ÞAU fyrirtæki sem mynda Úrvalsvísitölu Kauphallar Íslands, að Medcare Flögu undanskildu, högnuðust um 69,4 milljarða króna á árinu 2004, ef marka má spá bankanna um afkomu þeirra á árinu.

ÞAU fyrirtæki sem mynda Úrvalsvísitölu Kauphallar Íslands, að Medcare Flögu undanskildu, högnuðust um 69,4 milljarða króna á árinu 2004, ef marka má spá bankanna um afkomu þeirra á árinu. Þar af er bönkunum fjórum, Íslandsbanka, KB banka, Landsbanka Íslands og Straumi Fjárfestingarbanka, spáð 41,6 milljarða króna hagnaði eða sem nemur 60% af heildarhagnaðinum.

Ekki er reiknað með að nokkurt félaganna fjórtán hafi verið rekið með tapi á síðasta ári. Hins vegar spáði engin greiningardeildanna fyrir um afkomu Medcare Flögu, en ef miðað er við afkomu félagsins á fyrstu níu mánuðum ársins (1,2 milljóna dollara tap) þá verður að teljast ólíklegt að félagið muni ná að skila hagnaði á árinu í heild.

Greiningardeildirnar spá KB banka allra mestum hagnaði af félögunum fjórtán, eða tæpum 14 milljörðum króna. Reyndar ber nokkuð í milli í spám greiningardeildanna sem spá fyrir KB banka. Talið er að Íslandsbanki hafi skilað næstmestum hagnaði á árinu, 11 milljörðum króna, og Burðarás hafi hagnast um rúma 10 milljarða.

Actavis með hæst EBITDA

Spár greiningardeildanna um hagnað ársins 2004 eru mjög svipaðar. Mest ber í milli í spánni fyrir Flugleiðir en þar gerir KB banki ráð fyrir að færður sé óinnleystur gengishagnaður af hlutabréfaeign í easyJet. Ef hann er tekinn út nemur spá KB banka fyrir Flugleiði 1.941 milljónum króna.

Meðalspá um hagnað fyrir afskriftir og fjármagnsliði, EBITDA, hljóðar samanlagt upp á 27 milljarða króna fyrir þau átta félaganna sem við á. Þar af er hlutur Actavis röskir 10 milljarðar og hlutur Flugleiða 4 milljarðar. Mest ber í milli í spánni fyrir Og Vodafone þar sem greiningardeild KB banka spáir 5,1 milljarðs EBITDA-hagnaði en hinar greiningardeildirnar spá 1,8-1,9 milljörðum.

Bankarnir tvöfaldast

Samanlagður hagnaður bankanna nemur, sem fyrr segir, 41,6 milljörðum króna samkvæmt meðalspánni en það er ríflega tvöföldun frá árinu 2003 þegar bankarnir skiluðu samanlagt 20,1 milljarðs hagnaði. Án Straums nemur samanlagður hagnaður stærstu bankanna þriggja tæpum 34,7 milljörðum en árið áður, 2003, var samanlagður hagnaður þeirra 16,3 milljarðar. Aukningin nemur, samkvæmt þessu, 113%.

Þess má geta að árið 2002 nam hagnaður bankanna samtals 8,5 milljörðum og var því um nánast tvöföldun hagnaðar að ræða milli 2002 og 2003. Í krónum talið nam sú aukning 7,8 milljörðum. Nái spár greiningardeilda bankanna fram að ganga má gera ráð fyrir að hagnaðaraukning bankanna þriggja á milli 2003 og 2004 í krónum talin hafi numið 18,4 milljörðum króna.

Bankarnir fjórir munu allir birta ársreikninga sína á næstu vikum.

Greiningardeildirnar spá einnig fyrir um afkomu á yfirstandandi ári. Þar ber meira í milli í spánum, eins og gefur að skilja. Að meðaltali er KB banka spáð langmestum hagnaði, eða 16,9 milljörðum króna en það er 21% aukning frá meðalspá ársins 2004 og jafnframt mesta krónuaukningin. Kögun er hins vegar spáð mestri hlutfallslegri aukningu, eða 57%, á milli áranna 2004 og 2005. Reiknað er með mestum hlutfallslegum samdrætti hagnaðar hjá Samherja, eða 72%. Landsbankanum er spáð mestri hagnaðarlækkun 2005 í krónum, eða rúmum 4 milljörðum, en þess ber að gæta að útlit er fyrir að aukning hagnaðar bankans milli 2003 og 2004 verði um 6,7 milljarðar króna.