Samkeppni um gerð viðskiptaáætlana, nýsköpunarsamkeppni, var fyrst haldin hér á landi árið 1999. Fimmta samkeppnin, Nýsköpun 2005, er að hefjast. G. Ágúst Pétursson hefur yfirumsjón með henni nú eins og endranær. Hann hefur einnig haft umsjón með þeim námskeiðum sem haldin hafa verið í tengslum við keppnina. Grétar Júníus Guðmundsson ræddi við hann um árangurinn og hvað er framundan í þessum efnum.

Samkeppni um gerð viðskiptaáætlana og námskeið í tengslum við hana hefur verið ein af uppistöðunum í þeirri frumkvöðlafræðslu sem í boði hefur verið hér á landi á umliðnum árum. Nýsköpun 2005 er að fara af stað og er undirbúningur hennar og framkvæmd á vegum sjálfseignarstofnunarinnar Frumkvöðlafræðslunnar ses. G. Ágúst Pétursson er stjórnarformaður stofnunarinnar en hann hefur yfirumsjón með keppninni fyrir hennar hönd.

Auk þess að hafa haft umsjón með þeim keppnum sem haldnar hafa verið hefur Ágúst einnig haft veg og vanda af allri fræðslustarfseminni. Sú starfsemi er komin á nýtt stig. Gefin hefur verið í fyrsta skipti út kennslubók á íslensku í frumkvöðlafræðum og byrjað er að kenna þessa námsgrein í framhaldsskólum.

Bjartsýni mikilvæg

Sjálfseignarstofnunin Frumkvöðlafræðslan var stofnuð í mars á síðasta ári. Stofnaðilar eru: Byggðastofnun, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, Iðntæknistofnun, Íslandsbanki, Framleiðnisjóður landbúnaðarins, Atvinnuþróunarsjóður Austurlands og Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu.

Meginmarkmið Frumkvöðlafræðslunnar er að stuðla að útbreiðslu frumkvöðlafræðslu í skólakerfinu, sérstaklega í grunn- og framhaldsskólum. Ætlunin er að gera þetta með því að vinna að því að námsefni á þessu sviði verði gefið út, með námskeiðahaldi fyrir kennara auk frumkvöðlanámskeiða, tengslamyndun og öðrum verkefnum sem ýta undir nýsköpun og frumkvöðlastarf.

Ágúst segir að markmið Frumkvöðlafræðslunnar séu háleit. Það sé í samræmi við mikilvægi þessa málaflokks. Frumkvöðlar hafi mikla þýðingu fyrir atvinnulífið, þeir skapi ný störf, laði fram bjartsýni og framkvæmdagleði og stuðli að hagvexti. En frumkvöðlafræðin hafi jafnframt áhrif langt útfyrir það. Rannsóknir sýni að það að fara í gegnum það námsefni sem frumkvöðlafræðin byggist á stuðli að mjög bættum námsárangri ungra nemenda og geti jafnframt verið mikilvægur liður í símenntun þeirra sem eldri eru.

Ágúst segir að einn þáttur gleymist oft þegar frumkvöðlafræðsla er annars vegar. Hún laði fram bjartsýni og kalli á jákvætt hugarfar og það eitt og sér sé ómetanlegur ávinningur. Hann vísar í þessu sambandi til skýrslu sem nýlega kom út hjá Byggðarannsóknastofnun, en þar kemur m.a. fram að mikilvægt sé að stuðla að bjartsýni, drifkrafti og jákvæðu viðhorfi þegar horft er til eflingar atvinnulífs.

Örvar áhuga á námi

Að sögn Ágústs er áhugi fyrir því meðal skólayfirvalda að frumkvöðlafræði komist betur inn í nám á framhaldsskólastigi en verið hefur. Hann segir það vera umdeilanlegt hvort heppilegra sé að þessi fræði séu skyldufag eða val. "Ég hallast frekar að því að þetta eigi að vera valfag. Við eigum að kynna frumkvöðlafræði mjög vel fyrir nemendum og sýna þeim fram á ávinninginn sem þeir geta haft af þessu. Frumkvöðlar eru í mörgum tilvikum sérstakir. Það er hægt að laða eiginleika þeirra fram. Sá sem er hins vegar ekki móttækilegur fyrir slíkri hugsun ætti ekki að þurfa að fara í gegnum þá vinnu sem nauðsynleg er í þessu sambandi."

Ágúst segir að rannsóknir sem framkvæmdar hafi verið í Bandaríkjunum sýni fram á, svo að ekki verði um villst, að frumkvöðlafræðsla hafi mjög jákvæð áhrif á hæfni nemenda til náms. "Til að mynda hafa verið gerðar rannsóknir á vegum Harvard-háskólans sem leiða í ljós að námsárangur nemenda, sem eru ekki að blómstra í námi, breytist í mörgum tilvikum með afgerandi hætti eftir að þeir hafa hafið nám í frumkvöðlafræðum. Svo virðist reyndar sem þessi fræðigrein höfði oft til nemenda sem finna sig ekki í hefðbundnu námi og jafnvel til nemenda sem hafa eða eru við það að detta úr námi. Ástæðan er rakin til þess að með því að hefja nám í frumkvöðlafræðum nái margir nemendur að setja sér ákveðin markmið. Slík markmið eru talin vera kveikjan að því að þeir nái sér á strik."

