Ljós Ólafs Elíassonar ljá forsalnum líf, birtu og sterkan karakter. Á miðmyndinni sést að brýrnar inn í salinn flútta ekki hver við aðra. Salurinn sjálfur, kuðungurinn, er eins og hljóðfæri, byggður úr hlyni eins og fiðla. Viðurinn er sveigður og lakkaður
Ljós Ólafs Elíassonar ljá forsalnum líf, birtu og sterkan karakter. Á miðmyndinni sést að brýrnar inn í salinn flútta ekki hver við aðra. Salurinn sjálfur, kuðungurinn, er eins og hljóðfæri, byggður úr hlyni eins og fiðla. Viðurinn er sveigður og lakkaður
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tveimur dögum eftir vígslu nýja óperuhússins í Kaupmannahöfn átti Bergþóra Jónsdóttir þess kost að skoða húsið í fylgd arkitektsins Peers Teglgaards Jeppesens sem er einn þeirra arkitekta á stofu Hennings Larsens sem unnu hvað mest að hönnun þess.

Henning Larsen er einn þekktasti arkitekt Dana, og höfundur Óperuhússins sem vígt var þar í borg á laugardagskvöld. Larsen sem er kominn á níræðisaldur stóð þó fjarri því einn í stórræðunum, því á bak við hann stendur arkitektastofa hans sem hefur á að skipa tæplega 40 arkitektum auk annars starfsfólks - alls milli 60 og 70 manns. Afrekaskrá Hennings Larsens og starfsmanna hans er orðin löng, allt frá því stofan var stofnuð, árið 1959. Hann var þá þegar orðinn kunnur arkitekt og hafði meðal annars unnið á stofu Arne Jakobsens snemma á sjötta áratug aldarinnar, að loknu námi í Konunglegu akademíunni í Kaupmannahöfn. Árin fram að því að hann stofnaði eigin stofu, hafði hann rekið stofu með kollegum sínum, þeim Max Brüll, Gehrdt Bornebusch og Jørgen Selchau. Meðal þekktustu verka Larsens eru Háskólinn í Þrándheimi, Freie-háskólinn í Berlín og bygging utanríkisráðuneytisins í Sádi Arabíu. Árið 1965 hreppti Henning Larsen Eckersberg-orðuna, fyrir framlag sitt til byggingarlistarinnar og þremur árum síðar varð hann prófessor í arkitektúr og hönnun við Konunglegu akademíuna í Kaupmannahöfn. Teiknistofa Hennings Larsens hefur margoft borið sigur úr býtum í forvali og samkeppni um stórar og veglegar byggingar. Viðurkenningar og verðlaun sem teiknistofa Hennings Larsens hefur hreppt gegnum tíðina fyrir unnin verk skipta líka hundruðum og bara nýja Óperuhúsið í Kaupmannahöfn hefur eitt og sér aflað stofunni margvíslegra viðurkenninga og verðlauna. Og enn er kappinn að. Nú örfáum dögum eftir að Óperan var vígð, var tilkynnt að teiknistofa Hennings Larsens hefði sigrað í hugmyndasamkeppni um nýtt háhýsi og umhverfi þess í miðborg Tirana í Albaníu, þar sem mikil uppbygging stendur fyrir dyrum.

Á mánudagsmorgun, tveimur dögum eftir vígslu hússins, bauð einn af arkitektum stofunnar og meðeigandi, Peer Teglgaard Jeppesen, blaðamanni með sér í skoðunarferð um Óperuna. Hann segir við upphaf skoðunarferðarinnar að Henning Larsen og arkitektalið hans sem vann með honum að húsinu séu mjög ánægð með hve húsið reynist þegar góður vinnustaður og að Konunglega leikhúsið skuli vera jafn ánægt með árangurinn. Það sé grundvöllur þess að ópera Konunglega leikhússins geti gert sitt besta og notið sín sem best til listrænna starfa. "Við erum himinlifandi yfir því hvernig til hefur tekist með forsalinn. Þetta eru lifandi salarkynni. Markmið í hönnun forsalarins var að skapa rými þar sem fólk gæti sýnt sig og séð aðra, og það hefur tekist. Áheyrendasalurinn skapar andstæðu við opið og svífandi rými forsalarins - þú sérð það þegar við komum þangað. Þar var það markmið að skapa kraftmikið rými, þar sem nálægð áheyrenda við sviðið væri það mikil að þeir gætu auðveldlega orðið gagnteknir af því sem þar fer fram. Hljómburðurinn í salnum er frábær og var hannaður af fólki sem ég tel meðal þriggja bestu í heiminum á því sviði. Við höfum átt náið samstarf við frambærilegustu sérfræðinga heims í öllu því sem lýtur að sviðstækni, hljómburði og lýsingu - sérfræðinga sem A.P. Möller fékk til liðs við okkur. Við erum ekki í nokkrum vafa um að þessi salur verður heimsþekktur. Óperan er nú þegar farin að laða að sér erlenda gesti og alþjóðlega listamenn sem hafa ekki komið hingað áður. Þetta er hús sem fólk mun hafa áhuga á að sjá, koma í og starfa í. Þetta finnst mér í grundvallaratriðum það sem uppúr stendur og er okkur sem hönnuðum húsið mjög mikilvægt."

