MEÐAN á sýningunni "Þetta vilja börnin sjá" stóð í Gerðubergi nýverið gafst börnum kostur á að velja þá myndskreytingu sem þeim þótti best en á sýningunni voru myndir úr 32 bókum.

MEÐAN á sýningunni "Þetta vilja börnin sjá" stóð í Gerðubergi nýverið gafst börnum kostur á að velja þá myndskreytingu sem þeim þótti best en á sýningunni voru myndir úr 32 bókum. Urðu myndir Ingólfs Arnar Björgvinssonar úr bókinni Brennan fyrir valinu. Brennan er sjálfstætt framhald verðlaunabókarinnar Blóðregns sem byggð er á atburðum Brennu-Njáls sögu eftir Njálsbrennu. Í Brennunni er farið framar í söguna. Þau Ingólfur og Embla Ýr Bárudóttir eru höfundar bókarinnar. Bókin er gefin út af Máli og menningu.

Árið 2003 völdu börnin bók Guðjóns Ketilssonar Eyjadís og árið 2002 hlaut Sigrún Eldjárn viðurkenninguna fyrir bókina Draugasúpan.

Dómnefnd Dimmalimm-verðlaunanna, Aðalsteinn Ingólfsson, Kalman Le Sage de Fontenay og Þórdís Alda Sigurðardóttir, valdi bók Áslaugar Jónsdóttur Nei, sagði litla skrímslið! sem bestu myndskreytinguna árið 2004. Dómnefndin er skipuð af styrktaraðilum verðlaunanna Pennanum, Myndstefi og Gerðubergi en jafnframt styrkir Félag íslenskra bókaútgefenda verðlaunin.