Draga má mikinn lærdóm af þessari "umhugsunarverðu mynd" og eitt það fyrsta sem slær gagnrýnanda er "harðneskjulegt kerfið sem fátækt og þurfandi fólk þarf að búa við".
Draga má mikinn lærdóm af þessari "umhugsunarverðu mynd" og eitt það fyrsta sem slær gagnrýnanda er "harðneskjulegt kerfið sem fátækt og þurfandi fólk þarf að búa við".
Heimildamynd. Stjórn upptöku: Helgi Sverrisson. Þulur: Þórarinn Eyfjörð. Kvikmyndataka: Halldór Árni Sveinsson og Jónas Knútsson. Klipping: Ólafur Jóhannesson. Tónlist eftir Shostakovítsj, Rúnar Júlíusson o.fl. Einstefna kvikmyndagerð. Sjónvarpið. Sýnd í des. 2004.

HEIMILDAMYNDIN Þrjár konur er mjög forvitnileg enda tekur hún á fátækt á Íslandi, máli sem varla er rætt nema í hálfum hljóðum í allsnægtaþjóðfélaginu. Hún er jafnframt hreinskilin og greinir einfaldlega frá staðreyndum á yfirvegaðan hátt. Það er líka deginum ljósara að það sem þessi þjóðfélagshópur þarf á að halda er ekki prédikanir heldur úrbætur og það sem fyrst. Viðmælendurnir eru þrjár konur og fjölskyldur þeirra, einstæðar mæður, öryrkjar sem hafa lent í fjárhagslegum erfiðleikum af heilsufarslegum og öðrum óvæntum og illviðráðanlegum ástæðum sem hafa breytt lífinu í kvalræði. Ekki sakir óreglu, spilasýki né óviðráðanlegra skuldabagga.

Það kemur fram í Þremur konum að þannig er komið fyrir hundruðum fjölskyldna, þúsundum einstaklinga í okkar góða landi. Þessar konur og fjölskyldur þeirra eru ósköp venjulegt fólk eins og ég og þú teljum okkur vera. Stolt fólk með sína drauma, framtíðaráætlanir og langtímamarkmið. Það á heiður skilinn fyrir kjarkinn að þora að koma fram í litlu þjóðfélagi og greina frá erfiðleikum sínum og vonandi skilar þátturinn einhverjum lagfæringum. Enginn væll heldur staðreyndirnar raktar umbúðalaust og samvinnan við flinka kvikmyndagerðarmenn er óaðfinnanleg.

"Það er svo skemmtilegt," segir ein konan, þar sem hún er að tína matvöru upp úr plastpoka frá mæðrastyrksnefnd, "mig vantar þetta allt."

Við getum öll, einstaklingar og stjórnvöld, dregið mikinn lærdóm af þessari umhugsunarverðu mynd og eitt það fyrsta sem slær mann er harðneskjulegt kerfið sem fátækt og þurfandi fólk þarf að búa við eins og staðan er í málunum í dag. Að standa í biðröðum í stofnunum eftir nauðþurftum er niðurlægjandi og engum bjóðandi. Mæðrastyrksnefnd og aðrar slíkar á að leggja niður í núverandi mynd, fólk á rétt á að komið sé til móts við það á mannlegri nótum.

Fátækt, sjúkdómar, slys og önnur áföll munu ríða yfir mannkynið alla tíð með sínum slæmu afleiðingum. Því geta engin stjórnvöld breytt né annar mannlegur máttur. Það sem hægt er að gera er að framfylgja þeirri réttlætiskröfu að yfirvöld sjái svo um að þeir sem búa við skert lífskjör sakir veikinda, vegna slysa eða af öðrum fullgildum ástæðum sem valda kröppum kjörum þurfi ekki að lifa langt neðan við fátæktarmörk.

Sæbjörn Valdimarsson