Frá opnun listahátíðarinnar Á seyði á Seyðisfirði í fyrra.
Frá opnun listahátíðarinnar Á seyði á Seyðisfirði í fyrra. — Morgunblaðið/Steinunn Ásmundsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EYRARRÓSIN, sérstök viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni, verður veitt á Bessastöðum í dag. Þrjú verkefni hafa verið valin úr hópi fjölmargra umsækjenda og hlýtur eitt þeirra Eyrarrósina; fjárstyrk að upphæð kr.

EYRARRÓSIN, sérstök viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni, verður veitt á Bessastöðum í dag. Þrjú verkefni hafa verið valin úr hópi fjölmargra umsækjenda og hlýtur eitt þeirra Eyrarrósina; fjárstyrk að upphæð kr. 1,5 milljónir og verðlaunagrip eftir Steinunni Þórarinsdóttur til eignar.

Verkefnin sem hlutu tilnefningu eru: Aldrei fór ég suður, rokkhátíð alþýðunnar á Ísafirði; listahátíðin Á seyði á Seyðisfirði og Þjóðlagahátíðin á Siglufirði.

Viðurkenninguna og verðlaunagripinn afhendir Dorrit Moussaieff forsetafrú, en hún er jafnframt verndari Eyrarrósarinnar. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra flytur ávarp við athöfnina, sem hefst kl. 15.

Efling menningarlífs á landsbyggðinni

Viðurkenningin á rætur sínar í því að fyrir tæpu ári gerðu Listahátíð í Reykjavík, Byggðastofnun og Flugfélag Íslands með sér samkomulag um eflingu menningarlífs á landsbyggðinni og undirrituðu Þórunn Sigurðardóttir, stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík, Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri Byggðastofnunar, og Jón Karl Ólafsson, forstjóri Flugfélags Íslands, samning þess efnis 30. apríl 2004.

Markmiðið með samkomulaginu er að stuðla að auknu menningarlífi á landsbyggðinni, auka kynningarmöguleika einstakra sveitarfélaga og landshluta, gefa íbúum landsins kost á afburða alþjóðlegum listviðburðum og skapa sóknarfæri á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu. Liður í samkomulaginu er stofnun Eyrarrósarinnar sem veitt er afburða menningarverkefni á landsbyggðinni, starfssvæði Byggðastofnunar.

Auglýst var eftir umsóknum í dagblöðum og landsmálablöðum og voru umsækjendur m.a. stofnanir, söfn, tímabundin verkefni og menningarhátíðir.

Verkefnisstjórn, skipuð forstjóra og stjórnarformanni Byggðastofnunar og stjórnanda og framkvæmdastjóra Listahátíðar í Reykjavík, tilnefndi og valdi verðlaunahafa.