Stefán Þ. Þórðarson framherji Skagamanna í knattspyrnu á von á tilboði frá sænska 1. deildarliðinu Norrköping í dag en Stefán hefur verið til reynslu hjá sænska liðinu undanfarna daga.

Stefán Þ. Þórðarson framherji Skagamanna í knattspyrnu á von á tilboði frá sænska 1. deildarliðinu Norrköping í dag en Stefán hefur verið til reynslu hjá sænska liðinu undanfarna daga.

"Ég er búinn að mæta á þrjár æfingar og ég á von á að fá tilboð í hendurnar á morgun (í dag). Við fyrstu sýn þá líst mér mjög vel á liðið og þær aðstæður sem það hefur upp á að bjóða. Ég get ekkert sagt ákveðið fyrr en ég sé tilboðið en ef það reynist gott þá reikna ég fastlega með að taka því," sagði Stefán við Morgunblaðið í gærkvöld en hann lagði upp flest mörk í Landsbankadeildinni s.l. sumar.

Norrköping í úrvalsdeildina?

Samningur Stefáns við ÍA er útrunninn og því þarf Norrköping ekkert að greiða fyrir leikmanninn en semji Stefán við félagið verður hann fjórði íslenski leikmaðurinn sem spilar með liðinu. Guðmundur Viðar Mete hefur leikið með liðinu undanfarin tvö ár og hinir tveir eru báðir markverðir, Þórður, bróðir Stefáns og Birkir Kristinsson. Norrköping féll úr úrvalsdeildinni fyrir þremur árum en ekki er útilokað að liðið fái keppnisrétt í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. Sænska knattspyrnusambandið íhugar að fjölga liðum um tvö í deildinni og það kemur þá í hlut Norrköping að taka það sæti en liðið lenti í fjórða sæti 1. deildarinnar á síðustu leiktíð.

Slæmur fjárhagur Örebro

Örebro var fellt úr úrvalsdeildinni af fjárhagsástæðum og

Assyriska, sem hafnaði í þriðja sæti, var fært upp í staðinn. Örebro hefur hins vegar öðlast von um að fá að leika áfram í deildinni eftir að sænski íþróttadómstóllinn ákvað að taka fyrir áfrýjun Örebro 2. febrúar næstkomandi. Í ljósi þessa máls hefur verið rætt alvarlega innan sænska knattspyrnusambandsins að fjölga liðum enda er sambandinu ekki stætt á að úrskurða lið Assyriska til að spila í 1. deildinni fari svo að Örebro vinni málið fyrir dómstólum.