— Reuters
ALÞJÓÐLEGT efnahafslíf fór mjúkum höndum um flesta fjármálamarkaði á síðasta ári. Hagvöxtur á alþjóðavísu var hinn mesti í 30 ár, þó að hann hafi verið mjög mismikill á milli landa og efnahagssvæða eins og gengur.

ALÞJÓÐLEGT efnahafslíf fór mjúkum höndum um flesta fjármálamarkaði á síðasta ári. Hagvöxtur á alþjóðavísu var hinn mesti í 30 ár, þó að hann hafi verið mjög mismikill á milli landa og efnahagssvæða eins og gengur. Hlutabréfamarkaðir víðast um heim hækkuðu sæmilega og mega fjárfestar vel við una, t.a.m. í ljósi þess að árið 2003 var mjög hagfellt. Algengar viðmiðunarvísitölur í Evrópu, t.d. í Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi, hækkuðu um 5-10% en á Ítalíu og Spáni var blóðhitinn hærri og hækkanir mun meiri. Svipaða sögu er að segja frá Bandaríkjunum og Japan þar sem hækkanir voru í takt við stærri markaði í Evrópu. Eina stóra hagkerfið þar sem fjárfestar sáu rautt var í Kína en þar lækkuðu hlutabréf almennt í verði um 15%. Kemur varla sjóuðum fjárfestum í Asíu á óvart þar sem misjafnlega hefur tekist að koma miklum hagvexti til skila í vasa hluthafa. Árið var þó ekki ár stórfyrirtækjanna eða stórmarkaðanna ef svo má að orði komast. Vísitölur sem mæla breytingar á verði hlutabréfa stórra fyrirtækja hækkuðu yfirleitt mun minna en vísitölur meðalstórra og minni fyrirtækja. Að jafnaði verða flestir fjárfestar af hækkunum af þessu tagi þar sem kastljósið beinist yfirleitt ekki að litlum eða óþekktum fyrirtækjum. Að sama skapi voru litlir hlutabréfamarkaðir í essinu sínu. Í Egyptalandi vöknuðu múmíur til lífsins en helsta hlutabréfavísitalan hækkaði um rúm 100%. Þar á bæ eru bundnar vonir við að stjórnvöld, sem styðjast nú við hagsýni frekar en hindurvitni í efnahagsmálum, haldi áfram á nýtroðinni braut endurbóta og framfara. Á mörgum hlutabréfamörkuðum í Mið-Austurlöndum var einnig heitt í kolunum þó að 100% múrinn væri ekki rofinn.

Meðalmennskan ekki ríkjandi

Þó að helstu viðmiðunarvísitölur á stærri mörkuðum hafi ekki hækkað mikið er ekki hægt að segja að meðalmennskan hafi almennt verið ríkjandi. Eins og áður finnast dæmi um fyrirtæki sem hækka og lækka kröftuglega. Fjárfestirinn "Elli eftir á að hyggja", sem í upphafi hvers árs fjárfestir í þeim félögum sem hækkað hafa mest á gengnu ári, stendur frammi fyrir mörgum tækifærum. Árið var mörgum fyrirtækjum í orkuiðnaði fengsælt. Í Kanada freistar orkufyrirtæki með starfsemi í Afríku sem hækkaði um ríflega 500% og í Bretlandi er fyrirtæki af svipuðum toga með tæplega 200% hækkun. Fyrirtækin eru lítt kunn og af reynslu af dæma gætu þau reynst "Ella" óþekk ef til fjárfestinga kæmi. Einnig gæti írska lyfjafyrirtækið Elan freistað hans enda annað árið í röð sem fyrirtækið hækkar gífurlega í verði. Forsaga málsins er aftur á móti eins og oft hefur verið raunin mikil lækkun, yfir 95% áður en yfir lauk.

Höfuðið í gin lögfræðinga

Fjárfestinum "Valgerði viðsnúningi" sem hefur mestan áhuga á fyrirtækjum sem hafa lækkað bjóðast margir kostir. Gengi ýmissa öflugra lyfjafyrirtækja lækkaði um 20-30% og má sem dæmi nefna Merck, AstraZeneca og Pfizer. Veður virðast hafa skipast svo í lofti að fjárfestar verða að vera undir það búnir að með fjárfestingum í hlutabréfum sumra fyrirtækja í greininni séu þeir um leið að stinga höfðinu í gin lögfræðinga. Ekki óskastaða að sumra mati. Mörg geðþekk fyrirtækjanöfn koma til greina á lista "Valgerðar".

Nokia virðist enn ekki hafa náð vopnum sínum og gengi hlutabréfa í þýsku fólksbílafabrikkunni lækkaði um fjórðung. Öflugasta fyrirtæki í heimi í framleiðslu á vindmyllum, hið danska Vestas Wind Systems, leiddi lækkanir, ef svo má að orði komast, meðal stærstu fyrirtækja á dönskum hlutabréfamarkaði. Gæti verið athugandi fyrir "Valgerði" að kanna þennan kost og sjá hvort kaup séu möguleg. Forsendur eru til að þau geti verið hávaðalítil enda er verulegur hluti eigenda fyrirtækisins með aðra yfirmenn en Margréti Þórhildi.

Einn af þeim sem sáu fyrir tíðindi síðasta árs, ef tíðindi skyldi kalla, var Jim Rogers, fjárfestir og heimshornaflakkari hin síðari ár. Fyrir réttu ári birtist hann í viðskiptatímariti í hópi fimmtíu valinkunnra álitsgjafa. Helsta ráð hans til fjárfesta var að þeir ættu að búast við lækkandi dollar. Í framhjáhlaupi má geta þess að spá hans um lækkandi gengi myntarinnar var með þeim hætti að lækkuninni sem varð í fyrra virðist mega jafna við að einungis sé fyrsti spretturinn búinn í 4x400 metra hlaupi. Árangur annarra álitsgjafa er yfirleitt með ágætum.

Vonir standa til að hagvöxtur á alþjóðavísu verði ágætur í ár þar sem Kína og Bandaríkin draga væntanlega vagninn. Í Japan hljóta menn að binda vonir við að ekki sé um enn eitt þjófstartið að ræða en hagvöxtur í fyrra var góður þó að búast megi við að hann verði minni í ár. Í Þýskalandi hefur hingað til ekki verið sérstakur skortur á yfirlýsingum ráðamanna um að úr fari að rætast. Uppskeran hefur til þessa verið heldur rýr. Sumir telja þó að loks megi vænta betri tíma í ljósi fyrirhugaðra endurbóta. Dugmestu hagvaxtarhlaupararnir eru þó ekki endilega þeir stærstu og fyrirferðarmestu. Listinn inniheldur m.a. Indland, Íran, Ísrael og Írak.

loftur@ru.is