Spurning: Lesandi fékk bókina Belladonnaskjalið í jólagjöf. Hún hafði verið keypt í Pennanum og á henni var miði sem sagði að ef skipta ætti bókinni þyrfti að gera það fyrir 15. janúar. Fyrir þann tíma var farið með bókina og henni skilað.
Spurning: Lesandi fékk bókina Belladonnaskjalið í jólagjöf. Hún hafði verið keypt í Pennanum og á henni var miði sem sagði að ef skipta ætti bókinni þyrfti að gera það fyrir 15. janúar. Fyrir þann tíma var farið með bókina og henni skilað. En í stað þess að fá 4.200 krónur fyrir hana eins og bókin hafði kostað fyrir jól þá var hún nú komin á tilboð og kostaði 1.900 krónur. Munurinn nemur 2.300 krónum.

Haft var samband við Ingþór Ásgeirsson, framkvæmdastjóra verslunarsviðs Pennans, og hann spurður um ástæðuna fyrir þessum mismun?

Svar: "Viðmiðunarverð á þessari bók var 4.280 krónur en síðustu vikuna fyrir jól var hún seld á 3.420 krónur hjá okkur. Útgefandinn bauð síðan upp á tilboð núna í janúar þar sem bókin var komin í 1.990 krónur. Á sama tíma var send út tilkynning um að ef bókinni væri skilað ætti að taka hana inn á 3.420 krónur. Þetta hafa því verið hrein og klár mistök hjá starfsmanni okkar og okkur þykir það mjög leitt.

Þær bækur sem við seljum núna á tilboðinu eru ekki í plasti svo við sjáum greinilega hvort bókin hefur verið keypt á tilboði eða áður en hún fór á tilboð. Annars teljum við okkur gera vel við bókakaupendur. Þeir sem skila bókum geta valið aðrar í staðinn, en margir vilja inneignarnótur. Þessar nótur gilda síðan fyrir hvaða vöru sem er í búðinni og á hvaða tíma sem er. Það er því hægt að gera góð kaup fyrir inneignarnótur á bókaútsölunni sem hefst 25. janúar. Í boði verða 500 bókatitlar og eru nokkrir þeirra þegar komnir á útsöluna og bætast einhverjir við á hverjum degi þar til útsalan hefst af fullum krafti hinn 25. nk."