ALLAR átta NOREX-kauphallirnar munu nota sama staðal við atvinnugreinaflokkun skráðra félaga. Þetta er svonefndur GICS-staðall frá Morgan Stanley Capital International (MSCI) og Standars & Poor's (S&P).

ALLAR átta NOREX-kauphallirnar munu nota sama staðal við atvinnugreinaflokkun skráðra félaga. Þetta er svonefndur GICS-staðall frá Morgan Stanley Capital International (MSCI) og Standars & Poor's (S&P). Í tilkynningu frá Kauphöll Íslands segir að þetta sé einn liður í samtvinnun norræns og baltnesks verðbréfamarkaðar.

Þær kauphallir sem standa að NOREX eru Kauphöll Íslands, kauphallirnar í Stokkhólmi, Ósló, Kaupmannahöfn og Helsinki, og í baltnesku löndunum í Tallin, Riga og Vilnius.

Kauphallirnar í Stokkhólmi, Ósló og Kaupmannahöfn hafa notað GICS-staðalinn frá árinu 2001. Fram kemur í tilkynningunni að Kauphöll Íslands ásamt kauphöllunum í Helsinki, Tallinn, Riga og Vilnius, muni taka upp þessa flokkun á öðrum fjórðungi þessa árs.

Auðveldar samanburð

Haft er eftir Jukka Ruuska, stjórnarformanni NOREX og forstjóra OMX-kauphallarinnar í Stokkhólmi, að með tilkomu viðurkennds alþjóðlegs flokkunarstaðals á öllum NOREX-mörkuðunum hafi enn eitt skrefið verið stigið í átt að samræmdum norrænum og baltneskum markaði. "Með GICS-flokkuninni viljum við auka bæði áhuga og þekkingu á bréfum skráðum á NOREX-mörkuðunum. Auk þess munu fjárfestar njóta aukins gagnsæis," segir hann.

Þá er haft eftir Baer Pettit, framkvæmdastjóra MSCI, að samræmdur flokkunarstaðall muni gera fjárfestum kleift að gera samræmdan samanburð á hlutabréfum á NOREX-mörkuðunum eftir atvinnugreinum.