Breski liðþjálfinn Mark Cooley ógnar íröskum fanga, sem hefur verið kirfilega bundinn og er látinn liggja varnarlaus á gólfinu.
Breski liðþjálfinn Mark Cooley ógnar íröskum fanga, sem hefur verið kirfilega bundinn og er látinn liggja varnarlaus á gólfinu. — Reuters
LJÓSMYNDIR sem sýna breska hermenn misþyrma íröskum föngum vöktu sterk viðbrögð breskra dagblaða í gær.

LJÓSMYNDIR sem sýna breska hermenn misþyrma íröskum föngum vöktu sterk viðbrögð breskra dagblaða í gær. Flest stærstu blöð Bretlands birtu nokkrar myndanna en það atferli sem þar getur að líta telja blöðin grafa mjög undan siðferðilegri réttlætingu innrásar Bandaríkjanna og Bretlands í Írak.

"Það finnst öllum þessar myndir hneykslanlegar, hræðilegar; það er einfaldlega ekki hægt að lýsa þeim með orðum," sagði Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, í breska þinginu í gær. Hann fullyrti að breski herinn myndi aldrei umbera hegðun sem þessa og sagði hann, að meirihluti breskra hermanna í Írak hefði komið vel fram.

Myndirnar sem hér um ræðir voru gerðar opinberar í tengslum við herréttarhöld sem nú fara fram í Þýskalandi yfir þremur breskum hermönnum, sem sakaðir eru um að hafa misþyrmt íröskum föngum. Eiga brotin að hafa átt sér stað nálægt Basra í Suður-Írak 15. maí 2003, um mánuði eftir að stjórn Saddams Husseins var steypt.

Einn hermannanna, Darren Larkin, hefur játað á sig eitt brot, árás á mann í herbúðum Breta, en neitar öðrum. Hinir tveir, Daniel Kenyon og Mark Cooley, lýstu sig saklausa af öllum ákærum.

Dómarinn í réttarhöldunum gerði 22 myndir af meintum afbrotum opinberar. Þær koma fyrir augu almennings aðeins örfáum dögum eftir að bandarískur hermaður, Charles Graner, var dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir að misþyrma föngum í Abu Ghraib-fangelsinu í útjaðri Bagdad.

Bresk stjórnvöld höfðu á sínum tíma fordæmt aðgerðir bandarísku hermannanna en myndirnar sem í gær komu fyrir sjónir bresks almennings þykja líklegar til að draga úr trú fólks á að breskir hermenn stundi meiri háttvísi en hinir bandarísku.

Þá þykja myndirnar líklegar til að magna enn upp gagnrýni á þá ákvörðun Blairs forsætisráðherra að fylkja á sínum tíma liði með Bandaríkjamönnum í Íraksmálunum.

Pyntingum ekki beitt skipulega

Mike Jackson, yfirmaður breska heraflans, sendi frá sér yfirlýsingu í fyrradag þar sem hann "fordæmdi fullkomlega" misþyrmingar eins og þær, sem sakborningarnir þrír í Þýskalandi eru sakaðir um. Vekur fréttaritari BBC sérstaka athygli á því að ekkert hafi enn komið fram, sem bendi til að einhvers konar misþyrmingum hafi skipulega verið beitt af hálfu breska hersins, líkt og virðist hafa verið raunin í Abu Ghraib.

Líklegt er talið að réttarhöld yfir bresku hermönnunum þremur muni vara í þrjár til fjórar vikur. Þau eru haldin í herstöð Breta í Osnabrück, norðarlega í Þýskalandi. Verði hermennirnir fundnir sekir eiga þeir yfir höfði sér fangelsisdóm og brottrekstur úr hernum.

London. AFP, AP.