Dmitri Torgovanov, varnar- og línumaðurinn sterki hjá Rússum, stöðvar Kristján Andrésson í leik á Ólympíuleikunum í Aþenu. Hvorugur þeirra verður með á HM vegna meiðsla.
Dmitri Torgovanov, varnar- og línumaðurinn sterki hjá Rússum, stöðvar Kristján Andrésson í leik á Ólympíuleikunum í Aþenu. Hvorugur þeirra verður með á HM vegna meiðsla. — Morgunblaðið/Golli
DMITRI Torgovanov, línumaðurinn öflugi frá Essen, verður ekki með rússneska landsliðinu í handknattleik á heimsmeistaramótinu í Túnis. Torgovanov á við meiðsli að stríða og Anatoli Drachev, þjálfari Rússa, staðfesti í gær að hann yrði ekki með. Íslendingar leika í riðli með Rússum á HM og mæta þeim í fjórða og næstsíðasta leik í riðlakeppninni, hinn 28. janúar.

Þetta er mikið áfall fyrir Rússa því Torgovanov er einn besti línumaður heims, stór og kröftugur, og nýtir færi sín vel. Auk þess var hann aðeins annar tveggja leikmanna í hópi Rússa sem leika utan heimalandsins en hinn er Eduard Kokcharov, leikmaður Celje Lasko í Slóveníu.

"Karþagó skal sigruð"

Torgovanov gat aðeins leikið einn leik með Rússum á alþjóðlega mótinu í Noregi um síðustu helgi, fyrsta leikinn gegn Alsír. Drachev sagði að það yrði mjög erfitt fyrir sitt lið að vera án Torgovanov á HM. Jákvæðu fréttirnar væru hins vegar þær að tveir aðrir sem hefðu verið tæpir vegna meiðsla, Daniel Chernov og Jegor Jevdokimov, yrðu með í Túnis. Rússar koma til Túnis á morgun, föstudag, eins og önnur þátttökulið á HM. Forseti rússneska handknattleikssambandsins, Vladimír Grigorjev, er bjartsýnn á gott gengi sinna manna og tók sér í munn orð rómverskra hershöfðinga frá fornri tíð: "Karþagó skal sigruð," en hin forna stórborg Karþagó er skammt frá höfuðstaðnum, Túnisborg, og þar er einmitt alþjóðaflugvöllur landsins.

Drachev þjálfari er aftur á móti mun varkárri í orðum: "Ef við spilum eins vel og í æfingaleiknum við Spánverja (sem endaði 28:28) getum við náð langt í keppninni. En ef við spilum eins og gegn Norðmönnum (töpuðu 29:35) erum við á sama róli og andstæðingar okkar í riðlinum," sagði Drachev, sem tók við af Vladimír Maximov eftir ÓL í Aþenu.