[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
"ÞAÐ hefur borið við að menn virðast halda að fiskveiðistjórnunarkerfi búi til fisk eða að slíkt kerfi geti eytt fiski. Þetta kemur stundum fram þegar rætt er um fiskveiðistjórnun við Færeyjar, en svo er auðvitað ekki.

"ÞAÐ hefur borið við að menn virðast halda að fiskveiðistjórnunarkerfi búi til fisk eða að slíkt kerfi geti eytt fiski. Þetta kemur stundum fram þegar rætt er um fiskveiðistjórnun við Færeyjar, en svo er auðvitað ekki. Fiskistofnar þar lúta ekkert öðrum náttúrulegum lögmálum en fiskistofnar annars staðar. Stofnmat þar lýtur heldur ekki öðrum lögmálum en annars staðar," sagði Einar Hjörleifsson, fiskifræðingur, í erindi sem hann flutti í málstofu Hafrannsóknastofnunar í síðustu viku.

Horfa á afla eftir árgöngum

Einar fjallaði þar um stofnstærðarmat og fiskveiðistjórnun við Færeyjar. Hann sagði það mikilvægt að horft væri á afla eftir árgöngum, fremur en heildarafla ár hvert. Hann fór yfir stöðuna í ýsu og þorski og hvernig veiðum við Færeyjar væri stjórnað. Hann sagði að fram til 1994 hefði verið 12 mílna lögsaga við eyjarnar og aðgangur togskipa innan lögsögunnar hefði verið takmarkaður. Auk þess hefðu verið svæðisbundnar lokanir á hrygningartímanum. Síðan hefði verið prófað kvótakerfi í tvö ár í framhaldi þess að aflabrögð hefur verið mjög léleg í upphafi tíunda áratugarins. Síðan þá hefði veiðunum verið stjórnað eftir dagakerfi með svæðalokunum og takmörkuðum aðgangi togskipa og stórra línuskipa.

Einar sýndi heildarafla við Færeyjar sem fór vaxandi síðustu öldina en vakti jafnframt athygli á því að að frátöldum tveimur lægðum, í seinni heimsstyrjöldinni og í upphafi tíunda áratugarins, hefði þorskafli verið mjög stöðugur og milli 20.000 og 40.000 tonn. Það væri nokkuð frábrugðið því sem væri með aðra þorskstofna í Norður-Atlantshafi.

Aflinn mjög svipaður

"Menn hafa verið að tengja fiskveiðistjórnun og aflabrögð við Færeyjar sagt að þegar kvótakerfið hafi verið í Færeyjum hafi þorskaflinn verið lægstur, hafi síðan aukizt gríðarlega þegar sóknardagakerfið var tekið upp. Í raun og veru hefur aflinn síðustu árin verið svipaður því sem verið hefur í gegnum alla tíðina. Fyrir alla fiskveiðistjórnun aðra en 12 mílna lögsögu. Ég vil því biðja menn sem halda því fram að stjórnkerfi búi til afla, að þeir horfi lengra aftur í tímann, ekki bara á síðustu 10 árin," sagði Einar.

Hann fjallaði síðan um ýsuna við Færeyjar. Hann sagði upplýsingar liggja fyrir frá síðustu 10 árum úr vorröllum færeyskra fiskifræðinga. Á því tímabili hefðu tveir mjög sterkir árgangar komið inn í veiðina og borið hana uppi að mestu leyti í mörg ár, en á milli þeirra hefði komið einn mjög lélegur, sem aðeins veiddust 2.000 tonn úr. Stærð árganganna réðist að mestu áður en þeir kæmu inn í veiðina, þeir haldist svipaðir í gegnum lífsferlið og að ekkert benti til þess að stærri árgangar féllu hraðar eða týndu tölunni hraðar en minni árgangar.

Einar benti á að lægðin í aflanum á tíunda áratugnum hefði verið komin til fyrir ár kvótakerfisins og aukningin eftir að sóknardagakerfið hefði verið sett á ætti rætur að rekja til stóra árgangsins 1993, það er fyrir kvótakerfið. Hann hefði verið uppistaðan í aflaaukningunni á síðari hluta tíunda áratugarins og samtals hefði aflinn úr honum orðið 52.000 tonn. Tíu ára gamall hefði hann enn verið að skila 2.300 tonna afla. Árgangurinn frá 1999 væri nú búinn að skila 29.000 tonnum og hefði hann verið í veiðinni sem fimm ára fiskur á síðasta ári, en of snemmt væri að loka því bókhaldi.

Lélegur árgangur 2001

Einar fór á svipaðan hátt yfir þorskinn, en gögn úr vorröllum eru til frá 1994. Hann sagði að árgangastyrkur væri breytilegur á þessu tímabili. Árgangarnir frá 1992 og 1993 hefðu verið sæmilega góðir í rallinu og verið uppistaðan í aflaaukningunni eftir lægðina miklu 1994. Síðan hefðu komið tveir mjög slakir árgangar og svo aftur tveir sterkir árgangar 1998 og 1999 og svo hefði komið lélegur áragangur 2001 og það væri það sem horft væri á þegar verið væri að spá í framtíðina. Einar sagði að sókn í ýsuna væri mjög nálægt þeim mörkum sem Alþjóða hafrannsóknaráðið teldi hæfilegt, en hins vegar væri sóknin í þorskinn töluvert meiri og mæling úr haustralli 2003 og vorralli 2004 hefði sýnt mjög lítinn stofn. Því væri Færeyingum ráðlagt að draga úr sókn í þorskinn um allt að helming, en svo hefur ekki verið gert.