Móna Lísa eftir Leonardo da Vinci.
Móna Lísa eftir Leonardo da Vinci.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Um daginn fékk ég kort í bréfakörfuna mína sem sýndi mynd af málverkinu Madonnu eftir Edvard Munch með fyrirsögninni: "Hefur þú séð Madonnu?

Um daginn fékk ég kort í bréfakörfuna mína sem sýndi mynd af málverkinu Madonnu eftir Edvard Munch með fyrirsögninni: "Hefur þú séð Madonnu?" Eins og flestir væntanlega vita sem hafa fylgst með fréttum var Madonnu Munchs stolið ásamt Ópinu af vopnuðum ræningjum úr Munch-safninu í Osló 22. ágúst síðastliðinn og hefur ekkert spurst til þeirra síðan. Í fyrstu áleit ég kortið því vera hluta af herferð Munch-safnsins í leit sinni að málverkinu en reyndist svo eftir allt saman auglýsing frá Leturprenti, enda væri það einkennilegt á tímum Netsins og fjölmiðlavæðingar að prenta póstkort til að auglýsa eftir málverki og senda í heimahús. Þetta var hins vegar aðferð sem brúkuð var hér forðum og reyndist vel.

Eftir hvarf málverkanna hafa ímyndir þeirra verið meira áberandi en þegar þau voru til sýnis og vinsældir þeirra aukist, þá sérstaklega Madonna, þótt Ópið hafi hingað til verið kynnt sem lykilverk Munchs. Madonna snertir hins vegar viðkvæmari strengi hvað þjófnaðinn varðar, enda mynd af mærinni heilögu sem ekki má saurga.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem vinsældir listaverka aukast við þjófnað. Frægasta dæmið er þegar Mónu Lísu var stolið úr Louvre-safninu 21. ágúst árið 1911. Fjallar breski sálfræðingurinn Darian Leader um áhrif og hugsanlegar ástæður að baki þjófnaðinum á þessu málverki Leonardos da Vincis í bók sinni Stealing the Mona Lisa sem kom út árið 2002. Leader greinir m.a. frá því að eftir að málverkinu var stolið hafi Louvre-safnið hafið þvílíka herferð í leit sinni að enginn gat efast um mikilvægi málverksins. Plaköt voru hengd upp víðast hvar um Evrópu með mynd af Mónu Lísu og yfirskriftinni: "Hefur þú séð þetta málverk?" Myndir voru sendar út með mjólkurpóstinum eins og að um tínt barn væri að ræða og myndskeið í kvikmyndahúsum auglýstu eftir málverkinu. Alls staðar í Evrópu var fólk að meðtaka ímynd Mónu Lísu. Aðsókn í safnið jókst og fjöldi manns gerði sér meira að segja ferð þangað til að horfa á tóman vegginn þar sem Móna Lísa hafði áður hangið.

Herferð Louvre stóð yfir í tvö ár eða þangað til málverkið fannst í sérsmíðaðri skúffu undir borði í íbúð á Ítalíu. Þjófurinn, Vincenzo Peruggia, viðurkenndi að hafa ætlað að stela allt öðru málverki en kippti Mónu Lísu með sér af því að honum fannst hún brosa til sín þegar hann gekk framhjá henni. Goðsögnin um bros Mónu Lósu (Mona Lisa's smile) varð þar með að veruleika.

Fyrir þjófnaðinn var Móna Lísa eitt af mörgum frægum málverkum í Louvre en eftir þjófnaðinn tók það forystuhlutverkið og hefur haldið því til þessa dags. Ekki vegna þess að það er besta málverk allra tíma. Það er af og frá. Heldur vegna þess að auglýsingaherferðin skilaði miklu meira en málverki til baka. Hún skilaði goðsögn eða idol-stjörnu. Móna Lísa var og er best markaðssetta listaverk í heimi.