MORGUNBLAÐINU hefur borist eftirfarandi athugasemd frá Jóni Gunnari Zoëga hæstaréttarlögmanni: "Í framhaldi af yfirlýsingu fyrrum forráðamanna Frjálsrar fjölmiðlunar ehf., sem birtist í Morgunblaðinu í gær 18.

MORGUNBLAÐINU hefur borist eftirfarandi athugasemd frá Jóni Gunnari Zoëga hæstaréttarlögmanni:

"Í framhaldi af yfirlýsingu fyrrum forráðamanna Frjálsrar fjölmiðlunar ehf., sem birtist í Morgunblaðinu í gær 18. janúar í tilefni af óvenju illvígri umfjöllun Fréttablaðsins um málefni tengd þeim og vegna umfjöllunar Ingimars Karls Helgasonar fréttamanns á fréttastofu RUV sama dag um efnisatriði þeirrar yfirlýsingar, vill undirritaður leyfa sér að biðja Morgunblaðið um eftirfarandi athugasemd: Ég sendi fjölmiðlum hinn 27. nóvember 2002 nákvæmar upplýsingar um stöðu krafna vegna þrotabús Frjálsrar fjölmiðlunar og að hve miklu leyti þær kröfur tengdust forráðamönnum félagsins og öðrum eigendum (hluthöfum).

Morgunblaðið birti þessar upplýsingar daginn eftir, en fréttastofa RUV ekki, af hvaða ástæðu veit ég ekki. Bið ég Morgunblaðið vinsamlegast að birta þessar upplýsingar aftur nú, því þær staðfesta, að í yfirlýsingunni í gær er sízt ofmælt um umfang krafna hluthafa Frjálsrar fjölmiðlunar í þrotabú félagsins. Sýnir þetta bezt hvað allir stærstu hluthafar félagsins reyndust því vel á lokasprettinum.

Það er rétt að það komi fram hér að Fréttablaðinu var á mánudag send til birtingar yfirlýsing fyrrverandi forráðamanna FF, en blaðið hefur ekki séð ástæðu til að birta hana. Hjá núverandi stjórnendum þess miðils er greinilega ekki höfð í hávegum sú grundvallarregla í siðfræði fréttamennskunnar að þeir menn, sem svo ómaklega er að vegið, fái að bera hönd fyrir höfuð sér. Það sama virðist reyndar upp á teningnum hjá fréttastofu RUV.

Með vinsemd og virðingu.

19. janúar 2005.

Jón Gunnar Zoëga

hæstaréttarlögmaður."

Yfirlýsing Jóns G. Zoëga 27. nóvember árið 2002

Hér fer á eftir yfirlýsing sú sem Jón G. Zoëga sendi fjölmiðlum 27. nóvember árið 2002:

"Vegna fjölmiðlaumræðu um málefni Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. hafa stjórnarmenn félagsins beðið mig að taka eftirfarandi fram:

1. Yfirlýst stefna Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. undanfarin tvö ár var að selja eignir til að létta á skuldum félagsins. Ráðstöfun þeirra fjármuna sem komu út úr ofangreindum eignasölum er nú til skoðunar hjá skiptastjóra félagsins. Er þar m.a. um að ræða skoðun á því hvort félagið hafi verið knúið til þess af einstökum lánardrottnum að ráðstafa fjármunum sínum á einn veg frekar en annan. Í einhverjum tilfellum telur skiptastjóri að ekki liggi fyrir nægilegar upplýsingar til að varpa ljósi á einstök mál. Er því fagnað að skiptastjóri leiti allra leiða, þ.m.t. leiti aðstoðar þartilbærra yfirvalda, við skoðun sína.

2. Fyrsti skiptafundur var haldinn í félaginu í dag. Fyrir fundinn kom fram fjöldi lýstra krafna sem ekki tengjast starfsemi félagsins og augljóst er að verður mótmælt af raunverulegum kröfuhöfum. Til glöggvunar eru hér listaðar upp þær kröfur sem fram hafa komið, án tillits til þess hvort þeim hefur verið hafnað:

Forgangskröfur 47,0 m.kr.

Krafa yfirmanna fjármálasviðs og ritstjórnar 24,5 m.kr.

Almennar kröfur 195,0 m.kr.

Lýstar kröfur hluthafa, þ.m.t. fjármálastofnana, 1.308,8 m.kr.

Lýstar kröfur v. riftunar DV, andvirði 330,3 m.kr.

Lýstar kröfur v. rekstrarskulda DV (sem DV ber að greiða) 280,8 m.kr.

3. Af þessu má sjá að meginþorri lýstra krafna er vegna fjárframlaga og lána sem hluthafar Frjálsrar fjölmiðlunar inntu af hendi, þ.m.t. fjármálastofnanir. Ef slíkar kröfur eru undanskildar eru almennar kröfur innan við 200 m.kr. Í dag eru til ráðstöfunar 300-400 m.kr. og er hugsanlegt að sú tala eigi eftir að hækka. Því er rétt að bíða með fullyrðingar um niðurstöðu skiptanna þar til allar staðreyndir liggja fyrir.

4. Að gefnu tilefni skal einnig tekið fram að meint vörsluskattaskuld var gerð upp með leiðréttingum hjá Tollstjóranum í Reykjavík í september síðastliðnum.

F.h. stjórnarmanna

Frjálsrar fjölmiðlunar ehf.

Jón G. Zoëga, hrl."