BÅRD Tonning, þjálfari norska handknattleiksliðsins Sandefjord, spáir Norðmönnum heimsmeistaratitlinum í handknattleik karla og segir að lið þeirra geti í dag unnið hvaða mótherja sem er. Tonning sagði við Nettavisen í gær að liðið geti farið alla leið.

BÅRD Tonning, þjálfari norska handknattleiksliðsins Sandefjord, spáir Norðmönnum heimsmeistaratitlinum í handknattleik karla og segir að lið þeirra geti í dag unnið hvaða mótherja sem er. Tonning sagði við Nettavisen í gær að liðið geti farið alla leið. "Með smá heppni getum við unnið gullverðlaunin. Ef liðið spilar eins og það gerði gegn Rússum um helgina geta fáir mótherjar staðist því snúning. Frakkland, Króatía, Svíþjóð og Danmörk eru talin með sigurstranglegri lið en Noregur, en Noregur getur sigrað þau öll," sagði Tonning.

Hann byggir bjartsýnina ekki síst á því að Noregur sé með mjög þétt lið, á góðum aldri og með mikla reynslu, á meðan flestar aðrar þjóðir hafi misst mikið af sínum lykilmönnum.

Aðrir handboltasérfræðingar í Noregi telja að það yrði mikill sigur fyrir Norðmenn að komast í hóp átta efstu þjóðanna á HM, enda hafa þeir ekki látið mikið að sér kveða í karlahandknattleik á heimsvísu um árabil.