— Morgunblaðið/Steinunn Ásmundsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
AFL - Starfsgreinafélag Austurlands hefur falið Regula lögmannsstofu að höfða mál gegn Impregilo og portúgölsku starfsmannaleigunum Select og NETT vegna vangoldinna sjúkrasjóðsiðgjalda til félagsins.

AFL - Starfsgreinafélag Austurlands hefur falið Regula lögmannsstofu að höfða mál gegn Impregilo og portúgölsku starfsmannaleigunum Select og NETT vegna vangoldinna sjúkrasjóðsiðgjalda til félagsins. Ennfremur verður fyrirtækjunum stefnt vegna lögbundinna dráttarvaxta og innheimtuþóknunar, sem Impregilo (fyrir eigin hönd og starfsmannaleignanna) neitaði að greiða.

"Okkur sýnist að við verðum fram á vorið að koma stefnunni í gang," sagði Aðalbjörn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Afls, í samtali við Morgunblaðið í gær. "Við erum að stefna móðurfélögunum úti í Portúgal og við þurfum því að þýða gögn og koma þessu í réttan farveg. Um er að ræða á annan tug milljóna sem þegar liggja fyrir, sem eru þá sjúkrasjóðsiðgjöldin, dráttarvextir og innheimtukostnaður. Þetta gætu verið tugir milljóna á framkvæmdatímanum ef þessir Portúgalar halda áfram í jafnmiklum mæli og verið hefur við Kárahnjúkavirkjun."

Í fréttatilkynningu frá Afli segir að fyrirtækin sem stefna á hafi þegar greitt félags- og orlofssjóðsiðgjöld en enginn árangur hafi náðst af innheimtu sjúkrasjóðsiðgjalda.

Öllum fyrirtækjum á Íslandi er gert að greiða félags-, sjúkrasjóðs- og félagsiðgjöld vegna starfsmanna sinna til viðkomandi stéttarfélags. Sjúkrasjóðsiðgjald tryggir starfsmanni ákveðna samtryggingu ef til veikinda kemur eða ef starfsmaður slasast. Impregilo og starfsmannaleigurnar bera fyrir sig að starfsmenn þeirra hafi allir lagt fram svokallað E-101-eyðublað sem undanskilji þá öllum greiðslum í opinbera samtryggingarsjóði hér á landi. Skv. túlkun íslensku verkalýðshreyfingarinnar eiga þessi rök ekki við, þar sem hvergi er minnst á sjúkrasjóði stéttarfélaganna í reglugerð tengdri E-101, en hún fjallar um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum og fjölskyldum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja.

Aðalbjörn segir klárlega um prófmál að ræða. "Við teljum okkur hafa unnið mál í höndunum, en þeir væru ekki að fara af stað með þetta ef þeir teldu sig ekki hafa einhver rök haldbær. Þetta er prófmál og ef niðurstaðan verður þeim í hag þýðir það strangt til tekið fyrir fyrirtækin að erlendir starfsmenn eru strax orðnir þessum prósentum ódýrari, sem er stórmál. Kannski er það ekki höfuðatriði í sambandi við hvort ráðnir eru útlendingar eða Íslendingar en það skiptir allt máli og m.a. þessir sjóðir," segir Aðalbjörn.

Í kjarasamningi milli Landsvirkjunar og Samtaka atvinnulífsins vegna aðildarfyrirtækja annars vegar og Alþýðusambands Íslands, Starfsgreinasambands Íslands, Samiðnar og Rafiðnaðarsambands Íslands hins vegar um kaup og kjör við virkjunarframkvæmdir á vegum Landsvirkjunar (hinum svokallaða virkjanasamningi) er fjallað um sjúkrasjóði í grein 9.1. Þar segir orðrétt: "Vinnuveitendur skulu greiða í sjúkrasjóð viðkomandi félaga eða sambanda sem svarar til 1% af útborguðu kaupi starfsmanna, til að standa straum af veikindum og sjúkrakostnaði."