STEFNT er að því að taka endanlega ákvörðun um endurfjármögnun Spalar, sem á og rekur Hvalfjarðargöngin, í enda janúar eða byrjun febrúar með það að markmiði að ná fram kostnaðarlækkun hjá fyrirtækinu.

STEFNT er að því að taka endanlega ákvörðun um endurfjármögnun Spalar, sem á og rekur Hvalfjarðargöngin, í enda janúar eða byrjun febrúar með það að markmiði að ná fram kostnaðarlækkun hjá fyrirtækinu. Í kjölfarið verður hægt að taka ákvörðun um hvort hægt verði að lækka veggjaldið um göngin.

Borgarstjórn Reykjavíkur skoraði á stjórn Spalar og samgönguráðherra að leita hagkvæmustu leiða til að mögulegt verði að lækka verulega veggjald í Hvalfjarðargöngunum.

Gísli Gíslason, bæjarstjóri á Akranesi og stjórnarformaður Spalar, segir að gögn frá fjórum aðilum um endurfjármögnun lána liggi á borði stjórnarinnar. Verið sé að fara yfir þau og málið líti ágætlega út. Að því sé stefnt að lækka vaxtakostnað fyrirtækisins en ekki sé hægt að spá núna hversu mikil lækkunin verði. Brýnt sé að ljúka þessari vinnu í febrúar því tilkynna þurfi lánardrottnum uppgreiðslu lána fyrir ákveðinn tíma.

Aðspurður segir Gísli að áhugi manna beinist að því að lækka veggjaldið fyrst og fremst hjá stórnotendum á fólksbílum takist að lækka kostnað. Engin ákvörðun hafi enn verið tekin í þessum efnum og ekki hægt að stilla upp gjaldskrá fyrr en endurfjármögnun sé um garð gengin.

Ríkisendurskoðun vann athugun fyrir samgönguráðuneytið á reikningsskilum Spalar í nóvember á síðasta ári. Telur Ríkisendurskoðun að með skuldbreytingu innlendra lána gætu sparast 50 milljónir í raunvaxtakostnað á ári og að endurfjármögnun erlendra lána gæti einnig skilað verulega lægri vaxtakostnaði til lengri tíma miðað við vaxtastig eins og það er í dag, þrátt fyrir nokkuð háan uppgreiðslukostnað sem bundinn sé í núverandi samningum við erlendu lánardrottnana.

Langtímaskuldir Spalar í lok september 2004 voru 5,4 milljarðar króna. Þar af eru um 2,2 milljarðar króna teknir að láni hjá ríkissjóði og 2,8 milljarðar hjá John Hancock.

Gísli Gíslason segir endurfjármögnun lána það eina sem Spölur geti skoðað í viðleitni sinni til að lækka kostnað. Erindi sé á borði fjármálaráðuneytisins um aðkomu ríkisins að þessu máli enda ríkið stór lánveitandi. Þessi mál skýrist á næstunni.

Stækkun ganganna bíður

Í nóvember sl. ljáði stjórn Spalar máls á því að líklega þyrfti að huga að stækkun ganganna fyrr en seinna vegna vaxandi umferðar. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra sagði þá eðlilegt að taka það upp í viðræðum við ráðuneytið. Gísli segir lítið hafa gerst í málinu síðan. Ekki sé um brýnt mál að ræða og snúi frekar að undirbúningsvinnu sem viðkemur skipulags- og umhverfismálum. Þá verði slíkri vinnu lokið þegar til ákvörðunar komi.