Það er rétt að fólk á eftir að vilja sjá þetta hús, og meðan Teglgaard Jeppesen sækir aðgangskort okkar til húsvarðarins heyri ég tvo söngvara tala um það í nokkrum áhyggjutón, að sennilega þurfi að bæta inn aukasýningum í hverri viku fram á vor. Það er semsagt uppselt á allar sýningar í húsinu fram í september - á allar sýningar sem skipulagðar hafa verið og auglýstar.

Steinsteypan dýrust

Við Teglgaard Jeppesen göngum inn úr starfsmannaanddyrinu, eftir löngum gangi. Það er líf og fjör í húsinu, hvarvetna er fólk að þakka fyrir síðast - sem var auðvitað vígslukvöldið - og andinn er léttur. Gráir veggir vekja athygli mína og Teglgaard Jeppesen segir mér - mér til mikillar furðu, að þetta sé nú bara steinsteypa. En hún er flauelsmjúk! "Það er notuð sérstök aðferð til að ná fram þessari mýkt í steypunni, og silkikenndri áferð, en steypan er sennilega langdýrasta byggingarefnið sem notað er í þetta hús." Þetta kemur Íslendingnum sem er alinn upp við að steinsteypa sé nánast frumefni, verulega á óvart. Það vekur líka athygli hve dagsbirtan leikur fallega um veggina, en arkitektinn segir að það hafi verið eitt af markmiðum þeirra við hönnunina að hún fengi að leika um allt húsið. Aðeins eitt íverurými hússins er án dagsljóss, en það er eitt fyrsta rýmið sem Teglgaard Jeppesen sýnir mér - æfingasalur hljómsveitarinnar á hæðunum neðan jarðar. Þar er tækninni hins vegar þannig háttað að meðfram lausu loftinu skín hvítt ljós, meðan mikil og jöfn lýsing í bylgjulaga lausa loftinu er gul og hlý. "Hvíta birtan í þessum sal er stillanleg, þannig að hægt er að ráða hversu hvít hún verður. Þetta er gert til þess að hægt sé að líkja sem best eftir birtustigi úti, til dæmis eftir árstíðum. Það er líka mikilvægt í sal sem þessum að lýsingin standist kröfur löggjafar og vinnueftirlits, þar sem nótnalestur er erfiður og krefst mikillar birtu. Lýsing okkar stenst þessar kröfur og nokkur hundruð lúxum betur. Hér þarf engan að svíða í augu af því að rýna í litlar svartar nótur." Æfingasalur hljómsveitarinnar er stór og fallegur, og í honum var einnig reynt að skapa sem bestan hljómburð. Úr æfingasalnum er gengt inn í risastóra lyftu, hljóðfæralyftu, sem notuð er til að færa þung hljóðfæri milli hljómsveitargryfju og æfingarýmis. Lyfta sem flytur hljóðfæraleikara á milli er sérstaklega hraðskreið. Fyrir framan æfingasalinn, sem jafnframt er búinn fullkomnasta upptökustúdíói, er dagstofa hljóðfæraleikaranna með sófum og þægilegum stólum.

"Mátuleg" hljómsveitargryfja

Allt svæðið er fullkomlega hljóðeinangrað. "Sjálf hljómsveitargryfjan er svo þannig úr garði gerð að það er hægt að dýpka hana og hækka eftir þörfum. Það er gert til þess að rýmið í henni sé alltaf mátulegt fyrir þann fjölda hljóðfæraleikara sem leikur hverju sinni, og ekki skapist tómarúm neins staðar sem gæti haft neikvæð áhrif á hljómburðinn."

