ÚTGERÐARFÉLAGIÐ Guðbjartur ehf. á Ísafirði fékk nú í janúar afhentan nýjan bát frá bátasmiðjunni Trefjum í Hafnarfirði. Að útgerðinni standa feðgarnir Guðbjartur Ásgeirsson og Ásgeir Guðbjartsson.

ÚTGERÐARFÉLAGIÐ Guðbjartur ehf. á Ísafirði fékk nú í janúar afhentan nýjan bát frá bátasmiðjunni Trefjum í Hafnarfirði. Að útgerðinni standa feðgarnir Guðbjartur Ásgeirsson og Ásgeir Guðbjartsson.

Nýi báturinn hefur hlotið nafnið Guðbjörg ÍS-46 eins og fyrri skip útgerðarinnar. Guðbjörg er hvít en ekki gul eins og oftast áður. Guli liturinn var þó settur á vel valda staði í bátnum til að halda aðeins í gamla tíma! Skipstjóri er Guðbjartur Ásgeirsson.

Báturinn er 15 brúttótonn og er í krókaaflamarkskerfinu. Guðbjartur er af gerðinni Cleopatra 38, þeirri sömu og aflabátarnir Guðmundur og Hrólfur Einarssynir ÍS.

Aðalvél bátsins er af gerðinni Yanmar 6KYM-ETE, 650 hestöfl tengd ZF-gír. Báturinn er ríkulega útbúinn siglingatækjum af gerðinni Furuno frá Brimrúnu. Meðal nýjunga er straumhraðamælir, sem ekki hefur áður verið settur í báta í þessum stærðarflokki. Báturinn er einnig útbúinn með vökvadrifinni hliðarskrúfu sem tengd er sjálfstýringu hans. Báturinn er útbúinn til línuveiða. Búnaður til línuveiða er frá Beiti. Átakskerfi á línuspil er frá Elcon. Vinnudekk bátsins er yfirbyggt að hluta.

Öryggisbúnaður bátsins kemur frá Viking-björgunarbúnaði.

Rými er fyrir ellefu 660 lítra kör í lest. Í bátnum er innangeng upphituð stakkageymsla. Borðsalur er í brúnni auk stóla fyrir skipstjóra og háseta. Svefnpláss er fyrir fjóra í lúkar auk eldunaraðstöðu með eldavél, örbylgjuofni, ísskáp og heitu og köldu vatni.