ÍSLANDSLYFTUR ehf. hafa keypt lyftudeild Bræðranna Ormsson og taka með því yfir öll lyftuumboð sem Bræðurnir Ormsson höfðu, auk þess að sjá um allan innflutning á varahlutum og öðrum lyftubúnaði frá þeim.

ÍSLANDSLYFTUR ehf. hafa keypt lyftudeild Bræðranna Ormsson og taka með því yfir öll lyftuumboð sem Bræðurnir Ormsson höfðu, auk þess að sjá um allan innflutning á varahlutum og öðrum lyftubúnaði frá þeim. Íslandslyftur hafa einnig tekið við öllum þeim lyftum sem eru í þjónustu hjá Bræðrunum Ormsson. Í tilkynningu frá Íslandslyftum segir að öllum starfsmönnum lyftudeildarinnar hafi verið boðið starf hjá Íslandslyftum.

Aukin umsvif á verslunarsviði

Gunnar Örn Kristjánsson, einn eigenda Bræðranna Ormsson segir að ástæðu sölunnar megi rekja til aukinna umsvifa fyrirtækisins á verslunarsviði með opnun verslunar í Smáralind. "Það skiptir okkur miklu máli að selja traustu fyrirtæki lyftudeildina, með tilliti til hagsmuna viðskiptavina sem eru með lyftuþjónustu við okkur, sem og starfsmanna," segir Gunnar Örn en Bræðurnir Ormsson hafa flutt inn lyftur síðan 1931, eða í 74 ár.

Helgi Skúli Helgason og Ingólfur Kristjánsson, eigendur Íslandslyftna, segja kaupin vera tækifæri til vaxtar. Fyrirtækið verði með þessu eitt af stærstu lyftufyrirtækjum landsins og alfarið í eigu Íslendinga.

Íslandslyftur voru stofnaðar árið 2000 og býður alla almenna lyftuþjónustu, þ.e.a.s. sölu á öllum útfærslum nýrra lyftna, endurnýjun á eldri lyftum auk eftirlits- og viðgerðaþjónustu.

Meðal verkefna fyrirtækisins á síðustu árum er uppsetning lyftna í Nordica Hotel, Hótel 101, Hótel Plaza, Grand Hótel Aðalstræti 16, Barnaspítala Hringsins, Vöruhóteli Eimskipa og hjá Marel.