Sviðið sjálft er búið öllum nýjasta tæknibúnaði og aðstaða þar er sú besta sem völ er á. Gólf aðalsviðsins er sett saman úr einingum, og það má færa á sjálfvirkan hátt inn á hliðarsviðin ef þörf krefur. Með því móti er hægt að skipta um sviðsgólf eftir því hvort verið er að sýna óperu, flytja óperu í tónleikaformi eða sýna dans. Dansgólfið er lagt sérstökum gúmmídúk sem auðveldar dans, og það liggur undir aðalgólfinu, en er lyft upp þegar þess þarf með. Lyfta liggur af sviðinu og niður á hæðirnar neðanjarðar, og hægt er að súrra heilu sviðsmyndunum þangað niður á augabragði. En það er líka hægt að taka þær inn á annað hvort hliðarsviðanna, hífa þær upp eða færa inn á baksviðið, og þaðan er greið leið út í flutningabíla sem koma með sviðsmyndir annars staðar frá - eða sækja. Rýmið baksviðs er stórt, ekki bara næst aðalsviðinu, heldur einnig það sem hýsir alla starfsaðstöðu. Óperukórinn á sinn sérstaka stóra æfingasal sem og Konunglegi ballettinn, en æfingarými stór sem smá eru þó miklu fleiri, fyrir einsöngvara, hljóðfæraleikara, dansara, smærri hópa og stærri. Nótnageymslum, búningaverkstæði, sviðsmyndavinnustofum, smíðastofum, saumastofum, búningaherbergjum, förðunardeild og öllum öðrum þáttum óperuhúss er vel sinnt með sérhönnuðu rými, og allt lýtur þetta þeim lögmálum að þjóna sviðinu og sýningum þar sem best. Hér fer vel um fólk, en þó er plássið engan veginn yfirþyrmandi stórt - aðeins mátulega rúmt. Í þessum hluta hússins er flauelsmjúka steinsteypan mest áberandi, en annað atriði fangar líka augað, og það eru gluggarnir. "Við vildum að gluggarnir yrðu allir sérstakir og að útsýni úr húsinu hefði fegurðargildi í sjálfu sér. Staðsetning hússins mótast af ásunum sem markast af hallartorgi Amalienborgarhallar og Marmarakirkjunni, og við nýtum okkur þessa ása sem útsýnispunkta. Þegar til tals kom að breyta legu þakskeggsins vildum við það ekki, því þá hefði það skorið illa þá sjónlínu sem við vildum að rammaði inn útsýni af efstu hæðinni. Þakið hefði þá skorið toppinn af byggðinni og það hefði ekki verið fallegt."

Salurinn er hljóðfæri

Þannig virðist hvert atriði í þessu fallega húsi úthugsað.

Við Peer Teglgaard Jeppesen göngum nú í forsalinn á leið okkar inn í áheyrendasal. Ljósakrónur Ólafs Elíassonar fanga augað strax, fyrir einskæra fegurð. Þær eru settar saman úr ótal lituðum glertíglum og þegar litið er uppundir þær sést að fyrir innan hvern tígul er ljósaperu komið fyrir. Það stirnir af þessum ljósum, þau gefa forsalnum karakter og líf og jafnvel þegar staðið er á hafnarbakkanum handan sundsins, eru þessi ljós það sem augun leita í. Þá eru það brýrnar og svalirnar í forsalnum. Af svölum á nokkrum hæðum við risastóran glugga forsalarins liggja brýr inn í óperusalinn. "Við vildum ekki að þessar brýr væru skipulega uppraðaðar, beinar og jafnar á hverri hæð. Þess vegna stangast þær á. Með þessu vildum við ná fram léttleika í salnum rétt eins og brýrnar svifu um rýmið."

Áheyrendasalurinn sjálfur er eins og hús í húsinu og stendur eins og risastórt epli eða kuðungur inni í forsalnum. Útveggirnir, sem snúa út í forsalinn, vekja áhuga minn fyrir sérstaklega fallega viðarklæðningu. "Þetta er hlynur, og hlynur hefur verið notaður til að smíða úr fiðlur og önnur hljóðfæri. Hugmyndin að baki því er sú að salurinn sé eins konar hljóðfæri. Það er þar sem tónlistin hljómar. Eins og þú sérð er viðurinn beygður til að skapa þessa ávölu áferð, og það þurfti mikla rannsóknar- og hönnunarvinnu í að útfæra það. Við vissum að það er hægt í hljóðfærum og vildum láta á það reyna hér líka. Viðurinn er meðhöndlaður á sérstakan hátt og hefur þennan fallega rauða blæ sem gefur honum sterkan karakter. Hann er lakkaður á sama hátt og fiðlur eru lakkaðar."

