eru ofangreind fyrirtæki og eiga þau öll jafnan hlut. Ástæður þessarar sameiningar má rekja til mikillar hækkunar á hráefnismörkuðum á síðasta ári og óviðunandi afkomu í framleiðslu trollkúla hjá öllum fyrirtækjunum. Samhliða þessari sameiningu hefur verið ákveðið að leggja niður framleiðslueiningu Atlantic Trawl Floats A/S í Danmörku og mun framleiðsla á trollkúlum hjá hinu nýja fyrirtæki fara fram í verksmiðjum Sæplasts hf. á Dalvík og Neptun Plasts A/S í Danmörku.

Kristján Aðalsteinsson verður framkvæmdastjóri Atlantic Floats ehf., en hann gegndi áður stöðu framkvæmdastjóra Harbour Grace CS Inc. á Nýfundnalandi og þar áður var hann sölu- og markaðsstjóri Útgerðarfélags Akureyringa hf. og framkvæmdastjóri Sæplasts hf. á Dalvík.