FINA, Alþjóðasundsambandið, ákvað í gær að heimsmeistaramótið sem er á dagskrá í sumar verði ekki í Montreal í Kanada eins og til stóð.
FINA, Alþjóðasundsambandið, ákvað í gær að heimsmeistaramótið sem er á dagskrá í sumar verði ekki í Montreal í Kanada eins og til stóð. Ástæðan er sú að skipuleggjendur mótsins í Kanada áttu í erfiðleikum með að fjármagna keppnina og fyrstu dagar miðasölu fyrir mótið gáfu vísbendingar um að afar takmarkaður áhugi væri á meðal borgarbúa. FINA mun nú bjóða öðrum borgum að sækja um að taka við verkefninu og fá þeir aðilar frest til 15. febrúar til þess að undirbúa umsóknina. Skipuleggjendur í Montreal áttu eftir að finna samstarfsaðila sem gátu útvegað um 600 millj. kr. sem vantaði upp á til þess að endar næðu saman. Heimsmeistaramótið á samkvæmt dagskrá FINA að fara fram 17.- 31. júlí. Ríkisstjórn Kanada vildi ekki veita skipuleggjendum keppninnar ábyrgðir vegna keppninnar en það hafði FINA gert að skilyrði. Enda ljóst að gríðarlegt tap yrði á mótshaldinu. Montreal hafði betur á sínum tíma í kosningu FINA um mótshaldið eftir harða baráttu við Long Beach í Kaliforníu.