SKOSKA úrvalsdeildarliðið Hearts í Edinborg er búið að gera Þrótti Reykjavík tilboð í sóknarmanninn efnilega, Hjálmar Þórarinsson. Hjálmar var lánaður til Hearts í haust og hefur staðið sig það vel með unglinga- og varaliði félagsins að forráðamenn Hearts vilja kaupa leikmanninn og hafa þeir sent Þrótti tilboð en Hjálmar er samningsbundinn Þrótturum til loka árs 2006.

Jú, ég get staðfest það að Hearts er að reyna að ná Hjálmari frá okkur. Málið er í þeim farvegi núna að félögin eru að reyna að ná saman. Við höfum fengið tilboð í hendur frá Hearts og ég lít svo á að það sé alls ekki útilokað að við náum saman. Skotarnir eru greinilega mjög spenntir fyrir honum og það kemur mér ekki á óvart enda Hjálmar afar hæfileikaríkur leikmaður," sagði Kristinn Einarsson, formaður Knattspyrnufélagsins Þróttar, við Morgunblaðið í gærkvöld.

Hjálmar, sem er 18 ára, hefur skorað grimmt með Hearts að undanförnu en hann hefur spilað bæði með unglinga- og varaliði félagsins.

Hann hefur skorað fimm mörk í þremur leikjum og með frammistöðu sinni hefur hann heillað þjálfara og forráðamenn Edinborgarliðsins.

Ólafur Garðarsson, umboðsmaður Hjálmars, staðfesti í samtali við Morgunblaðið í gær að samningaviðræður á milli Hearts og Þróttar væru komnar á fulla ferð en Hearts villa semja við Hjálmar til þriggja og hálfs árs.

Hjálmar hefur leikið allan sinn feril með Þrótti og þrátt fyrir ungan aldur hefur hann spilað þrjú ár með meistaraflokki félagsins, samtals 44 deildarleiki. Þá á hann að baki 24 landsleiki með tveimur yngstu landsliðum Íslands og hefur skorað í þeim leikjum 14 mörk.