Adriana Iliescu ræðir við blaðamenn á þriðjudag.
Adriana Iliescu ræðir við blaðamenn á þriðjudag. — Reuters
SEXTÍU og sex ára gömul rúmensk kona, sem á sunnudag ól barn á sjúkrahúsi í Búkarest, blæs á fullyrðingar um að hún sé orðin of gömul til að eiga og ala upp barn.

SEXTÍU og sex ára gömul rúmensk kona, sem á sunnudag ól barn á sjúkrahúsi í Búkarest, blæs á fullyrðingar um að hún sé orðin of gömul til að eiga og ala upp barn. Adriana Iliescu, elsta móðir sem vitað vitað er um í heiminum, segir að hún muni helga líf sitt stúlkubarninu sem hún ól á sunnudag.

"Þið þurfið ekki að hafa áhyggjur," sagði Iliescu, sem er ellilífeyrisþegi, rithöfundur og fyrrverandi háskólakennari, á fundi með blaðamönnum í fyrradag. "Þetta er mitt vandamál," sagði hún og bætti við að litla stúlkan hennar, sem var aðeins tæpar sex merkur við fæðinguna, ætti bjarta framtíð fyrir sér.

Iliescu gekk með tvíbura en ákveðið var að gera keisaraskurð á henni sex vikum fyrir tímann eftir að annað barnið dó í móðurkviði. "Líf sérhverrar manneskju hefur tilgang og kannski er þetta mitt verkefni í lífinu," sagði Iliescu en hún hafði gengist undir frjósemismeðferð í níu ár og tæknifrjóvgun.

Hin aldna móðir sagðist ekki geta lýst þeirri tilfinningu sem fylgdi því að snerta fingur barnsins í fyrsta sinn. "Það er allt annað en þegar þú kemur við börn annars fólks. Ég varð mjög glöð er hún tók um fingur minn," sagði hún. Stúlkan hefur fengið nafnið Eliza-Maria.

Sökuð um "sjálfselsku"

Forystumenn rétttrúnaðarkirkjunnar í Rúmeníu hafa gagnrýnt Iliescu og Ciprian Campineanul biskup sagði á mánudag að ákvörðun hennar, að eignast barn, hefði verið til marks um "sjálfselsku". Hafa líka komið fram kröfur í Rúmeníu um að fram fari umræða um læknisfræðileg og siðfræðileg álitamál er tengjast tæknifrjóvgunum.

Iliescu gerði hins vegar lítið með þessa gagnrýni, sagði að "hvert barn sem í heiminn væri borið væri þangað komið fyrir vilja guðs".

Mircea Cinteza, heilbrigðisráðherra Rúmeníu, hefur einnig látið í ljós álit sitt á barnsburðinum með því hvetja lækna í landinu til að hjálpa ekki konum, sem eru komnar úr barneign, til að eignast barn.

Búkarest. AP.