Það kyngdi niður snjónum í Hveragerði í gær og það  vakti óskipta gleði barnanna, sem höfðu engar áhyggjur af því þótt Hellisheiðin yrði ófær.
Það kyngdi niður snjónum í Hveragerði í gær og það vakti óskipta gleði barnanna, sem höfðu engar áhyggjur af því þótt Hellisheiðin yrði ófær. — Morgunblaðið/Margret Ísaksdóttir
HELLISHEIÐINNI var lokað skömmu eftir hádegi í gær vegna veðurs og þurfti á annan tug ökumanna að skilja bíla sína eftir uppi á heiði.

HELLISHEIÐINNI var lokað skömmu eftir hádegi í gær vegna veðurs og þurfti á annan tug ökumanna að skilja bíla sína eftir uppi á heiði. Blindhríð og kafaldsfærð var á heiðinni í gær og þurfti lögreglan á Selfossi og skátar í Hveragerði að hjálpa ökumönnum sem höfðu fest bíla sína. Engin slys urðu þó á fólki í veðurhamnum. Heiðin var opnuð á tíunda tímanum í gærkveldi, enda veður þá orðið hið skaplegasta.

Þegar björgunarsveitarmenn voru kallaðir út í gærmorgun þróuðust mál á þann veg að þeir fengu engan vinnufrið vegna storms og ekki síst umferðar á heiðinni þegar þeir voru að hjálpa ökumönnum að komast leiðar sinnar. Því var tekin sú ákvörðun að loka heiðinni. Búist var við því að menn gætu vitjað bíla sinna þegar veðrinu slotaði í gærkvöldi. Nokkuð af því fólki sem festi bíla sína fékk húsaskjól í húsnæði björgunarsveitarinnar í Hveragerði og ætlaði að bíða þar meðan veðrið gengi yfir. Mikil ófærð var einnig í Hveragerði og voru björgunarsveitarmenn fengnir til að flytja skólabörn heim til sín sem og hjúkrunarfólk til og frá vinnu.