[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jæja, nú er það blessuð ýsan. Íslendingar hafa haldið svo lengi upp á hana að stundum mætti láta sér detta í hug að kalla þjóðina Ýslendinga.

Jæja, nú er það blessuð ýsan. Íslendingar hafa haldið svo lengi upp á hana að stundum mætti láta sér detta í hug að kalla þjóðina Ýslendinga. Ýsan hefur verið fylgifiskur okkar áratugum saman, enda vildu Íslendingar lengi vel aðeins borða fallega fiska, þar ber ýsan af. En að öllu gamni slepptu þá er ýsan einhver bezti matfiskur sem völ er á og eru Bretar og íbúar í norðausturríkjum Bandaríkjanna sérlega sólgnir í hana. Ýsuna má elda á alla mögulega vegu og líklega er hún sjaldan þverskorin með roði, beinum og hamsatólg á borðum landsmanna lengur. Sveinn Kjartansson, matreiðslumeistari Fylgifiska, býður lesendum Versins einfalda en svolítið framandi uppskrift sem ætluð er fjórum.

Uppskriftin

800 g ýsuflök

200 g brauðraspur

100 g kókos

100 g hvít sesamfræ

150 ml hvítlauksolía

pipar og salt

sesamolía til steikingar

2 laukar

2 tómatar

Aðferðin

Skerið ýsuna niður í hæfilega bita. Blandið saman brauðraspi, sesamfræjum og kókos í skál.

Veltið ýsunni upp úr olíunni og saltið og piprið. Veltið henni þá upp úr raspinum og steikið á heitri pönnu í tvær mínútur á hvorri hlið.

Saxið laukinn og tómatinn og steikið upp úr sesamolíu á heitri pönnunni í nokkrar mínútur og berið fram með fiskinum.