Ólafur greifi hefur undarlegt aðdráttarafl.
Ólafur greifi hefur undarlegt aðdráttarafl.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HINN dularfulli Lemony Snicket hefur grátbeðið bíógesti allra landa um að sjá ekki myndina sína A Series of Unfortunate Events. En íslenskir bíógestir eru greinilega óhlýðnir í eðli sínu því þeir létu öll slík tilmæli sem vind um eyru þjóta.

HINN dularfulli Lemony Snicket hefur grátbeðið bíógesti allra landa um að sjá ekki myndina sína A Series of Unfortunate Events. En íslenskir bíógestir eru greinilega óhlýðnir í eðli sínu því þeir létu öll slík tilmæli sem vind um eyru þjóta. Þessi nýjasta mynd Jim Carreys fékk mestu aðsókn allra mynda um síðustu helgi. Þá sáu hana um 3.600 manns en nú þegar komið er fram í miðja viku hafa nær 6 þúsund manns séð hana með forsýningum, að sögn Christof Wehmeiers hjá Sambíóunum.

"Þetta sannar að Jim Carrey á sér marga aðdáendur hér á landi. Það má síðan líka benda á að bækurnar þrjár sem myndin er byggð á í Lemony Snickets bókaflokknum hafa komið út í íslenskri þýðingu og hafa lesendur því fagnað þessari kvikmyndaútgáfu þessa bókaflokks. Sumir tala um nýtt Harry Potter æði."

Mynd Marc Forsters, Finding Neverland, með Johnny Depp gekk ágætlega um helgina en þá sáu rúmlega 1.200 manns hana. Nú ættu áhorfendur því að vera orðnir á þriðja þúsundið með forsýningum.

"Slíkar sælkera-verðlaunamyndir fara oftast rólega af stað en um leið og frábærir dómar eru klárir og búið er að tilkynna tilnefningar til Óskarsverðlauna tekur landinn við sér," segir Jón Gunnar Geirdal hjá Skífunni, sem greinilega er vongóður á að myndin fái allmargar tilnefningar þegar þær verða kunngjörðar 25. janúar.

Um helgina síðustu hófst líka frönsk kvikmyndahátíð og segir Christof Wehmeier að hún hafi farið vel af stað. Opnunarmyndin, Langa trúlofunin, var með 600 manns í aðsókn um um helgina, sem Christof segir mjög gott, svipaða byrjun og hjá Amélie fyrir þremur árum en sú mynd, sem gerð var af sama kvikmyndagerðarmanni, Jean Pierre Jeunet, endaði í yfir 14.000 manns í aðsókn.

Um helgina fóru að sögn Christofs um 2.500 gestir á hátíðina og má því gera ráð fyrir að sú tala hafi nærri því tvöfaldast síðan þá.