Margrét Björgólfsdóttir lést af slysförum árið 1989,  33 ára að aldri.
Margrét Björgólfsdóttir lést af slysförum árið 1989, 33 ára að aldri.
HJÓNIN Þóra Hallgrímsson og Björgólfur Guðmundsson hafa stofnað minningarsjóð um dóttur sína Margréti Björgólfsdóttur með það að markmiði að auka almannaheill og bæta mannlíf á Íslandi. Hafa þau lagt fram stofnfé að fjárhæð 500 milljónir króna.

HJÓNIN Þóra Hallgrímsson og Björgólfur Guðmundsson hafa stofnað minningarsjóð um dóttur sína Margréti Björgólfsdóttur með það að markmiði að auka almannaheill og bæta mannlíf á Íslandi. Hafa þau lagt fram stofnfé að fjárhæð 500 milljónir króna.

Í fréttatilkynningu um stofnun minningarsjóðsins segir að markmið sjóðsins sé að stuðla að heilbrigðu líferni og bættu mannlífi og efla menntir, menningu og íþróttir.

"Markmiðum sínum hyggst sjóðurinn ná með því að styrkja einstaklinga, verkefni og félög til mennta, framtaks, athafna og keppni, - ekki síst á alþjóðlegum vettvangi," segir í fréttatilkynningu um stofnun sjóðsins.

Áætlað að styrkveitingar nemi 75-100 milljónum á ári

Áætlað er að styrkveitingar nemi um 75 til 100 milljónum króna á ári.

Stjórn sjóðsins skipa Björgólfur Guðmundsson, formaður, Bentína Björgólfsdóttir og Þórunn Guðmundsdóttir, hæstaréttarlögmaður.

Sjóðurinn auglýsir tvisvar á ári eftir umsóknum og nú fyrst í febrúar á þessu ári.

Dómsmálaráðherra hefur staðfest skipulagsskrá fyrir minningarsjóðinn.

Margrét Björgólfsdóttir fæddist árið 1955 en hún lést af slysförum árið 1989, aðeins 33 ára að aldri.

Margrét var alin upp í Vesturbænum í Reykjavík og í fréttatilkynningu um stofnun minningarsjóðsins kemur fram að í æsku hafi orðið ljóst að hún fór ótroðnar slóðir og kom hún sínum nánustu sífellt á óvart.

"Á unglingsárum hneigðist hugur hennar að heilbrigðu lífi og andlegri og líkamlegri vellíðan allra í kringum sig. Lengst af bjó Margrét í Reykjavík en hún dvaldi einnig um nokkurra ára skeið í Kaliforníu í Bandaríkjunum og í Lundúnum á Englandi," segir í tilkynningunni.

"Margrét hafði alltaf mörg járn í eldi. Sterk réttlætiskennd, blíða og kraftur einkenndi hana alla tíð. Meðfram vinnu, m.a. hjá Flugleiðum, sótti hún námskeið auk þess sem hún stundaði söngnám við Söngskólann í Reykjavík þar sem hún lauk einsöngvaraprófi. Erlendis lagði Margrét stund á nám í austurlenskum lækningum samhliða frekara söngnámi. Hún stofnaði og rak fyrirtæki sem framleiddi og dreifði hollustuvörum á borð við Morgungull og þá rak hún um tíma matstofu hjá Náttúrulækningafélagi Íslands. Eiginmaður Margrétar var Jónas Sen píanóleikari."

Hlýja og mannkærleikur

Þuríður Pálsdóttir, söngkona, skrifaði minningargrein um fyrrum nemanda sinn á útfarardegi Margrétar. Þar sagði hún: "Það fyrsta sem ég kynntist í fari Margrétar var sérkennileg hlýja og mannkærleikur sem var hennar leiðarljós. Hún trúði á allt gott og heilbrigt í náttúrunni og skynjaði þær víddir í daglegu lífi sem venjulegu fólki sést yfir. Hún var skemmtileg blanda af hugsjónakonu um andleg málefni og hugmyndaríkri framkvæmdakonu."

Í minningargrein um Margréti komst vinur hennar Hallgrímur Helgason svo að orði: "En mitt í sínu þéttofna lífsmynstri mundi hún þó alltaf eftir okkur öllum, hún gleymdi aldrei að líta inn, hún gaf sér alltaf tíma, þáði te og settist niður til að tala. Hún talaði við mann þar til manni fór að líða vel og ég gat sæll haldið áfram við málverkið á meðan hún sat og sagði manni allt það sem satt er, allt það sem gott er og allt það sem er okkur fyrir bestu, allt það sem við getum ræktað betur. Því þannig var Magga, allt um nýtt og betra líf, betri heilsu, betri líðan, allt það kunni hún svo vel, allt varðandi lífið sjálft, það var hennar sérgrein."