"Það er ekki heiglum hent að skapa sinn eigin myndheim á svo fjölfarinni braut en Valgerður er hvergi bangin og tekst vel upp."
"Það er ekki heiglum hent að skapa sinn eigin myndheim á svo fjölfarinni braut en Valgerður er hvergi bangin og tekst vel upp." — Morgunblaðið/Þorkell
Til 6. febrúar. Listasafn ASÍ er opið þriðjudaga til sunnudaga frá kl. 14-18.

Á SÍÐUSTU árum hefur myndlistarkonan Valgerður Guðlaugsdóttir nánast sérhæft sig í samfélagsádeilu og viðfangsefni hennar verið að hluta til jafnréttismál, hvoru tveggja áleitin og brýn viðfangsefni samfélagsins í dag hvert sem verksviðið er, listir, starf á stjórnmálavettvangi, kennsla, barnauppeldi eða eitthvað enn annað.

Á sýningunni Ný íslensk myndlist í Listasafni Íslands er ofbeldi og stríð aðalviðfangsefni Valgerðar og þá sérstaklega hvernig þessir þættir birtast í lífi einstaklingsins dags daglega. Einnig þar koma staða og hlutverk kynjanna við sögu. Í Listasafni ASÍ þar sem hún er með einkasýningu beinir Valgerður sjónum sínum að stöðu konunnar í samfélaginu og þá helst að þeim kröfum sem gerðar eru til okkar hvað varðar útlit og vaxtarlag. Það er kannski óhætt að segja að þessir þættir hafi að einhverju leyti verið viðfangsefni listamanna af kvenkyni um aldir alda, að minnsta kosti hafa kröfur samfélagsins jafnan verið ærnar og síst minni í dag en fyrir meira en einni öld þegar rauðsokkurnar voru að heyja baráttu sína. Hvað hefur áunnist? Á sjöunda áratugnum brenndu konur brjóstahaldarana en í dag hefur úrvalið af alls kyns barmfegrandi brjóstahöldurum aldrei verið meira, mismunandi fyllt og styðjandi við hér og þar - tæknin er orðin þvílík að undrun sætir. Push-up haldararnir minna helst á lífstykkin forðum daga þó ekki séu þeir reyrðir eins fast að. Nú ætla ég ekki að gera lítið úr baráttu rauðsokkanna í gegnum tíðina sem hefur áorkað mun meiru en við gerum okkur grein fyrir. En það virðist sem margir telji að baráttunni sé lokið, jafnrétti sé náð. Þetta er auðvitað mesta firra. Ég ætla heldur ekki að gera lítið úr jafnréttisbaráttu karlmanna á ýmsum sviðum sem einnig er þörf, jafnrétti hlýtur jú að ganga í báðar áttir. En við konur eigum enn langt í land og þær kröfur sem til okkar eru gerðar eru orðnar allt of miklar, ekki síst þær sem við gerum sjálfar og á öllum sviðum, kröfur um að standa okkur vel jafnt í starfi sem heima fyrir, alla daga og alltaf.

Það er ekki síst þetta síðastnefnda sem ég skynja að baki verkum Valgerðar Guðlaugsdóttur í ASÍ, kröfurnar sem við gerum sjálfar til útlits okkar og hversu langt við erum tilbúnar að ganga vegna yfirborðslegrar útlitsfegurðar. Í Gryfju sýnir Valgerður samsettar ljósmyndir og skáp með þjölum og öðrum áþekkum áhöldum, í skápnum eru myndir af konum sem setur hann í samhengi við vinnustaðamyndir á karllegum vinnustöðum eins og bílaverkstæðum eða smíðaverkstæðum. Hér er einnig að finna skúlptúra sem fela í sér bæði húmor og óþægindi en það er einmitt samspilið þarna á milli sem er aðalsmerki listar Valgerðar. Í Ásmundarsal er síðan innsetning sem skapar sterkan heildarsvip þó að einstök verk geti einnig staðið ein og sér. Stórar rauðar "neglur" og gifsskúlptúrar á vegg eru unnar í sama anda og t.d. verk Mari Slaattelid sem fékk Carnegie-verðlaunin 2002 fyrir ljósmyndir og veggverk byggð á augnskuggum. Hér hefur Valgerður skapað "snyrtistofu" sem engan langar að heimsækja en þó er fyrirmyndin án efa mun óskemmtilegri en áleitin og eftirminnileg innsetning Valgerðar. Margir listamenn og -konur hafa sótt innblástur til áþekks viðfangsefnis og Valgerður gerir hér, t.d. Matthew Barney og verk hans sem hafa líkamsrækt að viðfangsefni. Einnig má nefna frönsku listakonuna sem lætur gera lýtaaðgerðir á sjálfri sér og tekur upp á myndband. Það er ekki heiglum hent að skapa sinn eigin myndheim á svo fjölfarinni braut en Valgerður er hvergi bangin og tekst vel upp, hún sýnir hér áræði og kraft. Ennfremur lætur henni vel að vinna á stórum skala, nokkuð sem gæti reynst list hennar vel í framtíðinni. Sýning Valgerðar vekur líka upp spurninguna um stöðu kvenréttindabaráttunnar við upphaf 21. aldar. Efni í samsýningu?

Ragna Sigurðardóttir