Allt fyrir hljómburðinn

Þegar gengið er inn af brúnni tekur millirými við, með mun fleiri dyrum inn í salinn sjálfan. Fólk þarf því hvergi að troðast langan veg um sætisbekki til að komast að sætunum sínum. Þegar inn er komið vekur athygli hvað sjálfur salurinn virkar lítill miðað við allt annað. "Það er rétt, það er hvergi lengra að sviði en 55 metrar. Við vildum halda nándinni hér inni öndvert við það sem er frammi í forsalnum, og það var líka krafa frá gefandanum að allir sem hingað koma gætu bæði heyrt vel og séð vel. Sú krafa er auðvitað sjálfsögð, en til þess að ná þessu sem best völdum við þetta skeifulaga form á salnum. Hljóðmeistararnir unnu sína vinnu útfrá því. Þú sérð þessar þverrákir í veggjum og framan á svölum; - sums staðar eru þær nærri hver annarri meðan bilið á milli þeirra er gisnara annars staðar. Allt hefur það með hljómburðinn að gera - hér miðast allt við hann. Sætin eru svo hvert um sig stillt með hliðsjón af sjónlínu til sviðsins. Svalirnar eru klæddar með sama rauða hlyn og útveggir salarins, en sætin eru bláklædd. Loftið er svo klætt 105 þúsund örkum af 24 karata blaðgulli." Til marks um hljómburðinn - við Jeppesen stöndum á efstu svölum, og heyrum þó vel hvert orð sem sviðsmenn segja meðan þeir keppast við að koma upp sviðsmyndinni að Aidu fyrir æfingu sem er um það bil að hefjast. Skoðunarferðinni er senn að ljúka. Áður skoðum við þó Reiðaloftið, sem er litla sviðið í húsinu og tekur um 200 manns í sæti. Þar er útsýni yfir höfnina og gömlu pakkhúsin við álana bakatil alveg einstakt og af nafngift salarins er viðeigandi seltubragð.

Peer Teglgaard Jeppesen leggur áherslu á að Óperan eigi að falla vel að umhverfi sínu. Fyrir dyrum stendur mikil uppbygging á svæðinu í kring; - ný byggð leysir af hólmi nokkur gömul hrörleg hús, meðan stæðileg eldri hús við álinn bakvið húsið fá líklega að standa. Óperuhúsið er eins og eyja, og sjórinn allt um kring rammar það inn. Það stendur líka til að byggja upp á nýjan leik hafnarsvæðið í kringum húsið og óperutorgið sem að því liggur, og ljóst að þar er möguleiki á að skapa mjög lifandi og mannvænlegt svæði. Sú uppbygging með blandaðri byggð, kaffihúsum verslunum og ýmiss konar menningarstarfsemi mun laða að fólk sem vill njóta nálægðarinnar við Óperuna.

Taka þátt í forvali um byggingu Tónlistarhúss í Reykjavík

Teiknistofa Hennings Larsens er meðal þeirra sem taka þátt í forvali um byggingu Tónlistarhúss í Reykjavík. Peer Teglgaard Jeppesen segir erfitt fyrir sig að tjá sig um þær hugmyndir sem þegar liggi fyrir um það, að svo stöddu, en það er einmitt í dag sem þátttakendur í forvalinu skila inn hugmyndum sínum. "Ég get þó sagt það að staðsetning hússins við höfnina er frábær og býður upp á mikla möguleika. Húsið verður eins konar vörumerki fyrir land og þjóð, og þess vegna vinnum við mest með mjög íslensk efni. Við erum þegar í samstarfi við íslenska aðila um margt sem að húsinu lýtur og höfum kynnt okkur vel aðstæður, sögu, umhverfi, menningu og fleiri þætti sem koma til með að hafa áhrif á húsið, útlit þess og notkun. Við leggjum áherslu á það hvar í heiminum sem við vinnum að byggingar séu lifandi partur af sínu umhverfi og menningu, og þjóni fólki eins og best getur orðið, bæði þeim sem starfa í þeim og þeim sem sækja þangað. Við leggjum áherslu á gott samstarf við heimafólk hvar sem við vinnum, og leitum til bestu sérfræðinga sem völ er á hverju sinni til að ná fram markmiðum okkar um vandaðar, þénanlegar og fallegar byggingar."

begga@mbl.is