Vinsæll veislustjóri Helgi Jóhannesson, lögmaður og framkvæmdastjóri Lex-Nestor ehf.
Vinsæll veislustjóri Helgi Jóhannesson, lögmaður og framkvæmdastjóri Lex-Nestor ehf. — Morgunblaðið/Þorkell
Helgi Jóhannesson veitir forstöðu einni stærstu lögmannsstofu landsins, Lex-Nestor ehf. Helgi Mar Árnason dregur upp svipmynd af nafna sínum.

Ein stærsta lögmannsstofa landsins varð til á dögunum þegar Lex hf. lögmannsstofa og Nestor lögmenn ehf. sameinuðust undir nafninu Lex-Nestor ehf. Faglegur framkvæmdastjóri Lex-Nestor er Helgi Jóhannesson hrl.

Helgi er er fæddur árið 1963. Hann lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands árið 1983, lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1988 og meistaranámi í lögum frá háskólanum í Miami í Bandaríkjunum árið 1990. Hann hefur stundað lögmennsku frá námslokum, fyrst sem starfsmaður hjá Jónasi A. Aðalsteinssyni hrl. og síðar sem sjálfstæður lögmaður. Hann hefur undanfarin ár verið einn eiganda að Lex ehf. lögmannsstofu.

"Lögmennskan er mjög heillandi starf, að því leyti að hún er fjölbreytt og ég hitti margt og ólíkt fólk," segir Helgi. "Mitt persónulega markmið í lögmennsku er að sinna þeim málum sem mér eru falin og ég tek að mér af eins mikilli kostgæfni og mér er unnt. Ég tek aldrei að mér mál nema ég sé viss um að geta sinnt þeim af fullum krafti."

Drífandi og sanngjarn

Samstarfsmenn og vinir Helga bera honum vel söguna. Sem lögmaður er hann sagður vandvirkur og faglegur, og setja trúnað við umbjóðendur og skjólstæðinga ofar öllu. "Hans stærsti kostur sem lögmaður er hversu fljótur hann er að greina vandamálin og finna lausn á þeim. Þar nýtist honum vel sú mikla reynsla sem hann býr yfir," segir náinn samstarfsmaður. Helgi er sömuleiðis sagður hafa ríka réttlætiskennd. "Í hans augum eru allir jafnir og honum er annt um að skjólstæðingar sínir fái réttláta og sanngjarna meðferð. Hann gætir þó hlutleysis í hvívetna og dregur aldrei taum sinna skjólstæðinga," segir vinnufélagi. Helgi er sagður skemmtilegur og drífandi vinnufélagi og sanngjarn yfirmaður.

Alltaf í símanum

Bæði vinir og vinnufélagar segja Helga traustan mann og allir minnast þeir á gamansemi Helga og hnyttni. "Það gustar af Helga hvar sem hann kemur. Hann þykir einstaklega orðheppinn og þess vegna hefur hann verið vinsæll veislustjóri í gegnum tíðina." segir vinur. "Hann er líka meiri tilfinningavera en hann vill vera láta," segir annar. "Sumir halda að hann sé gríðarleg karlremba en það er hann svo sannarlega ekki. Þó hann gefi sig út fyrir að vera hress og gamansamur er hann miklu alvörugefnari en hann vill vera láta.

Þó hann eigi auðvelt með að taka gríni, tekur hann alla alvöru gagnrýni mjög alvarlega og menn skyldu fara varlega í að gera grín að honum. Stríðnin má að minnsta kosti ekki keyra úr hófi fram."

Einn viðmælandi Morgunblaðsins sagði Helga jafnan ganga hratt og vel til verks og stundum virtist sem hann væri hreinlega ofvirkur án þess þó að færast of mikið í fang. "Helgi þarf að halda uppi gríðarlega flóknu netverki samstarfsmanna og vina. Þess vegna er hann alltaf í símanum."

Helgi hefur jafnan gefið sig mikið að félagsmálum. Það kvað þannig fyrst að honum í félagsstörfum í Verslunarskólanum og hann var á kafi í stúdentapólitíkinni í háskólanum. Hann tekur næsta sumar við forsæti í Rotaryklúbbi Reykjavíkur og Austurbæjar, hann hefur verið formaður Lögfræðingafélagsins og í stjórn Lögmannafélagsins.

"Það hefur þó dregið mjög úr hvers konar félagsmálavafstri hjá honum, því hann hefur í seinni tíð varið meiri tíma með fjölskyldunni," segir náinn vinur og bætir við: "Hann getur verið uppátækjasamur. Hann hefur til dæmis aldrei verið mikið fyrir þessar hefðbundnu hópíþróttir en er reyndar ágætur skíðamaður. Nýjasta uppátækið er mótorhjóladella sem hann hefur meðal annars keppt í á erlendum vettvangi."

Féll fyrir torfærunni

Helgi er kvæntur Önnu Maríu Sigurðardóttur, viðskiptafræðingi. Þau eiga þrjú börn; Önnu Luciu 5 ára, Jóhönnu Lilju 2 ára og Jóhannes Lárus Lynge sem er fæddur í október á síðasta ári.

"Eðli málsins samkvæmt hafa áhugamálin eilítið setið á hakanum síðustu árin," segir Helgi. "En þegar ég get hef ég gaman af akstri mótorhjóla, einkum svokallaðra enduro-mótorhjóla. Ég fékk mótorhjólabakteríuna fyrir rúmum áratug en kynntist torfæruhjólunum fyrir nokkrum árum og féll algerlega fyrir þeim. Það er besta og skemmtilegasta áhugamál sem ég hef komist í kynni við. Því fylgir mikil líkamleg áreynsla og heilmikið adrenalínstreymi, auk ferðalaga um landið. Einnig reyni ég að komast á skíði og verja tíma í sumarbústaðnum okkar í Fljótshlíð," segir Helgi Jóhannesson.

hema@mbl.is