Segir Ágúst að vegna þessa séu frumkvöðlafræði notuð í ýmsum skólum, sérstaklega í Bandaríkjunum, einmitt til að ná nemendum aftur inn í námið, þótt það sé ekki aðalmarkmið fræðanna.

"Í rannsóknum Harvard-háskólans var m.a. leitast við að kanna áhuga tveggja hópa á framhaldsnámi að loknu námi í menntaskóla. Annar hópurinn var nemendur sem völdu frumkvöðlafræði en í hinum hópnum voru aðrir. Áður en námið í frumkvöðlafræðunum hófst svöruðu mun fleiri í hinum hópnum að þeir hygðust stefna á framhaldsnám. Þeir sem völdu frumkvöðlafræði höfðu hins vegar lítinn áhuga á framhaldsnámi á þeim tímapunkti. Eftir að hafa kynnst frumkvöðlafræðinni snerist þetta hins vegar við. Þessi hluti nemendanna hafði sett sér mun skýrari markmið en áður og fleiri þeirra ætluðu í framhaldsnám að menntaskólanámi loknu en þeir sem voru í viðmiðunarhópnum.

Í Bandaríkjunum hefur einnig borið nokkuð á því að kennarar eru farnir að tengja frumkvöðlafræði við aðrar námsgreinar, s.s. stærðfræði, tölvufræði, tungumál o.fl., í þeim tilgangi að nemendurnir sjái betur tilganginn með náminu. Gagnsemi þessarar námsgreinar er því mikil."

Ágúst segir að frumkvöðlafræðsla sé að hluta til verklegt nám. Lítið hafi upp á sig að fara í gegnum þau fræði með öðrum hætti. "Í þeirri kennslu sem hafin er á þessu sviði hér á landi er einmitt algengast að nemendurnir vinni með hugmyndir, eins og þeir séu með fyrirtæki, eins konar sýndarfyrirtæki. Þá er reyndar mikilvægt að velja hugmyndir sem er hægt að hrinda í framkvæmd án mikillar fyrirhafnar. Þannig kemur árangurinn best í ljós."

Betri viðskiptaáætlanir

Ágúst segir að árangurinn af nýsköpunarsamkeppninni hingað til sé ótvíræður. Hann segist ekki geta gefið upplýsingar um fjölda fyrirtækja eða starfa sem orðið hafi til í kjölfar þessarar keppni, enda hafi verið ákveðið að vera ekki að fylgjast sérstaklega með þeim sem tekið hafi þátt í þeim tilgangi að ná saman þannig staðtölum. Þó bendi lítil könnun, sem gerð var meðal þátttakenda í samkeppninni árið 2002, til þess að á annað hundrað störf hafi orðið til beint eða óbeint í kjölfar þátttöku í keppninni.

"Hins vegar liggur fyrir að ýmsir þeirra aðila eða stofnana sem þurfa á viðskiptaáætlunum að halda frá viðskiptavinum sínum, eru sammála um það að samkeppnin hafi leitt til þess að áætlanir séu almennt orðnar betri en áður var, og jafnvel verulega betri. Þetta á til að mynda bæði við um Nýsköpunarsjóð og Íslandsbanka, en báðir hafa staðið að þessum keppnum."

Hann segir að þeir séu orðnir margir sem hafa tekið þátt í nýsköpunarsamkeppni og enn fleiri hafi a.m.k. kynnt sér þau gögn sem boðið hefur verið upp á. Það eitt og sér skili oft góðum árangri. Þá hafi á annað þúsund manns farið í gegnum þau námskeið sem boðið hafi verið upp á í tengslum við keppnirnar. Það segi til sín.

"Næsta víst er því að árangurinn af nýsköpunarsamkeppninni er mikill, en hann er hins vegar erfitt að mæla. Líklega má segja að stærsti ávinningurinn af þátttöku í samkeppninni sé sá hvati sem hún er fyrir viðkomandi til að skrifa viðskiptaáætlun og fá mat sérfræðinga á henni. Þátttaka í keppninni festir í sessi hefðir við áætlanagerð og gagnrýna skoðun, sem kemur ávallt að góðum notum."

Ekki leit að rithöfundum

Viðskiptaáætlun þarf að skrifa niður. Ágúst segir að komið hafi í ljós í þeim nýsköpunarsamkeppnum sem haldnar hafi verið, að sumir þátttakendur hafi haft litla þjálfun í að skrifa og það henti þeim illa.

"Nýsköpunarsamkeppni er ekki ljóða- eða frásagnarkeppni og það er ekki verið að leita að rithöfundum. Ef það er vandamál fyrir einhvern frumkvöðulinn að skrifa er alltaf hægt að fá aðstoð við það. Og það er ekki heldur verið að leita að langlokum. Það er allt í lagi að textinn í viðskiptaáætluninni sé stuttur. Aðalatriðið er að svara ákveðnum grundvallarspurningum: Hver er varan eða þjónustan? Hver er reynsla og þekking þátttakandans? Er eftirspurn eftir því sem ætlunin er að bjóða? Þessum og fleiri álíka spurningum þarf að svara skýrt og greinilega í viðskiptaáætlun," segir G. Ágúst Pétursson.

gretar@mbl.is