Umræðan um sjávarútveginn hefur verið að breytast. Neikvæði tóninn heyrist nú minna en áður, kannski af því að töluvert er í næstu Alþingiskosningar. Lengst af hefur umræðan nær eingöngu snúizt um stjórnun fiskveiða og ekki alltaf á málefnalegum grunni.

Umræðan um sjávarútveginn hefur verið að breytast. Neikvæði tóninn heyrist nú minna en áður, kannski af því að töluvert er í næstu Alþingiskosningar. Lengst af hefur umræðan nær eingöngu snúizt um stjórnun fiskveiða og ekki alltaf á málefnalegum grunni. Sú bábilja hefur verið lífseig að kenna megi kvótakerfinu um það að þorskstofninn hefur ekki náð þeirri stærð sem var þegar flest lék í lyndi.

Eins og áður sagði er umræðan í sjávarútveginum að breytast. Það er miklu fleira að gerast en veiðin sjálf. Þetta má sjá þegar gluggað er í útdrætti úr þeim mörgu ræðum, sem Árni M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra, flutti á síðasta hausti. Þar ber margt á góma um stöðu sjávarútvegsins, starfsumhverfi og samkeppnishæfni hans, öryggi útflutningstekna, útrás íslenzkra fyrirtækja, afnám dagakerfisins, rannsóknir og þróun í sjávarútvegi, áform um matvælastofnun og umræður um siðareglur sjávarútvegsins. Áherzlurnar eru meðal annars til marks um markvisst starf til að breyta sjávarútvegsráðuneytinu úr því að vera fyrst og fremst veiðiráðuneyti í að verða ráðuneyti sjávarútvegsmála í víðum skilningi.

Ráðherrann ræddi stöðu sjávarútvegs í íslenzku samfélagi á Hornafirði í haust, undir lok ársins ræddi hann um viðskiptahæfni Íslands og sjávarútvegsins, í ræðu fyrir ræðismenn í byrjun desember kom fram að sjávarútvegurinn hefði verið í fararbroddi útrásar íslenzkra fyrirtækja. Þróun hlutabréfamarkaðsins var efni ræðu ráðherra í lok nóvember og á haustmánuðum sagði ráðherrann frá endurskoðun laga um fiskmarkaði, nefnd um endurskoðun á reglum um vigtun sjávarafla, nefnd sem á að skoða starfsumhverfi sjávarútvegsins og nefnd sem á að skoða forsendur fyrir friðun viðkvæmra hafsvæða. Þá kynnti hann verkefni sem snýr að umhverfisáhrifum fiskveiða, hann ræddi um niðurstöðu starfshóps um matvælarannsóknir og stofnun Matvælarannsóknastofnunar Íslands. Hann ræddi einnig öryggi útflutningstekna, kynnti mælingar sem sýna að mengun í íslenzku sjávarfangi er langt undir viðmiðunarmörkum. Hann nefndi sterka stöðu erlendra stórfyrirtækja til að setja fram ýmsar kröfur, hann fór yfir umræðuna um kvótakerfið, ræddi oft um AVS sjóðinn, sem stendur fyrir aukið verðmæti sjávarafurða. Eldismál voru líka til umræðu, sóknarkerfi smábáta, siðareglur fyrir sjávarútveginn og viðskipti Rússa og Íslendinga.

Það er ljóst að sjávarútvegsráðherra hefur komið víða við í ræðum sínum og þannig breikkað umræðuna um sjávarútveginn, sem snýst ekki bara um veiðar. Sjávarútvegurinn er matvælaframleiðandi og það þarf að taka miklu meira mið af því en gert hefur verið til þessa. Það þarf að vega og meta hagsmuni sjávarútvegsins í ljósi þess. Það þarf ekki bara að veiða fiskinn, það þarf að selja hann líka.

hjgi@mbl.is